sunnudagur, júní 04, 2006

Ferðalag: Komin til Köben

Nú erum við Vigdís loksins komin til Danmerkur og höfum það afskaplega náðugt hjá Kristjáni og Stellu. Þau búa ekki svo ýkja langt frá miðbænum og við Vigdís höfum verið dugleg að kíkja í bæinn, bæði á kvöldin og á daginn. Þess á milli njótum við góðs af félagsskapnum "heima", þar sem Áslaug Edda stelur oft senunni.

Dagarnir fyrir brottför voru hálf þögulir hér á bloggsíðunni. Ég var á fullu í vinnunni alla daga, meira að segja brottfarardaginn, og stóð í ströngu við að undirbúa útskrift og sýningu hjá nemendum. Á meðan var Vigdís upptekin við að undirbúa heimilið fyrir langa helgarpössun. Við vorum nefnilega svo heppin að Sirrý (mamma Vigdísar) sá sér fært að gista heima hjá okkur og gæta Signýjar. Í betri höndum gat hún vart verið, sérstaklega í ljósi þess hve margir voru tilbúnir til að létta undir með henni. En þetta hefur víst gengið vonum framar.

Ýmislegt annað gerðist á þessum tíma sem ekkert var skrifað, meðal annars það að Jón Már og Margrét komu heim úr þriggja vikna Afríkudvöl. Eina drjúga kvöldstund sátum við saman og skoðuðum frábærar ljósmyndir af dýralífinu, nutum ferðasögunnar og hlustuðum á stemningsríka tónlist frá Afríku. Gæðastund sem vert er að minnast (þegar Afríka komst með hjálp stafrænu tækninnar beint inn í stofu). Þetta var á miðvikudaginn var og þá var stutt í brottför hjá okkur Vigdísi, ferð sem virkar saklaus í samanburði við Afríkudvöl en krafðist samt talsverðs undirbúnings.

Nú erum við sem sagt komin út og allt hefur gengið mjög vel. Vigdís fer heim á morgun en ég kem ekki heim fyrr en rúmlega viku seinna (fjórtánda júní) eftir nokkurra daga aukadvöl í Noregi og þriggja daga ferðalag aftur til Köben.

Engin ummæli: