mánudagur, febrúar 19, 2007

Fréttnæmt: Búferlaflutningur

Enn ein helgin að baki og allt það. Hún var frekar annrík hjá okkur. Strax eftir vinnu hófst ég handa við að hjálpa systur Vigdísar (Ásdísi) og sambýlismanni hennar (Togga) við að mála og flytja. Flutningurinn sjálfur var reyndar ekki fyrr en á laugardeginum þannig að þetta var svona tveggja daga törn. Flutningurinn var eftirminnilegur og til fyrirmyndar fyrir þær sakir að tíu til fimmtán manns unnu saman að því að handlanga dótið í og úr íbúðum. Skilvirkari flutningi hef ég ekki tekið þátt í. Flottast var það að sjá hlutina nánast svífa út úr eldri íbúðinni gegnum tvær útgönguleiðir samtímis. Yfirleitt er maður útjaskaður eftir flutning en þetta var meira í anda snarprar og frískandi líkamsræktar. Svo er fjölmennið auðvitað skemmtilegra og kappsamara.

Þau skötuhjúin eru flutt í eina af "jólatrésblokkunum" vestur í bæ, spottakorn frá okkur Vigdísi. Útsýnið af fjórðu hæð er svakalegt í báðar áttir, hvort sem horft er austur í bæ, að Keili, Perlunni eða í hina áttina (þar sem sjóndeildarhringurinn er samur við sig, Akranesið blikkar og manni er jafnan starsýnt ofan í fjöruborðið þar sem andlega þenkjandi morgunhanar spígspora um eins og vaðfuglar). Íbúðin sjálf er líka fyrirtak, í risi á tveimur hæðum, og býður upp á alls kyns útfærslumöguleika. Maður þarf að leggja sig allan fram við að öfunda þau ekki. Þeirri tilhugsun er sem betur fer hægt að breyta í "samgleði" og í leiðinni (svo maður hugsi um sjálfan sig) tilhlökkun eftir því að þegar við Vigdís flytjum loksins sjálf. Það er svo sannarlega á stefnuskránni og ætti að vera komin einhver hreyfing á málið áður en árið er úti.

Engin ummæli: