fimmtudagur, júní 29, 2006

Þroskaferli: Gníst, hátíðnihljóð og fingurkoss

Síðast minntist ég á tennurnar tvær sem eru jafnt og þétt að læðast fram úr efri góm Signýjar þessa dagana. Augljóslega er sársaukafyllra að gefa henni að drekka móðurmjólk af brjósti þegar hún er fær um að bíta en það sem kom okkur hins vegar á óvart er hvað Signý var fljót að byrja að gnísta tönnunum. Maður sér þetta gerast með smá fyrirvara: Hakan herpist ögn inn á við, eins og hún sé að naga eitthvað, og svo heyrist lítið hljóð. Þá erum við ekki lengi að grípa í eitthvað nærtækt fyrir hana að sjúga.

Heppinn var ég að góma "frussið" hennar Signýjar í síðustu viku því nú virðist það horfið eins og dögg fyrir sólu. Hún er nefnilega búin að uppgötva annað og áhrifameira hljóð. Einn morguninn sat ég og var að dunda mér í tölvunni og heyrði hana ýla með slíkum hátíðnibrag að ég snöggleit við í hvert skipti, því það hljómaði eins og hún væri að meiða sig. Þar lá hún hins vegar með leikföngin sín og dundaði sér rólyndislega. Vigdís kíkti fram nokkru síðar og spurði hvort ekki væri allt í lagi með hana. Þetta var á föstudaginn var og síðan þá hefur hún nýtt sér þetta hljóð, ýmist til dundurs eða til að kalla á athygli. Frussið er á sama tíma algerlega á bak og burt.

Tjáningin er náttúrulega öll að vaxa þó einhverjir sprotar visni. Það skemmtilegasta sem við Signý gerum þessa dagana (og er alveg nýtilkomið) er að spjalla saman með "gómsmellum". Þetta er eins konar fingurkoss þar sem fingurinn kemur ekki við sögu. Ég renni vörum yfir tennurnar og smelli skýrt til hennar, hún gjóar augunum til baka og brosir áður en hún smellir með sama hætti til baka. Hún er ansi hróðug yfir árangrinum og iðar öll yfir því að geta átt þessi markvissu samskipti. Jafnvel þegar hún er stúrin virkar þessi leikur nógu vel til að kalla fram bros.

Engin ummæli: