þriðjudagur, janúar 16, 2007

Fréttnæmt: Dagpössun

Nýtt ár hefur gengið í garð með talsverðum önnum, svona til að byrja með. Í fyrsta skipti eftir að Signý fæddist erum við Vigdís bæði útivinnandi á sama tíma. Ég er semsagt búinn með feðraorlofið mitt. Að mestu leyti raðast vaktir hjá Vigdísi á kvöld og helgar. Þá sjaldan sem Vigdís vinnur á daginn (aðeins átta sinnum næstu sex vikurnar) verðum við að hafa hauk í horni. Mamma Vigdísar hefur tíma á daginn til að taka við Signýju öðru hvoru og það vill til að hún býr mjög nálægt vinnustaðnum mínum svo að heppilegra getur það varla verið. Í dag og í gær skall þetta nýja fyrirkomulag okkar á með tveimur morgunvöktum hjá Vigdísi og það reyndist fara ákaflega vel í Signýju. Þær stöllurnar (og hálfnöfnurnar) eru góðar saman og fá eflaust báðar mikið út úr samverunni. Signý hefur yfirleitt gaman af að skipta um umhverfi. Þarna er hún mjög heimavön en er samt að færa sig upp á skaptið með rannsóknarleiðöngrum sínum um íbúðina.

Engin ummæli: