Undanfarin misseri hef ég lítið gert af því að gæða mér á lystisemdum tónlistarinnar sem svífa hjá eins og fjarlægar krásir. Maður nennir því eiginlega ekki. Um það bil þegar Signý fæddist, og raunar á sama tíma og ég beið eftir að þær mæðgurnar kæmu heim af spítalanum, þá hreifst ég af tónlist Sufjan Stevens "Come on Feel the Illinoise". Öll önnur tónlist fannst mér hreinlega óviðeigandi á þeirri stundu. Næmni, undraverður margbreytileiki og virðing Sufjans fyrir viðfangsefni sínu virkaði sem prýðilegur bakgrunnur á meðan ég sat heima i myrkrinu og velti vöngum yfir breytingunum framundan.
Nú er langt um liðið, erillinn síbreytilegur en allt annars konar en áður. Inn á milli leyfir maður sér þó að hlusta á tónlist. Mest af því sem maður heyrir útundan sér er grófgert, klunnalegt eða klisjukennt. Heimstónlist af ýmsum toga hefur í staðinn átt hvað helst upp á pallborðið hjá mér, enda undraverður hljómaheimurinn, snilldarleg spilamennskan og takmarkalaus einlægnin og spilagleðin. Á svipuðum forsendum hefur mér þó tekist að falla fyrir lítt þekktri plötu frá hljómsveit sem heitir Grandaddy (Sopthware Slump). Hún nær inn á sömu bylgjulengd og Radiohead á sínum næmustu stigum (t.d. Exit Music), Sigurrós (af Ágætis byrjun), Flaming Lips (The Soft Bulletin), Air (vélrænn drungi Virgin Suicides) og Pink Floyd á heiðríkjutímabilinu sínu þegar sýran gerði himinninn fölbleikan (Atom Heart Mother). Sopthware Slump er undraverð plata sem kemur manni algerlega í opna skjöldu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli