laugardagur, febrúar 24, 2007

Matur: Eldhúsið

Ég skimaði um í eldhúsinu og leit inn i ísskáp og undraðist á því hvað mikið var til að hollum mat. Maður kannast nú við að finna bara laslegar samlokubrauðsneiðar, fullt af kexi, eldgamla sultu, bragðlítinn ost, útþynntan og ávaxtasafa og gamalt grænmeti. Það á við þegar maður gætir ekki sérstaklega að hollustunni. Núna var hins vegar "power food" (eins og það kallast) í hverju horni. Ég fann knippi af banönum, átta lítil og bragðmikil epli, sex kiwi frá lífrænum ræktanda, tvær ferskjur, fullt box af döðlum frá henni Sollu, girnilegur klasi af rauðum (bláum) vínberjum, tvær öskjur af bláberjum, ferskur ananashaus og tvær rauðar paprikur (sem eru sérstakar C-vítamín bombur, að mér skilst). Við þetta má bæta nýkreistum appelsínusafa úr Bónus (sem er furðu góður), trönuberjaþykkni og fullt af sódavatni (sem er farið að taka sess gossins svo um munar). Brauðið á heimilinu er aukinheldur sérvalið ostabrauð og brauð með sólþurrkuðum ávöxtum. Jógúrtið er lífrænt og þunnfljótandi (dýrðlegt á bragðið) og inn á milli fær maður sér hnausþykkt Pascual jógúrt.

Síðan í haust ákvað ég að borða visst magn af fersku grænmeti og ávöxtum á hverjum degi. Það hefur sannarlega skilað sér í bættri heilsu. Ég hef ekki verið við eins góða heilsu árum saman, satt best að segja, og varla fengið vott af kvefi. Þegar ég litaðist um í eldhúsinu í dag þá fannst mér það eiginlega lógískt.

Engin ummæli: