mánudagur, maí 08, 2006

Upplifun: Þrír vorboðar

Í dag varð ég þess sterklega áskynja að sumarið væri á næsta leyti. Það byrjaði eiginlega með kórnum í gær. Þá kláraðist langt og erfitt æfingaferli með vel heppnuðum tónleikum. Það var því með vissum létti, sem minnti á próflok, sem ég rölti um götur og stræti í dag. Því til undirstrikunar tóku veðurguðirnir undir með himneskri blíðu. Það er búið að vera bjart og hlýtt í nokkra daga í röð og sælan virðist vera að færast í aukana ef eitthvað er. Í dag og í gær nálgaðist hitinn tuttugu stig víðast hvar. Þegar hitinn staldrar við í nokkra daga í senn með þessum hætti finnst manni sumarið óafturkallanlegt. Það er komið til að vera. Við Vigdis tókum einnig af skarið og fórum í fyrsta skipti í sund á árinu. Signý fór með. Hún hefur enn ekki farið í ungbarnasund (það stendur þó til bóta) þannig að við tókum hana með í vagni. Það gekk bara vel. Aðstaðan í Vesturbæjarlauginni er til fyrirmyndar að þessu leyti. Ég kom inn gegnum sérleið bakatil eins og hjólastóll og nýtti mér útiklefana til að svissa yfir í sundgírinn. Unaðslegt að komast loksins í heitu pottana og renna saman við samtölin sem þar krauma afslöppuð og notaleg. Sumarið er því sannarlega komið, ekki bara í sinni og veðri heldur einnig í verklegri rútínu, því þetta ætlum við að endurtaka sem fyrst.

Engin ummæli: