sunnudagur, júlí 02, 2006

Upplifun: Zidane

Það fer mikill tími í fótboltann þessa dagana á milli venjulegra heimilisverka. Yfirleitt hef ég farið einn míns liðs á einhverja krána og reynt fyrir vikið að velja og hafna til skiptis svo að áhuginn bitni ekki of mikið á heimilisbragnum. Vigdís hefur hins vegar rennt hýru auga til keppninnar því hún hefur gaman af stemningunni í kringum hana. Það vildi svo til að seinni dag fjórðungsúrslitanna fengum við pössun þannig að við gátum notið dagsins saman - og það nýttum við til hins ítrasta. Sáum Portúgal og England á Rauða ljóninu (afar sóðalegur staður) og fluttum okkur um set fyrir betri leikinn - Frakkland : Brasilíu.

Leikinn sáum við á Glaumbar. Þar er aðstaðan algjörlega til fyrirmyndar og staðurinn skemmtilega samansettur af Íslendingum og ferðamönnum. Það vildi svo skemmtilega til að við sátum mitt á milli Frakka og Brasilíumanns. Brasilíumaðurinn reyndi að hafa gaman af leiknum en var satt að segja hálf vandræðalegur yfir frammistöðu sinna manna og viðurkenndi fúslega að Frakkar væru miklu betri aðilinn, og satt að segja væru þeir að spila nánast óaðfinnanlega. Ég horfði sjálfur dolfallinn á leikinn þróast frá því að finnast Brasilíumenn frískir í blábyrjun þar til Frakkar náðu tökum á leiknum og höfðu allt í hendi sér. Fréttastofan ITV velti frammistöðu Zidane sérstaklega fyrir sér í hléinu og sýndi nærmyndir af honum með boltakúnstir allt í kringum Brassana án þess að blikka auga á meðan þeir gulklæddu hlupu kringum hann eins og smástrákar. Þegar leið á seinni hálfleikinn fann ég fyrir fiðringi sem ég hef ekki fundið yfir fótboltaleik í háa herrans og beinlínis skalf af virðingu fyrir Zidane í hvert sinn sem hann tók við boltanum. Þarna var ekki á ferðinni konungur heldur Zen-meistari, eins yfirvegaður og búddamunkur, klókur eins og refur og klárari en Ronaldinho.

Frakkinn við hliðina á mér veðraðist allur upp við frammistöðu sinna manna og fór með þjóðrembingsklisjur hvað eftir annað: "Svona eru Frakkar!", - hálftaugaveikluðum rómi, - " Svona erum við!". Ég var fljótur að leiðrétta þessi orð því ég sá enga tengingu á milli Zidane og hins venjulega Frakka, hvað þá drekkandi og reykjandi bargests. Frammistaða af þessu tagi er þar að auki hafin yfir þjóðamörk. Hrifningin og innblásturinn nær til allra jafnt. Ég hallaði mér snarlega að Frakkanum með því að segja góðlátlega en hægt og ákveðið: "Svona er Zidane".

Engin ummæli: