mánudagur, janúar 01, 2007

Daglegt líf: Almennur annáll

Á fyrsta degi nýs árs er rétt að líta um öxl. Það má segja að allt sem tengist Signýju sé minnisstæðast enda fylgdum við henni hvert "skref" út árið og höfðum unun af öllu sem hún tók upp á. Það er efni annarrar færslu (á morgun). Tímaleysi til annarra verka var því mjög áberandi allt árið. Við vorum mikið heima við og fórum til dæmis ekki í bíó saman fyrr en núna um daginn (ég verð því ekki með neinn kvikmyndaannál hér fremur en fyrri daginn). Þó afrekuðum við að ferðast lítillega - þar af einu sinni til útlanda. Ferð okkar til Danmerkur (þaðan sem ég hélt sjálfur áfram til Noregs) í byrjun júní er okkur báðum minnisstæð enda mjög vel heppnuð í alla staði (þar ber helst að þakka gestrisni Kristjáns og Stellu í Köben). Einnig fór ég ásamt Jóni Má í eftirminnilega skoðunar- og ævintýraferð um Kárahnjúka í ágúst og markaði sú ferð djúp spor. Ljúf vikudvöl okkar Vigdísar í sumarbústað um mitt sumarið situr einnig í minningunni enda komu margir góðir gestir í heimsókn. Á þeim tíma var einnig leidd til lykta heimsmeistarakeppnin í fótbolta, sem ég fylgdist afar vel með (eini íþróttaviðburður ársins sem ég skipti mér af). Einu verulegu umskiptin á persónulegum vettvangi áttu sér hins vegar stað rétt áður en ég hélt austur að Kárahnjúkum. Þá áttuðum við Vigdís okkur á því að hún væri aftur þunguð. Á þeim tíma vorum við rétt að komast upp á lagið með þriggja manna fjölskyldurútínu og þurftum skyndilega að hugsa hlutina upp á nýtt. Staða okkar í Granaskjólinu fór um leið gegnum gagngert endurmat um tíma. Við sitjum hins vegar sem fastast í Vesturbænum, næsta hálfa árið að minnsta kosti, enda mun systir Signýjar ekki ganga um gólf fyrstu mánuði ævinnar. Við urðum einnig viðstödd stórar stundir í lífi vina og ættingja á árinu. Að öðru leyti gekk árið tiltölulega átakalaust fyrir sig og meinhægt, svona frá Granaskjólsbæjardyrum séð.

Engin ummæli: