föstudagur, maí 12, 2006

Lestur: Draumalandið

Ég keypti Draumalandið í vikunni eftir Andra Snæ og er um það bil að lesa hana upp til agna. Þvílík bók! Hann hefur lagt allt undir, allar sínar hugmyndir og hugsjónir, og sameinað það í einu heildsteyptu meistaraverki sem talar til nútímans eins og vísdómur að handan. Hugsunin er gegnumgangandi kristaltær, einföld og skýr. Með barnslega forvitni og einlæga leit að einföldum og áþreifanlegum sannleika nær Andri að fletta ofan af orðræðunni í samfélaginu, sem oft og tíðum er ekkert öðruvísi en laukur, blekkingarleikur þar sem lag eftir lag afhjúpar innistæðulaust hjóm.

Bókina keypti ég í vikunni en er búinn að vera á leiðinni alllengi út í bókabúð. Síðan barst "þjóðargjöfin" inn um póstlúguna í síðasta mánuði, eða hvað það nú hét - ávísunin sem hægt var að leysa út í bókabúð upp á þúsundkall, svo lengi sem maður keypti sér íslenska bók og splæsti saman við hana að lágmarki tvöþúsund krónur (svipað og viðbótarlífeyrissparnaðurinn). Ég öslaðist inn hálftíma fyrir lokun á síðasta degi - næstum búinn að gleyma eindegi ávisunarinnar. Þá var bókin uppseld, nokkuð fyrirsjáanlega, en það sem kom mér skemmtilega á óvart var að þetta var þriðja upplagið sem þjóðin hafði keypt upp. Fjórða var á leiðinni. Ég var ekki búinn að snúa mér frá afgreiðsluborðinu þegar önnur manneskja vatt sér að sömu afgreiðsludömu og spurði um bókina hans Andra. Nokkru síðar heyrði ég útundan mér að þriðja manneskjan spurðist fyrir um bókina. Sá fjórði bættist við áður en ég yfirgaf bókabúðina. Allir á höttunum eftir úrvalsbókinni með þúsundkróna ávísun í vasanum. Afgreiðsludaman var nú samt sniðug. Fyrst bókin var á leiðinni, og ég vildi eindregið hana, benti hún mér á að kaupa einhverja aðra bók í staðinn og skipta henni síðar út fyrir Draumalandið. Það gerði ég og hef nú leyst bókina úr læðingi, ef svo má að orði komast, svo öflug er lesningin.

Engin ummæli: