Þessi heimsmeistarakeppni í Þýskalandi er hreint ótrúleg. Allt sem hefur gerst hingað til er eftir bókinni (ef undan er skilið brottfall Tékka). Nú þegar átta lið eru eftir hefur keppnin hrist af sér alla laumufarþega: Asíuþjóðir, Afríkuþjóðir, Norður-Ameríkuþjóðir og Eyjaálfu. Eftir standa þjóðir með ríka boltahefð: sex Evrópuþjóðir og tvær Suður-Ameríkuþjóðir. Ef við lítum fram hjá Uruguay (sem kom hvort eð er aldrei til Þýskalands) eru saman komnar í átta liða úrslitunum allar þær þjóðir sem nokkurn tímann hafa unnið til heimsmeistaratitilsins. Það er einsdæmi. Þar að auki eru með í för Portúgal (sem vann heimsmeistarakeppni ungmenna fyrir rúmum áratug og hafa fyrir vikið lengi þótt gott heimsmeistaraefni) og Úkraína (ein helsta táknmynd hins forna stórveldis Sovétríkjanna).
Ég held enn með Portúgal. Þeir verða tæpir á móti Englendingum vegna þess hversu marga vantar í liðið eftir hrikalega raun í síðasta leik. Englendingar gætu líka álpast til að spila vel í þessum leik (og hafa sannarlega mannskapinn til þess). Komist Portúgal í gegnum þessa síu gæti hvíld lykilmanna reynst þeim blessun í dulargervi því þá mætir liðið eins ferskt og hugsast getur á móti annað hvort Brasilíu eða Frakklandi. Það er svo aftur rimma sem ég er gríðarlega spenntur fyrir vegna sögulegs gildis leiksins. Brasilía og Frakkland eru að stórum hluta enn skipuð leikmönnum sem áttust við í Frakklandi fyrir átta árum þegar Frakkar rúlluðu Brasilíu upp í háðuglegum úrslitaleik. Nú er spurningin hvort Brassarnir komi til með að mæta sérlega ákveðnir og einbeittir til leiks (loksins) vegna smánarinnar fyrir átta árum eða kemur úrslitaleikurinn frægi til með að lama sjálfstraust þeirra og vinna með Frökkum í staðinn? Um það er útilokað að spá (þó hallast ég að hinu fyrra). Sama gildir um leik Þýskalands og Argentínu sem tvívegis hafa ást við í úrslitaleik (1986 og 1990). Sú viðureign verður tvísýn. Bæði liðin eru talsvert betur spilandi og stemmd en nokkurn tímann síðan í þá daga. Það eina sem virkilega greinir þjóðirnar að í þetta skiptið er hins vegar heimavöllurinn, sem er Þjóðverjamegin. Það eitt gæti ráðið úrslitum. Hins vegar er ég sannfærður um úrslit í einum af þeim fjórum leikjum sem eftir eru. Ítalir koma til með að vinna Úkraínu. Það kæmi mér ekki á óvart ef sá leikur verður léttur fyrir Ítalina, því Úkraína getur því sem næst ekkert. En sjáum nú til...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli