laugardagur, júlí 15, 2006

Ferðalag: Vikudvöl í bústað

Jæja, þá er maður aftur kominn heim úr vikudvöl í sumarbústað í Grímsnesinu. Ég vildi ekki tilkynna það hér á síðunni fyrirfram ef ske kynni að einhver vafasamur einstaklingur væri að fylgjast með (bloggsíður eru kjörnar fréttasíður fyrir þjófa og aðra misyndismenn). Við Vigdís og Signý létum fara vel um okkur ásamt Sirrýju (móður Vigdísar). Til okkar kom fjöldi gesta og dreifðust heimsóknirnar nokkuð jafnt á vikuna. Veðrið var sæmilegt. Stundum bjart en yfirleitt skýjað.

Bústaðurinn sem við leigðum er alveg sér á parti. Þetta er glænýr bústaður sjúkraliðafélagsins og virkar á mann eins og nútímalegt heimili án þess þó að tapa bústaðasjarmanum. Hann er skipulagður þannig að stofan er alveg aðgreind frá svefnherbergjunum með holi og hurð á milli. Á svefnherbergjum eru þar að auki þéttar eldvarnarhurðir þannig að enginn skarkali berst yfir til þeirra sem sofa ef einhver vill vaka frameftir við að spila eða horfa á sjónvarp. Holið er að auki flísalagt þannig að það marrar ekki hrikalega í gólfinu að næturlagi. Hver kannast ekki við að vakna í sífellu við það að einhver annar sé að læðast á klósettið? Verst er þegar maður sjálfur er í spreng og tímir ekki að rjúfa næturkyrrðina með braki og brestum og heldur þar af leiðandi allt of lengi í sér. Nei, nei, hér var það sko ekki vandamál. Það heyrðist ekki múkk í flísunum. Þar að auki eru þær lagðar yfir hitalagnir þannig að holið sjálft er notalegur blettur um miðja nótt. Þar sem bústaðurinn státar af öflugum nuddpotti þjónar gólfhitinn einnig þeim tilgangi að þurrka upp blautu slóðina eftir okkur úr pottinum og inn á bað. Szchilllld!

Já, og ekki má gleyma græjunum: Uppþvottavél af bestu gerð og sjónvarp af nýjustu kynslóð flatra skjáa. Það vakti óneitanlega athygli allra gesta, enda unun að horfa á myndina í honum. Þar sáum við Zidane skalla Materazzi eftirminnilega og fylgdumst einnig með framgöngu Magna í Superstar þættinum. Að öðru leyti var hann hins vegar að mestu leyti bara fallegt stofustáss. Í bústaðaferðum er það aðallega tónlist eða þögnin sem ræður ríkjum, með fuglasöng inni á milli.

Engin ummæli: