þriðjudagur, júlí 18, 2006

Upplifun: Náttúrulegt listflug

Ég varð fyrir mjög eftirminnilegri upplifun á leið minni fram hjá KR-vellinum í gærkvöldi. Ég skimaði fyrst í stað yfir mannfjöldann og var hissa á því að svo margir skuli yfirleitt nenna þessu. Hlustaði svo á tilþrifamikinn fjöldakliðinn sem braust eins og sprenging fram í fagnaðarlátum, eins og hafbylgja sem skellur óvænt á landi. Ég leiddi þetta þó að mestu leyti hjá mér og hélt göngunni áfram og sá skyndibitarusl á víðavangi - einn af fylgifiskum fjöldasamkoma af þessu tagi. Þá hrökk ég við það að fram hjá mér þeyttust stærðarfuglar og snerust í kraftmiklum sveig eins og orrustuþotur. Sá fremsti var hettumávur, nettari en hinir sem á eftir komu, tveir ef ekki þrír sílamávar (eða svartbakar eða eitthvað álíka - þeir eru svo líkir þessir mávar). Fleiri mávar bættust við úr annarri átt og fyrr en varði voru þeir fjórir mávarnir að elta þann eina með hettuna - því hann var með eitthvað í gogginum. Þjófslegi fuglinn hafði nælt sér í brauð og hinir ætluðu sér svo sannarlega að gogga það af honum. Í fyrstu sýndist mér þetta vera ójafn leikur. Sílamávarnir voru bæði fleiri, stærri og (að ég held) hraðfleygari en hettumávurinn. Eftir stutta stund sá ég hins vegar, mér til óblandinnar gleði, að smæðin vann með hettumávnum. Hann vék sér hvað eftir annað snilldarlega undan eins og lítil sýningaflugvél að stríða stirðbusalegum farþegaflugvélum. Hann gat vippað sér léttilega upp og niður eða snúið í þröngum hring á meðan hinir neyddust til að elta í fyrirhafnamiklum boga. Smám þynntist aftur í hópnum. Fyrsti sílamávurinn til að yfirgefa atganginn flaug sem leið lá í átt að KR-vellinum, í leit að auðveldari bita. Þeim fækkaði fljótt niður í einn máv sem þó hélt ótrauður eltingarleiknum áfram. Leikurinn barst smám saman í burtu og hvarf eftir nokkurra mínútna sjónarspil á milli háu blokkanna handan við íþróttasvæðið. Þangað tölti ég í rólegheitunum og átti allt eins von á að sjá atganginn lyftast upp á ný. Það gerðist hins vegar ekki og fuglana fann ég því miður ekki aftur. Lengi á eftir velti ég því hins vegar fyrir mér hvort hafi nú haft betur, snerpan eða seiglan? Ég man eftir öðrum máv, óþreyttum "varamanni", sem ég sá fljúga í áttina, þangað sem hinir tveir höfðu horfið. Það eru alltaf til fleiri Sílamávar. Skyldi hettumávurinn hafa úthald í þetta til lengdar?

Engin ummæli: