sunnudagur, júlí 16, 2006

Fréttnæmt: Hjal breytist í "orðavísi"

Signý naut sín vel í bústaðarferðinni eins og við mátti búast. Þar var meðal annars að finna fyrirtaks barnarúm og barnastól þannig að aðstaðan var ekki síðri en heima. Síðan tókum við teppið hennar með og dýnuna sem hún yfirleitt liggur á. Planið var náttúrulega að hvetja hana sem mest til að fara að hreyfa sig meira, það er að segja að ná að sitja almennilega, snúa sér og skríða. Hún var farin að snúa sér eitthvað löngu áður en við fórum út til Danmerkur svo það skýtur skökku við að hún skuli ekki hafa fylgt því neitt eftir. Þetta gekk hins vegar ekki alveg eftir. Hún er í stuttu máli ekki enn farin að sitja almennilega né skríða en er þó farin að snúa sér meira en áður og getur nokkuð auðveldlega sveiflað sér yfir á magann (á erfiðara með að fara af maganum og á bakið - líklegast hrædd við að slá höfðinu niður í gólfið þar sem hún reigir það upp).

Framfaraskrefin í bústaðnum voru annars eðlis. Signý byrjaði á sjö mánaða afmælisdegi sínum að bera fram sérhljóða og samhljóða. Eins og allt annað gerðist það bara einn morguninn og eftir það var ekki aftur snúið. Ma-ma-ma segir hún með átakanlegum tóni þegar hún grætur eða biður um eitthvað. Stundum rennur þetta saman við a-ma-ma (nokkuð sem amma hennar benti réttilega á) eða jafnvel va-va-va. Fyrsta morguninn lék Signý sér með þessi nýju hljóð, bæði kvartandi og hjalandi, en síðan þá hefur hún beitt nýja vopninu einkum þegar hana vanhagar sárlega um eitthvað. Þess á milli leyfir hún sér að hjala "orðalaust".

Engin ummæli: