föstudagur, febrúar 23, 2007

Þroskaferli: Uppátæki í ungbarnasundi

Við fórum í ungbarnasund á miðvikudaginn var. Þetta var rólegur tími og út af fyrir sig tilþrifalítill. Sú litla er hins vegar farin að færa sig eitthvað upp á skaftið í æfingum og tekur upp á því öðru hvoru að teygja sig aftur á bak og upp að okkur þegar við undirbúum æfingu. Þessi tækni virkar óskaplega vel því það er ómögulegt að skutla henni á kaf eða láta hana standa í lófanum þegar hún reigir sig svona aftur. Sundkennarinn talar um að þetta sé bara þroskamerki. Hún sé einfaldlega meðvituð um fallið og sé bara ekki tilbúin að ærslast í bili. Síðan kom að pottinum. Eftir sundtímann sest maður alltaf í pottinn sem er staðsettur í svona garðskálaviðbyggingu. Signý lá á öxlinni á mér og horfði upp. Síðan veifaði hún glaðhlakkalega einhverjum sem var þarna uppi og sagði "hæ". Þá sá hún sjálfa sig speglast í glerlofti garðskálans (það var myrkur úti þannig að endurspeglunin var nokkuð skýr). Sjálf höfðum við ekki veitt þessu athygli og höfðum mjög gaman af. Þetta er þá ágætis mælikvarði á sjónina hennar, hugsuðum við með okkur. Að lokum fór ég inn í búningsklefa og við Signý böðuðum okkur í bak og fyrir. Þegar ég var búinn að klæða hana og klæddi sjálfan mig leyfði ég henni að vafra aðeins um. Hún sá að önnur hver skápahurð var opin upp á gátt og með því að ýta örlítið við henni sveiflaðist hurðin í lokaða stöðu, með tilheyrandi skelli. Við vorum ein þarna inni svo að hávaðinn angraði engan. Ég fylgdist bara með henni ganga á línuna og opnaði síðan eina og eina hurð til viðbótar þegar hún hafði samviskusamlega lokað öllum hurðunum. Dyrastafurinn á hurðunum var blessunarlega það innarlega (miðað við bekkin sem Signý þurfti að teygja sig yfir) að hún hefði ekki getað klemmt sig. Við höfðum því bæði tvö mikla og drjúga ánægju af þessum leik.

P.S. Signý hélt uppteknum hætti í dag í Kringlunni (föstudaginn 23. feb.) þar sem við sátum þrjú saman á kaffihúsinu undir rúllustiganum við aðalinnganginn. Þar glampar allt í speglum fyrir ofan okkur, líka í svalabörmunum. Signý horfði upp, eins og í sundinu, og heilsaði sjálfri sér, glöð í bragði.

Engin ummæli: