Nú eru tvær fyrstu umferði HM að baki og loks raunhæft að meta stöðuna og skoða hver geti staðið uppi sem sigurvegari. Átta lið hafa þegar tryggt sér áframhaldandi þátttöku með tveimur sigrum: Þýskaland, Argentína, Ecuador, England, Holland, Portúgal, Brasilía og Spánn. Af þeim liðum sem eftir eru standa Svíar, Mexíkóar, Frakkar og Úkraínumenn vel að vígi þar sem þeir komast áfram með nokkkuð öruggum sigri eða jafntefli í síðasta leik. Allt eru þetta lið sem reikna mátti með áfram fyrirfram.
Að leik Tékka og Ghanamanna undanskildum (0:2) hefur hver einasti leikur mótsins verið nokkurn veginn eftir bókinni. Það verður spennandi að sjá hvað Tékkar gera í lokaleik riðilsins við Ítala. Þetta eru einu risar mótsins í uppnámi í lokaumferðinni og standa frammi fyrir hreinum úrslitaleik sín á milli um að komast áfram (svo lengi sem leikur Ghana og Bandaríkjanna endi ekki með jafntefli). Ítölum nægir jafntefli hins vegar til að komast áfram. Þetta verður rimma umferðarinnar. Allir aðrir leikir umferðarinnar eru meira eða minna til málamynda, sem æfing eða upp á heiður.
Hverjum spái ég þá titlinum. Úkraínumenn eiga ekki séns. Þeir voru ömurlegir á móti Spáni, sem aftur á móti er mjög skemmtilegt en brothætt lið (þá skortir almennilegan leiðtoga og sóknarleikurinn verður því fálmkenndur þegar á móti blæs). Brasílíumenn eru alltaf líklegir (sérstaklega miðað við mannskap) en ég vil ekki sjá þá komast í gegn með sálarlausum göngubolta. Hvað gera þeir á móti almennilegu liði? Þýskaland og Ítalía myndu veita þeim verulega mótspyrnu. Tékkar eru líka öflugir en maður veit ekki með þetta gamla lið hvað þeir geta til lengdar, þó innblásið sé (sérstaklega eftir tapið á móti Ghana). Hollendingar voru stórkostlegir í fyrsta leik en sýndu lítið á móti Fílabeinsströndinni (líklega eru þeir of reynslulitlir þegar fram í sækir). England getur ekkert, svo maður minnist nú ekki á Frakka. Hvað er þá eftir? Argentína og Portúgal.
Ég held með þessum tveimur liðum. Argentínumenn hafa verið rómaðir í hástért víðast hvar en ég held það hafi farið fram hjá fjölmiðlum hvað Portúgal er með öflugt lið. Þeir eru loksins komnir með hæfilega blöndu ungra og reyndra manna (eftir mikla uppstokkun). Figo situr hins vegar eftir, keisarinn, og spilar eins og hann hafi yngst um hálfan áratug. Allt liðið er gríðarlega einbeitt, svo að ekki sé minnst á teknískt. Það er eins og það sitji í þeim að hafa beðið lægri hlut á heimavelli fyrir tveimur árum í úrslitaleiknum móti Grikklandi. Figo og hans kynslóð náði ekki að landa stórum titlum þrátt fyrir fögur fyrirheit. Núna kemur hann hins vegar grimmur til leiks og það er unun að fylgjast með honum. Eftir að hafa verið yfriskyggður af Zidane í gegnum tíðina ætlar hann sér að klára þetta mót sem meistari. Jafnvel dútlarinn Christiano Ronaldo spilar eins og fullorðinn karlmaður með glampa í augum. Liðið spilaði stórkostlega á móti Angóla og voru, að mér skilst, enn betri móti Íran. Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist í næstu leikjum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli