fimmtudagur, júní 22, 2006

Þroskaferli: Tennur, athygli og hreyfingar

Þegar ég kom heim frá Danmörku var svolítið mikil viðbrigði að sjá tvær myndarlegar tennur í efri góm Signýjar. Þær eru stórar og myndarlegar og minna ekkert á barnatennur (eru reyndar bara rétt nýbyrjaðar að gægjast). Annars er það einnig af henni að frétta að við fórum í sex mánaða skoðun (með tilheyrandi sprautu, sem hún stóð af sér með prýði). Hún var vigtuð, að vanda, og mælt á hæðina (6,78 kg og 66,2 sentímetrar). Stutt í sjö kílóa markið.

Signý er farin að hjala mjög mikið og tjá sig með ýmsum hætti. Hún hefur lag á því að hjala á innsoginu á milli venjulegra hljóða út á við. Þegar hún verður pirruð og vill kvarta yfir meðferðinni bætir hún við "burri" eða eins konar frussi þar sem hún freyðir af vörum, og kiprar augun í leiðinni. Þetta er auðvitað einstaklega sætt að sjá og gaman hvað hún er útsjónarsöm í að tjá sig. Hreyfiþroskinn er einnig allur nokkurn veginn á réttu róli. Ég myndi þó ætla að hún hafi fremur þroskaðar fínhreyfingar (tekur utan um bolta með fingurgómunum og á auðvelt með að stýra fingrunum í sitt hvoru lagi) en þroskinn er hægari í grófhreyfingum (er enn mjög völt þegar hún situr). Til dæmis er það fyrst núna í sumar sem hún sýnir tánum sínum áhuga, en það kemur víst mjög snemma hjá flestum krökkum. Hún er hins vegar mjög klár í þessu og er yfirleitt upptekin við að klæða sjálfa sig snyrtilega úr sokkunum. Ég hef auðvitað mína skýringu á því hversu seint þetta atriði kemur fram: hún er sú að athygli Signýjar hefur aðallega beinst út á við. Hún er mjög athugul á allt í kringum sig, virðir sjónvarp fyrir sér gaumgæfilega, hlustar á tónlist af athygli og skoðar bækur og myndir af áhuga (hún vill gjarnan kroppa í myndirnar sem hún sér á blaðsíðunni og skilur ekkert í því að hún skuli ekki ná taki á þeim). Í samræmi við þetta tók Signý snemma út mannafælutímabilið sitt (um þriggja mánaða) og tekur nú öllum með brosi á vör (og fjórum litlum sætum tönnum).

Engin ummæli: