Þegar ég lít um öxl og skoða hvað ég bardúsaði á árinu, utan hefðbundinna heimilisverka og annars sem þegar hefur verið nefnt, þá koma aðallega tónleikar upp í hugann. Saman fórum við Vigdís á Sigurrós þegar þeir spiluðu á Miklatúni og pössuðum líka upp á að missa ekki af snillingnum Nick Cave í Höllinni. Ég gerði þó talsvert meira af þessu en Vigdís og ég varð eiginlega undrandi þegar ég tók þetta saman. Mér taldist til að í það heila hafi ég farið á rúma tylft tónleika. Sigurrós og Nick Cave hafa þegar verið nefndir. Með Villa bróður kíkti ég á Ian Anderson (úr Jethro Tull) og dró hann einnig með mér á Jón Leifs í Háskólabíói. Þröstur (fyrrv. mágur) bauð mér á "Ertu að verða náttúrulaus" þar sem rekinn var áróður gegn stóriðjustefnunni í krafti fjölda listamanna (Damien Rice, Mugison, Hjálmar, Sigurrós, Damon Albarn og fleiri). Aðra tónleika fór ég einn á: Television, Throwing Musese, Angelite (búlgarskur kvennakór), the Wedding Present, Sykurmolana, Sufjan Stevens og the Tallis Scholars (breskur karlakór sem sérhæfir sig í tónlist frá miðöldum og endurreisnartímanum).
Þetta er fjölbreytt prógramm eins og sjá má og ætla mætti að ég hafi ætt á allt sem var í boði. Því er öðru nær. Ég missti af eða sleppti helling af tónlist sem einnig höfðaði sterklega til mín. Roger Waters kom til landsins á árinu (þá var ég erlendis), Morrissey hélt líka tónleika, Belle & Sebastian (ásamt Emiliön Torrini) og tónlist Jeff Wayne um Innrásina frá Mars var flutt glæsilega af sinfóníunni síðastliðið vor ásamt einvalaliði íslenskra flytjenda (ég lét mér nægja að hlusta grimmt á útvarpsupptökuna vikurnar á eftir). Einnig sleppti ég öll sem var í boði á Iceland Airwaves, en þar voru magar mjög áhugaverðar sveitir, íslenskar sem erlendar.
En hvað stóð svo upp úr þessu öllu saman?
Örfáir tónleikar ollu mér vonbrigðum. Flestir voru á einhvern hátt hrífandi. Magnaðasta upplifunin var þó annars eðlis en allt sem ég taldi upp hér að ofan. Varla tónleikar, þannig séð, en magnaðra "gigg" er ekki til. Ég er að tala um fimmtán þúsund manns sem flæddu niður Laugaveginn. Rokktónleikar ganga út á þetta að ná til fjöldans, hrópa slagorð og finna sameiginlegan takt í eins konar múgæsingu. Það var ógleymanlegt að klappa saman höndunum og finna hvernig það ómaði um allan bæinn. Flottasta rokkupplifiun ársins. Þetta var Woodstock okkar kynslóðar.
Tónleikar Sykurmolanna og Sigurrósar koma þarna í kjölfarið sem ógleymanleg og einstök upplifun. Flutningr Sigurrósar var ekki óaðfinnanlegur, en tónlistin er einstök og hægt er að ímynda sér hana sem eins konar óð til landsins (fyrir þá sem eru ekki of kulnaðir að innan til að skilja hana og meðtaka). Aðstæður á Miklatúni voru eins og best verður á kosið. Ýmislegt var hægt að finna að tónleikunum en eftir situr hins vegar ákaflega sæt minning. Sykurmolatónleikarnir voru líka mjög sérstakir. Tónlist þeirra er súrrealísk og barnsleg á köflum og það fór því sérlega vel á því hvað spilagleðin var mikil hjá þeim. Ef Sigurrós leitar á mið hinnar ytri náttúru þá leita Sykurmolarnir á mið undirmeðvitundarinnar, okkar innri náttúru. Tónleikarnir voru hrein og klár leikgleði, fjör og lífsorka.
Tónleikar Angelite voru einnig frábærir. Að hluta til var tónlistin fyrst og fremst krefjandi en þegar á leið prógrammið (og þær fóru að syngja þjóðlagatónlistina sína) fór að streyma um mann mikil vellíðan. Lokalagið náði að hreyfa við aldaggömlum minningum innra með mér sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. Það var svo tilfinningaríkt að ég var vankaður lengi á eftir og treysti mér ekki til að setjast undir stýri.
Aðrir tónleikar voru brokkgengari. Til dæmis var vampíruleg holning Nick Cave við píanóið ógleymanleg og hvernig upplýst Höllinn breyttist eins og hendi væri veifað í einu laginu í Ku Klux Klan myrkrasamkomu (Oh! Mama) í drungalegum eintóna hópsöng. Gæsahúðin hríslaðist einnig um mig þegar Ian Anderson þóttist ekki muna hver samdi næsta lag "eitthvað austrænt, eftir rokkhljómsveit sem ég man ekki alveg hvað heitir" og fiðlusnillingurinn við hliðina á honum steypti sér eins og flóðalda í "Kashmir" (Led Zeppelin) og smekkfyllti út í Höllina með þykkum hljómnum. Sufjan Stevens var einnig hrífandi á köflum í tónlist sem var of stór fyrir litlu kirkjuna (Fríkirkjan) en hafði sem betur fer ákaflega notalega nærveru og leyfði sér að spjalla eins og heima í stofu á milli laga. Að lokum fannst mér hrollkennnd gæsahúðin sem ég fékk þegar Damien Ric flutti sín tvö lög á "náttúrulausu" samkomunni standa upp úr. Mér fannst eins og ég væri að rifna í sundur þegar hamslaus og stórkostlega bjagaður flutningurinn fór út yfir öll mörk þess sem maður reiknar með frá einum og stökum tónlistarmanni. Ég hef ekki séð hann á eigin tónleikum enn þá. Reyndar hef ég misst af honum tvívegis og sé nú að það er eftir miklu að seilast. Vonandi á hann eftir að heimsækja landið á árinu sem er nú nýbyrjað. Að minnsta kosti er ljóst að margt verður í deiglunni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli