Ég minntist á fuglalíf fyrir austan í síðustu færslu. Í kringum bústaðinn var margt um mófuglinn og má þar helst upp telja góðkunningja eins og spóa, heiðlóu, stelk, þúfutittling og hrossagauk. Það kom hins vegar á óvart að sjá eins mikið af jaðrakan eins og raun bar vitni. Í næsta nágrenni við bústaðinn voru nokkur pör jaðrakana með hreiður og mátti sjá þá fjóra saman flæma máva burt af svæðinu (ekki bjóst ég við þeim svona herskáum, eins penpíulegir og veimiltítulegir og þeir eru í sjón). Einnig kom á óvart að sjá kjóa í nokkur skipti. Þeir eru ekki svo algeng sjón.
Magnaðast var þó að sjá brandugluna. Ég var þá á leið austur á ný eftir að hafa skotist til Reykjavíkur (til að vera viðstaddur brúðkaup bróðurdóttur minnar á laugardaginn var). Var staddur miðja vegu milli Hveragerðis og Selfoss þegar ég sá útundan mér fugl nálgast bílinn. Ég get enn státað af því að hafa aldrei ekið á fugl og ætla mér eindregið að halda því til streitu. Ég dró því úr hraðanum (enginn á eftir mér) þannig að fuglinn hefði meira ráðrúm til að sveigja hjá bílnum. Þá sá ég að þetta var óvenju stór fugl, sver um sig, og þegar hann var kominn örfáa metra frá bílnum leit hann til hliðar þannig að ég sá blasa við stórt andlitið, einn stór skermur, eins og starandi augu. Ég rak upp stór augu á móti áður en uglan lyfti sér upp yfir bílinn og sást ekki meir. Mér leið hins vegar lengi á eftir eins og ég hefð séð geimskip.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli