Ég horfði á leikinn áðan, eins og flestir reikna ég með, og ég get svarið það að strax eftir tvær mínútur var ég farinn að skjálfa af geðshræringu. Þeir byrjuðu svo stórkostlega að annað eins hefur ekki sést. Ef ég hefði ekki verið með Signýju meira eða minna í fanginu þá hefði ég öskrað, dansað, sungið og spangólað á víxl - en hún leyfði það ekki (setti upp skeifu og varð hrædd um leið og ég fór að hegða mér undarlega). En þvílíkur leikur. Það var engum tilviljunum háð að þeir náðu 5:0 forskoti strax í blábyrjun. Einbeitingin var unaðsleg. Þeir átu Frakkana lifandi. Fyrri hálfleikurinn var nánast alveg gallalaus og er mögulega besti hálfleikur sem íslenskt handboltalandslið hefur spilað.
Það má segja að leikurinn við Úkraínu hafi reynst blessun í dulargervi. Nú förum við með tvö stig í milliriðil. Allt í einu er staðan orðin vænleg. Það má hins vegar ekki gleyma því að þetta var algjör toppleikur og þeir koma ekki á færibandi. Nú er að halda haus. Liðið er stemingslið og það sveiflast töluvert. Þar að auki er keyrt á litlum mannskap og óvænt meiðsli geta höggvið djúp skörð í heildina. Við munum að síðast þegar liðið þótti líklegt til stórafreka (2002) þá dró verulega af liðinu undir lokin vegna álagsins.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli