sunnudagur, janúar 28, 2007

Þroskaferli: Staðið af öryggi

Undanfarin vika hefur verið undirlögð handbolta og þjóðin sveiflast saman upp og niður rússíbanann með liðinu. Á okkar heimili er fylgst náið með en ég held, þrátt fyrir handboltaáhugann, að vikunnar verði helst minnst fyrir það að Signý fór að standa óstudd. Hingað til hefur reyndar sést til hennar standa stutta stund í einu, jafnvel fyrir afmælið sitt, en hún er bara svo varkár litla ljúfan að í hvert sinn sem hún fattaði það þá settist hún markvisst en varlega niður aftur. Núna er hún hins vegar hætt því. Hún nýtur þess að geta staðið án aðstoðar og er bara nokkuð ánægð með sig.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Netið: Tónlistarbloggsíðuárátta

Undanfarið hefur farið lítið fyrir bloggfærslum og það stafar kannski helst af nýju áhugamáli, eða áráttu, sem hefur heltekið mig í hvert skipti sem ég kveiki á tölvunni. Ég er nefnilega nýkominn upp á lag með að ná í tónlist á netinu. Lengi vel fussaði ég við þessu Napster-æði á sínum tíma en í dag. Hef verið að færa mig upp á skaftið með það að geyma tónlist í tölvunni - en það var allt fengið beint af geisladiskum (sem ég fæ að láni hér og þar). Núna datt ég hins vegar inn í það sem kalla mætti "tónlistarblogg" og finnst það mjög spennandi vettvangur. Þar tjá áhugamenn sig um ákveðnar tónlistarstefnur og leggja sig fram um að fylgjast með því sem er að gerast - og láta hljóðdæmi fylgja með. Hálfgerðir útvarpsþættir í textaformi með nokkrum lögum. Hér eru tvö prýðisdæmi um íslenskar tónlistarbloggsíður en þær eru augljóslega fyrsti valkosturinn fyrir þá sem búa á íslandi (kostar ekkert að hlusta eða hlaða niður). Þannig byrjaði það að minnsta kosti hjá mér.

Sýrður rjómi
Egill Harðar

Á þeim tíma sem ég kíkti á þetta upphaflega voru ársuppgjörin í fullum gangi. Ég setti eitthvað af tónlist í iPodinn minn og fann hvað þetta var sniðugt. Tónlistin var líka mjög spennandi svo að ég vildi meira. Fljótt komst ég að því að það var af nógu að taka:

Neile´s Life
The Yellow Stereo
Speed of Dark
Something Old - Something New
Skatterbrain
Obscure Sound

Þetta er svona það vandaðasta sem ég hef fundið hingað til - mest megnis síður sem fjalla um tónlst samtímans. Það er náttúrulega gríðarlega mikið í gangi, bæði hvað varðar umfjöllun af þessu tagi og tónlistarútgáfu. Engin leið er að fylgjast náið með þessu öllu saman. Eða hvað? Þarna kemur síða sem heitir Hype-machine eins og himnasending. Hún er lykillinn að þessu öllu því hún tekur saman mekanískt allt það sem birtist á mp3-formi á netinu - eða því sem næst (úrtakið er afmarkað við nokkur hundruð tónlistarbloggsíður). Hér er kjörið að slá upp nafni þess tónlistarmanns sem maður vill kynnast nánar og leitarvélin birtir þá lög sem hafa verið sett á bloggsíður og vísar síðan á síðuna. Tær snilld. Þegar ég var búinn að hlusta á þau 20-30 lög sem ég fann á íslensku síðunum tveimur langaði mig einmitt að forvitnast nánar. Núna er lagasafnið nokkur hundruð lög og skyldi engan undra. Maður þarf að hafa fyrir því að stoppa.

mánudagur, janúar 22, 2007

Sjónvarpið: Íslenska handboltalandsliðið

Ég horfði á leikinn áðan, eins og flestir reikna ég með, og ég get svarið það að strax eftir tvær mínútur var ég farinn að skjálfa af geðshræringu. Þeir byrjuðu svo stórkostlega að annað eins hefur ekki sést. Ef ég hefði ekki verið með Signýju meira eða minna í fanginu þá hefði ég öskrað, dansað, sungið og spangólað á víxl - en hún leyfði það ekki (setti upp skeifu og varð hrædd um leið og ég fór að hegða mér undarlega). En þvílíkur leikur. Það var engum tilviljunum háð að þeir náðu 5:0 forskoti strax í blábyrjun. Einbeitingin var unaðsleg. Þeir átu Frakkana lifandi. Fyrri hálfleikurinn var nánast alveg gallalaus og er mögulega besti hálfleikur sem íslenskt handboltalandslið hefur spilað.

Það má segja að leikurinn við Úkraínu hafi reynst blessun í dulargervi. Nú förum við með tvö stig í milliriðil. Allt í einu er staðan orðin vænleg. Það má hins vegar ekki gleyma því að þetta var algjör toppleikur og þeir koma ekki á færibandi. Nú er að halda haus. Liðið er stemingslið og það sveiflast töluvert. Þar að auki er keyrt á litlum mannskap og óvænt meiðsli geta höggvið djúp skörð í heildina. Við munum að síðast þegar liðið þótti líklegt til stórafreka (2002) þá dró verulega af liðinu undir lokin vegna álagsins.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þrívíddarómskoðun

Árið hefur verið hálf undarlegt hingað til. Eina ástæðuna má rekja til þess sem ég skrifaði í gær enda vorum við Vigdís allt árið í fyrra heimavinnandi með Signýju. Árið hingað til hefur líka einkennst af síður en svo gæfulegri byrjun þar sem mér tókst að gleyma stafrænu myndavélinni í áramótaheimsókn minni til foreldra minna. Ég var ekkert að eltast við hana og fékk hana svo í hendur um viku seinna þegar við hittumst næst. Þá vorum við Vigdís hins vegar búin að komast upp á lagið með ljósmyndalausa rútínu. Það liðu því nokkrir dagar í viðbót áður en við tókum myndir aftur af einhverju viti. Fyrst í gær hlóð ég myndum frá í ár inn á tölvuna (þar sem fyrstu tiu dagarnir eru með öllu myndalausir). Eflaust hafði vinnuerillinn þarna eitthvað þarna að segja en það vill líka svo skemmtilega til að á þessum tíma vorum við svolítið upptekin af því að skoða annars konar myndir. Við vorum nýbúin að fá myndasafn í hendur sem við létum fagmenn í Kópavogi taka af systur Signýjar. Við fórum sem sagt í þrívíddarómskoðun á milli jóla og nýárs og afraksturinn var hellingur af prýðilegum myndum auk fjölda hreyfimynda.

(
Þrívíddarómskoðun
Tekið af Flickrmyndasíðunni.

Litla daman var afskaplega pen í þessari myndasýningu og sneri sér að mestu leyti undan okkur þannig að við rétt sáum prófílinn. Hún hreyfði sig talsvert og baðaði útlimum kringum sig og hélt höndum stundum fyrir andlitinu (eins og á þessari mynd). Á tímabili var eins og hún væri upptekin við það að æfa sogviðbragðið með því að bera naflastrenginn að vörunum. Hún hafði greinilega ýmislegt fyrir stafni og virtist líða vel þarna inni í verndaða hjúpnum sínum. Það fannst okkur notaleg tilhugsun.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Fréttnæmt: Dagpössun

Nýtt ár hefur gengið í garð með talsverðum önnum, svona til að byrja með. Í fyrsta skipti eftir að Signý fæddist erum við Vigdís bæði útivinnandi á sama tíma. Ég er semsagt búinn með feðraorlofið mitt. Að mestu leyti raðast vaktir hjá Vigdísi á kvöld og helgar. Þá sjaldan sem Vigdís vinnur á daginn (aðeins átta sinnum næstu sex vikurnar) verðum við að hafa hauk í horni. Mamma Vigdísar hefur tíma á daginn til að taka við Signýju öðru hvoru og það vill til að hún býr mjög nálægt vinnustaðnum mínum svo að heppilegra getur það varla verið. Í dag og í gær skall þetta nýja fyrirkomulag okkar á með tveimur morgunvöktum hjá Vigdísi og það reyndist fara ákaflega vel í Signýju. Þær stöllurnar (og hálfnöfnurnar) eru góðar saman og fá eflaust báðar mikið út úr samverunni. Signý hefur yfirleitt gaman af að skipta um umhverfi. Þarna er hún mjög heimavön en er samt að færa sig upp á skaptið með rannsóknarleiðöngrum sínum um íbúðina.

mánudagur, janúar 08, 2007

Pæling: Áhrifavaldur

Í dag er svolítið merkilegur dagur; afmælisdagur David Bowie. Hann er sextíu ára í dag. Mér finnst vera svo örstutt síðan hann varð fimmtugur. Þegar ég bjó á Hellu (1998-2000) keypti ég mér nýútkominn afmælisdisk með honum þar sem hann heldur upp á fimmtugsafmælið sitt með veglegum tónleikum. Tíminn líður hratt. Ég heyrði tvö lög með honum i útvarpinu í dag, mjög ólík lög en gríðarlega góð bæði tvö - Scary Monsters og Absolute Beginners. Það fór um mig viss tegund af frelsistilfinningu við að heyra geðveikina í fyrra laginu og því var skolað niður með mjúkum tærleikanum í seinna laginu. Þá mundi ég eftir því að Bowie aðeins annar af tveimur heimsþekktum einstaklingum sem ég get kallað áhrifavald. Ég man eftir því að hafa beinlínis hugsað með mér, þegar ég var fjórtán ára, hvorum ég vildi líkjast meira, honum eða Pelé. Þetta var mikill hausverkur. Það var ákaflega erfitt að gera upp á milli (sem er kannski gott því þá þroskar maður sjálfan sig á gráa svæðinu þarna á milli ólíkra póla).

sunnudagur, janúar 07, 2007

Tónlist: Tónleikaannáll 2006

Þegar ég lít um öxl og skoða hvað ég bardúsaði á árinu, utan hefðbundinna heimilisverka og annars sem þegar hefur verið nefnt, þá koma aðallega tónleikar upp í hugann. Saman fórum við Vigdís á Sigurrós þegar þeir spiluðu á Miklatúni og pössuðum líka upp á að missa ekki af snillingnum Nick Cave í Höllinni. Ég gerði þó talsvert meira af þessu en Vigdís og ég varð eiginlega undrandi þegar ég tók þetta saman. Mér taldist til að í það heila hafi ég farið á rúma tylft tónleika. Sigurrós og Nick Cave hafa þegar verið nefndir. Með Villa bróður kíkti ég á Ian Anderson (úr Jethro Tull) og dró hann einnig með mér á Jón Leifs í Háskólabíói. Þröstur (fyrrv. mágur) bauð mér á "Ertu að verða náttúrulaus" þar sem rekinn var áróður gegn stóriðjustefnunni í krafti fjölda listamanna (Damien Rice, Mugison, Hjálmar, Sigurrós, Damon Albarn og fleiri). Aðra tónleika fór ég einn á: Television, Throwing Musese, Angelite (búlgarskur kvennakór), the Wedding Present, Sykurmolana, Sufjan Stevens og the Tallis Scholars (breskur karlakór sem sérhæfir sig í tónlist frá miðöldum og endurreisnartímanum).

Þetta er fjölbreytt prógramm eins og sjá má og ætla mætti að ég hafi ætt á allt sem var í boði. Því er öðru nær. Ég missti af eða sleppti helling af tónlist sem einnig höfðaði sterklega til mín. Roger Waters kom til landsins á árinu (þá var ég erlendis), Morrissey hélt líka tónleika, Belle & Sebastian (ásamt Emiliön Torrini) og tónlist Jeff Wayne um Innrásina frá Mars var flutt glæsilega af sinfóníunni síðastliðið vor ásamt einvalaliði íslenskra flytjenda (ég lét mér nægja að hlusta grimmt á útvarpsupptökuna vikurnar á eftir). Einnig sleppti ég öll sem var í boði á Iceland Airwaves, en þar voru magar mjög áhugaverðar sveitir, íslenskar sem erlendar.

En hvað stóð svo upp úr þessu öllu saman?

Örfáir tónleikar ollu mér vonbrigðum. Flestir voru á einhvern hátt hrífandi. Magnaðasta upplifunin var þó annars eðlis en allt sem ég taldi upp hér að ofan. Varla tónleikar, þannig séð, en magnaðra "gigg" er ekki til. Ég er að tala um fimmtán þúsund manns sem flæddu niður Laugaveginn. Rokktónleikar ganga út á þetta að ná til fjöldans, hrópa slagorð og finna sameiginlegan takt í eins konar múgæsingu. Það var ógleymanlegt að klappa saman höndunum og finna hvernig það ómaði um allan bæinn. Flottasta rokkupplifiun ársins. Þetta var Woodstock okkar kynslóðar.

Tónleikar Sykurmolanna og Sigurrósar koma þarna í kjölfarið sem ógleymanleg og einstök upplifun. Flutningr Sigurrósar var ekki óaðfinnanlegur, en tónlistin er einstök og hægt er að ímynda sér hana sem eins konar óð til landsins (fyrir þá sem eru ekki of kulnaðir að innan til að skilja hana og meðtaka). Aðstæður á Miklatúni voru eins og best verður á kosið. Ýmislegt var hægt að finna að tónleikunum en eftir situr hins vegar ákaflega sæt minning. Sykurmolatónleikarnir voru líka mjög sérstakir. Tónlist þeirra er súrrealísk og barnsleg á köflum og það fór því sérlega vel á því hvað spilagleðin var mikil hjá þeim. Ef Sigurrós leitar á mið hinnar ytri náttúru þá leita Sykurmolarnir á mið undirmeðvitundarinnar, okkar innri náttúru. Tónleikarnir voru hrein og klár leikgleði, fjör og lífsorka.

Tónleikar Angelite voru einnig frábærir. Að hluta til var tónlistin fyrst og fremst krefjandi en þegar á leið prógrammið (og þær fóru að syngja þjóðlagatónlistina sína) fór að streyma um mann mikil vellíðan. Lokalagið náði að hreyfa við aldaggömlum minningum innra með mér sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. Það var svo tilfinningaríkt að ég var vankaður lengi á eftir og treysti mér ekki til að setjast undir stýri.

Aðrir tónleikar voru brokkgengari. Til dæmis var vampíruleg holning Nick Cave við píanóið ógleymanleg og hvernig upplýst Höllinn breyttist eins og hendi væri veifað í einu laginu í Ku Klux Klan myrkrasamkomu (Oh! Mama) í drungalegum eintóna hópsöng. Gæsahúðin hríslaðist einnig um mig þegar Ian Anderson þóttist ekki muna hver samdi næsta lag "eitthvað austrænt, eftir rokkhljómsveit sem ég man ekki alveg hvað heitir" og fiðlusnillingurinn við hliðina á honum steypti sér eins og flóðalda í "Kashmir" (Led Zeppelin) og smekkfyllti út í Höllina með þykkum hljómnum. Sufjan Stevens var einnig hrífandi á köflum í tónlist sem var of stór fyrir litlu kirkjuna (Fríkirkjan) en hafði sem betur fer ákaflega notalega nærveru og leyfði sér að spjalla eins og heima í stofu á milli laga. Að lokum fannst mér hrollkennnd gæsahúðin sem ég fékk þegar Damien Ric flutti sín tvö lög á "náttúrulausu" samkomunni standa upp úr. Mér fannst eins og ég væri að rifna í sundur þegar hamslaus og stórkostlega bjagaður flutningurinn fór út yfir öll mörk þess sem maður reiknar með frá einum og stökum tónlistarmanni. Ég hef ekki séð hann á eigin tónleikum enn þá. Reyndar hef ég misst af honum tvívegis og sé nú að það er eftir miklu að seilast. Vonandi á hann eftir að heimsækja landið á árinu sem er nú nýbyrjað. Að minnsta kosti er ljóst að margt verður í deiglunni.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Þroskaferli: Eins konar annáll

Ég minntist á Signýju í síðasta pósti og hvernig hún var þungamiðjan í öllu sem við gerðum. Þroski hennar hefur verið undir smásjánni og hann hefur verið nokkurn veginn eftir bókinni. Að sumu leyti leyti hefur Signý hins vegar komið okkur skemmtilega á óvart. Til dæmis þegar hún tók upp á því um það bil hálfs árs að vekja okkur með því að smella vörum saman (senda okkur eins konar fingurkoss milli herbergja). Hún reyndist líka sérlega næm fyrir tónlist og takti og fór snemma að dilla sér yfir síendurteknum stefum úr sjónvarpinu, eins og Kastljóssstefinu og fréttastefinu. Mörgu óvenjulegu tók hún upp á, eins og því að gretta sig (með því að gapa ógurlega). Ég gapti til baka og við hlógum bæði á meðan aðrir horfðu á í forundran. Einnig hefur Signý tekið upp á því að fara í "kisuleik". Hún er þá á fjórum fótum og ég tjái mig við hana án orða, á fjórum fótum, og hún kemur þá og "stangar" mig eins og köttur, mjúklega, labbar í hring, og "stangar" mig svo aftur. Þetta finnst henni óskaplega notalegt. Eftirminnilegust fannst mér þó frammistaðan þegar ég fór að lesa fyrir hana á kvöldin. Það var þegar hún var um það bil tíu mánaða gömul. Ég fletti dýrabókinni góðu með íslensku húsdýrunum (og öðrum sambærilegum dýrabókum) og gaf frá mér alls kyns hljóð til að aðgreina dýrin sem best. Hún hafði geysilega gaman af hljóðunum (fór greinilega um hana gleðifiðringur) og gerði sitt ítrasta í kjölfarið til að líkja eftir þeim. Einn daginn var ég svo ánægður með árangurinn hjá henni að ég ákvað að gaumgæfa hann sérstaklega. Ég skrifað skipulega niður hvernig dýrahljóðin endurómuðu frá henni:

Hestur. Ég segi "í-hi-hi-hi" en Signý svarar á innsoginu.
Kisa. Ég segi "Mjáaaauuu" (eymdarlegt) en Signý svarar með því að andvarpa "aaahhh" (sbr. "góður")
Fluga. Ég gef frá mér raddað S "zzzzzzz" en hún gefur frá sér raddað V í staðinn.
Hani. Ég gala "gaggalagú" (hálfgert spangól) en hún segir einfaldlega "Da-da-da-da" (Jafn mörg atkvæði, alltaf fjögur, skýrt aðgreind, áhersla á fyrsta)
Hundur. Ég segi bara snögglega "voff!" en hún svarar "ah! ah!" eins og hún sé að kalla á einhvern (sbr. "hey!")
Snákur. Ég hvæsi milli tannanna með s-hljóði "Sssss!" en hún blæs á milli varanna "ffffff".
Mús. Ég tísti með vörunum (eins og þegar maður talar við páfagauk). Signý smellir með vörunum, eins og í loftkossi.

Þegar ég skráði þetta hjá mér svona markvisst áttaði ég mig á því hvað þetta var nú útsjónarsamt hjá Signýju (miðað við takmarkað hljóðaúrval). Næstu dagana og vikurnar átti ég von á að heyra þessi hljóð þróast enn frekar og var svolítið spenntur fyrir þessu, en viti menn, þá var eins og Signý missti algjörlga áhugann á að endurtaka nokkurt einasta hljóð. Ég held satt að segja að henni hafi bara fundist hún vera búin að ná þessu og fundist þetta ekkert "spennandi" lengur. Síðan þá hefur henni fundist alveg nóg að hlusta á mig og brosa. Þessi tími, sem spannaði aðeins örfáa daga, kom mér ótrúlega á óvart. Að minnsta kosti stóð ég sjálfan mig að því að kaupa fullt af skemmtilegum dýrabókum í kjölfarið.

mánudagur, janúar 01, 2007

Daglegt líf: Almennur annáll

Á fyrsta degi nýs árs er rétt að líta um öxl. Það má segja að allt sem tengist Signýju sé minnisstæðast enda fylgdum við henni hvert "skref" út árið og höfðum unun af öllu sem hún tók upp á. Það er efni annarrar færslu (á morgun). Tímaleysi til annarra verka var því mjög áberandi allt árið. Við vorum mikið heima við og fórum til dæmis ekki í bíó saman fyrr en núna um daginn (ég verð því ekki með neinn kvikmyndaannál hér fremur en fyrri daginn). Þó afrekuðum við að ferðast lítillega - þar af einu sinni til útlanda. Ferð okkar til Danmerkur (þaðan sem ég hélt sjálfur áfram til Noregs) í byrjun júní er okkur báðum minnisstæð enda mjög vel heppnuð í alla staði (þar ber helst að þakka gestrisni Kristjáns og Stellu í Köben). Einnig fór ég ásamt Jóni Má í eftirminnilega skoðunar- og ævintýraferð um Kárahnjúka í ágúst og markaði sú ferð djúp spor. Ljúf vikudvöl okkar Vigdísar í sumarbústað um mitt sumarið situr einnig í minningunni enda komu margir góðir gestir í heimsókn. Á þeim tíma var einnig leidd til lykta heimsmeistarakeppnin í fótbolta, sem ég fylgdist afar vel með (eini íþróttaviðburður ársins sem ég skipti mér af). Einu verulegu umskiptin á persónulegum vettvangi áttu sér hins vegar stað rétt áður en ég hélt austur að Kárahnjúkum. Þá áttuðum við Vigdís okkur á því að hún væri aftur þunguð. Á þeim tíma vorum við rétt að komast upp á lagið með þriggja manna fjölskyldurútínu og þurftum skyndilega að hugsa hlutina upp á nýtt. Staða okkar í Granaskjólinu fór um leið gegnum gagngert endurmat um tíma. Við sitjum hins vegar sem fastast í Vesturbænum, næsta hálfa árið að minnsta kosti, enda mun systir Signýjar ekki ganga um gólf fyrstu mánuði ævinnar. Við urðum einnig viðstödd stórar stundir í lífi vina og ættingja á árinu. Að öðru leyti gekk árið tiltölulega átakalaust fyrir sig og meinhægt, svona frá Granaskjólsbæjardyrum séð.