Ég minntist á Signýju í síðasta pósti og hvernig hún var þungamiðjan í öllu sem við gerðum. Þroski hennar hefur verið undir smásjánni og hann hefur verið nokkurn veginn eftir bókinni. Að sumu leyti leyti hefur Signý hins vegar komið okkur skemmtilega á óvart. Til dæmis þegar hún tók upp á því um það bil hálfs árs að vekja okkur með því að smella vörum saman (senda okkur eins konar fingurkoss milli herbergja). Hún reyndist líka sérlega næm fyrir tónlist og takti og fór snemma að dilla sér yfir síendurteknum stefum úr sjónvarpinu, eins og Kastljóssstefinu og fréttastefinu. Mörgu óvenjulegu tók hún upp á, eins og því að gretta sig (með því að gapa ógurlega). Ég gapti til baka og við hlógum bæði á meðan aðrir horfðu á í forundran. Einnig hefur Signý tekið upp á því að fara í "kisuleik". Hún er þá á fjórum fótum og ég tjái mig við hana án orða, á fjórum fótum, og hún kemur þá og "stangar" mig eins og köttur, mjúklega, labbar í hring, og "stangar" mig svo aftur. Þetta finnst henni óskaplega notalegt. Eftirminnilegust fannst mér þó frammistaðan þegar ég fór að lesa fyrir hana á kvöldin. Það var þegar hún var um það bil tíu mánaða gömul. Ég fletti dýrabókinni góðu með íslensku húsdýrunum (og öðrum sambærilegum dýrabókum) og gaf frá mér alls kyns hljóð til að aðgreina dýrin sem best. Hún hafði geysilega gaman af hljóðunum (fór greinilega um hana gleðifiðringur) og gerði sitt ítrasta í kjölfarið til að líkja eftir þeim. Einn daginn var ég svo ánægður með árangurinn hjá henni að ég ákvað að gaumgæfa hann sérstaklega. Ég skrifað skipulega niður hvernig dýrahljóðin endurómuðu frá henni:
Hestur. Ég segi "í-hi-hi-hi" en Signý svarar á innsoginu.
Kisa. Ég segi "Mjáaaauuu" (eymdarlegt) en Signý svarar með því að andvarpa "aaahhh" (sbr. "góður")
Fluga. Ég gef frá mér raddað S "zzzzzzz" en hún gefur frá sér raddað V í staðinn.
Hani. Ég gala "gaggalagú" (hálfgert spangól) en hún segir einfaldlega "Da-da-da-da" (Jafn mörg atkvæði, alltaf fjögur, skýrt aðgreind, áhersla á fyrsta)
Hundur. Ég segi bara snögglega "voff!" en hún svarar "ah! ah!" eins og hún sé að kalla á einhvern (sbr. "hey!")
Snákur. Ég hvæsi milli tannanna með s-hljóði "Sssss!" en hún blæs á milli varanna "ffffff".
Mús. Ég tísti með vörunum (eins og þegar maður talar við páfagauk). Signý smellir með vörunum, eins og í loftkossi.
Þegar ég skráði þetta hjá mér svona markvisst áttaði ég mig á því hvað þetta var nú útsjónarsamt hjá Signýju (miðað við takmarkað hljóðaúrval). Næstu dagana og vikurnar átti ég von á að heyra þessi hljóð þróast enn frekar og var svolítið spenntur fyrir þessu, en viti menn, þá var eins og Signý missti algjörlga áhugann á að endurtaka nokkurt einasta hljóð. Ég held satt að segja að henni hafi bara fundist hún vera búin að ná þessu og fundist þetta ekkert "spennandi" lengur. Síðan þá hefur henni fundist alveg nóg að hlusta á mig og brosa. Þessi tími, sem spannaði aðeins örfáa daga, kom mér ótrúlega á óvart. Að minnsta kosti stóð ég sjálfan mig að því að kaupa fullt af skemmtilegum dýrabókum í kjölfarið.
þriðjudagur, janúar 02, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
¿tu creas los cuentos?
Skrifa ummæli