föstudagur, júní 16, 2006

Ferðalag: Yfirlit og heimkoma

Þá er ég kominn heim eftir vel heppnað ferðalag um Danmörku og Noreg. Í raun voru þetta þrjú ferðalög í einni samanþjappaðri bendu. Fyrst fórum við Vigdís saman til Kaupmannahafnar og gistum hjá Kristjáni og Stellu. Sá hluti ferðarinnar var um fjórir dagar. Eftir það fór Vigdís heim og ég hélt áfram til Noregs á vit vinnunnar þar sem vinnufélagar mínir í Brúarskóla komu saman til að skoða ýmsar menntastofnanir sem knúnar eru áfram af djúpt hugsaðri hugmyndafræði. Þetta var fjögurra daga dvöl í Larvík, með viðkomu í Osló, bæði fyrir og eftir. Að þessu loknu tók ég ferju yfir til Danmerkur á eigin vegum í eins konar "pílagrímsferð" um fornar slóðir mín sjálfs í Skagen og Odense þar sem ég vann sumarlangt árin 1995 og 1992. Í ferjunni dvaldi ég fyrst eina nótt, því næst eina í Skagen, svo eina í Odense og að lokum gisti ég eina nótt enn í Kaupmannahöfn hjá Kristjáni og Stellu.

Mikil hitabylja reið yfir nær látlaust þennan tíma svo að ferðin var að mörgu leyti vandasöm. Lestarkerfið í Danmörku fór til að mynda úr skorðum í nokkra daga vegna hitans því vegna víkkunar á teinunum þurfu lestirnar að aka hægar. Við það fór allt kerfið úr skorðum. Að öðru leyti gekk ferðalagið nánast snuðrulaust og ég komst heill á leiðarenda. Það var virkilega gaman að koma heim í litla kotið í Vesturbænum og fylgjast með fyrstu viðbröðgum Signýjar. Hún virti mig fyrir sér vandlega í einar tíu til fimmtán sekúndur áður en hún brosti breitt og tók að sprikla. Eflaust hefur úfinn, syfjaður, órakaður og þeldökkur kollurinn virkað einkennilega á hana í fyrstu.

Engin ummæli: