miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þrívíddarómskoðun

Árið hefur verið hálf undarlegt hingað til. Eina ástæðuna má rekja til þess sem ég skrifaði í gær enda vorum við Vigdís allt árið í fyrra heimavinnandi með Signýju. Árið hingað til hefur líka einkennst af síður en svo gæfulegri byrjun þar sem mér tókst að gleyma stafrænu myndavélinni í áramótaheimsókn minni til foreldra minna. Ég var ekkert að eltast við hana og fékk hana svo í hendur um viku seinna þegar við hittumst næst. Þá vorum við Vigdís hins vegar búin að komast upp á lagið með ljósmyndalausa rútínu. Það liðu því nokkrir dagar í viðbót áður en við tókum myndir aftur af einhverju viti. Fyrst í gær hlóð ég myndum frá í ár inn á tölvuna (þar sem fyrstu tiu dagarnir eru með öllu myndalausir). Eflaust hafði vinnuerillinn þarna eitthvað þarna að segja en það vill líka svo skemmtilega til að á þessum tíma vorum við svolítið upptekin af því að skoða annars konar myndir. Við vorum nýbúin að fá myndasafn í hendur sem við létum fagmenn í Kópavogi taka af systur Signýjar. Við fórum sem sagt í þrívíddarómskoðun á milli jóla og nýárs og afraksturinn var hellingur af prýðilegum myndum auk fjölda hreyfimynda.

(
Þrívíddarómskoðun
Tekið af Flickrmyndasíðunni.

Litla daman var afskaplega pen í þessari myndasýningu og sneri sér að mestu leyti undan okkur þannig að við rétt sáum prófílinn. Hún hreyfði sig talsvert og baðaði útlimum kringum sig og hélt höndum stundum fyrir andlitinu (eins og á þessari mynd). Á tímabili var eins og hún væri upptekin við það að æfa sogviðbragðið með því að bera naflastrenginn að vörunum. Hún hafði greinilega ýmislegt fyrir stafni og virtist líða vel þarna inni í verndaða hjúpnum sínum. Það fannst okkur notaleg tilhugsun.

Engin ummæli: