sunnudagur, júlí 16, 2006

Daglegt líf: Græjutilfærsla

Núna um helgina tók ég mig til og breytti græjunum heima og hagræddi. Þannig var að "græjurnar" okkar voru á þremur stöðum í íbúðinni. Inni hjá Signýju var geislaspilarinn, kassettutækið og magnarinn ásamt hátölurum. Gamla settið. Þetta var þarna í eins konar geymslu, óaðgengilegt í horninu á bak við hægindastól. Var bara fyrir, eiginlega, og setti ruslkenndan svip á barnaherbergið, sem er nógu þröngt fyrir. Í stofunni var græjusamstæða tvö, þ.e.a.s. tölvan sem tengd var við lítið Tivoli-útvarp sem býr yfir mjúkum tóni og nær þannig að yfirvinna frekar harðan tón úr tölvunni. Sú samsetning þykir mér vel heppnuð þó hljómburðurinn sé lítill og nettur (enda lít ég á tölvuna og tónlistina í henni meira sem afþreyingu og upplýsingaveitu eða sem létta tónlist í bakgrunni). Græjusamstæða þrjú er síðan í horninu á móti tölvunni: Sjónvarpið, vídeótækið og DVD-tækið. Hljómburðurinn úr sjónvarpinu er ekkert víðóma, "surround"-kerfi. Bara hátalararnir á gömlu sjónvarpi.

Ég hef stundum hugsað með mér að þrátt fyrir allan þennan græjukost (ég á fjöldann allan af geislaspilurum: DVD-tækið, geislaspilarinn, tölvan plús Discman sem er einhvers staðar í skúffu) var samt engin aðstaða til að hlusta á tónlist af alvöru né horfa á myndefni í hljómburði. Í samanburði við tölvusamstæðuna hef ég satt best að segja rennt hýru auga til græjanna inni hjá Signýju en þurft að vísa því á bug vegna plássleysis (eða bara hlustað á tónlist í heyrnartólum, sem er svo sem ágætt). Þetta var eiginlega hálf vandræðalegt.

En núna um helgina datt ég um sáraeinfalda lausn. Ég sá í hendi mér að magnarann úr "gamla settinu" gæti ég hæglega sett inn í hillusamstæðuna með DVD-tækinu og Vídeó-tækinu. Með því að taka hátalarana með og tengja allt dæmið saman væri ég kominn að minnsta kosti með öflugan stereo-hljóm fyrir bæði sjónvarp, vídeó og DVD. Furðulegt að mér skyldi ekki hafa dotti þetta í hug fyrr því svona hafði ég þetta þegar ég bjó á Hellu hér um árið (þá var gamla settið við hliðina á sjónvarpinu og því auðvelt að tengja á milli). Núna slæ ég hins vegar tvær flugur í einu höggi því DVD-tækið er prýðilegur geislarspilari í leiðinni. Með því að tengja hann við magnarann er óþarfi að kveikja á sjónvarpinu til þess eins að heyra tónlistina. Ég er sem sagt búinn að sameina "gamla settið" og sjónarpsstæðuna (kassettutækið og gamli geislaspilarinn fara bara í alvöru geymslu). Í leiðinni hefur myndast heilmikið pláss inni hjá Signýju sem nýtist vel fyrir hægindastólinn sem var þar fyrir og kærleikstréð okkar sem var farið að þrengja ansi mikið að inni í stofu. Sagðist ég hafa slegið tvær flugur? Ég held ég hafi stútað heilum flugnasveim með þessari einföldu tilfærslu.

Engin ummæli: