fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Fréttnæmt: Fjármálaráðgjöf

Við Vigdis áttum pantaðan tíma í Ráðgjafastofum um fjárhag heimilanna í dag. Við vildum átta okkur almennilega á því hvað okkur stendur til boða á lánamarkaðnum og hversu mikið við ættum að flýta okkur í að fjárfesta í íbúð. Hún var nú svolítið hissa á að sjá okkur með almennar spurningar. Við áttum ekki neitt, enga íbúð, engan bíl og skulduðum engum neitt. Vorum bara í hagstæðri leiguíbúð. Yfirleitt leitar fólk til þessarar ráðgjafarstofu þegar það er komið í verulegan fjárhagsvanda. Okkur varð starsýnt á mjúkt snýtíklútabox á borðendanum. Hún sagði að pappírinn væri raunverulega notaður því þangað koma margir í öngum sínum og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Við sem sagt mættum með fáa pappíra (aðra en launaseðla og þvíumlíkt) og ráðgjafinn þurfti greinilega að þreifa fyrir sér um stund til að átta sig á tilanginum með heimsókn okkar. Ég tók þá af skarið og talað um að við værum að velta fyrir okkur fyrsta skrefi í íbúðarkaupum og vildum ekki koma okkur í greiðsluþrot með röngum ákvörðunum. Heimsóknin átti að vera fyrirbyggjandi: Við vildum fyrirbyggja fjárhagsvanda síðar meir. Þetta gaf viðtalinu mjög skýran tón og við spjölluðum upp frá því um allt sem við kemur fjármögnun á íbúð, skuldir og greiðsluvanda og mér fannst rofa til á þungbúnum himni. Hún staðfesti grun okkar um að það væri skynsamlegt af okkur að hanga aðeins lengur í þessari lágu leigu sem við búum við - að minnsta kosti fram yfir þann tíma sem Vigdís er með næstu dóttur okkar á brjósti (því þá rýrnar innkoman á sama tíma). Á meðan getum við lagt verulegan hluta innkomunnar til hliðar fyrir útborgun. "Það munar um hverja milljón" sagði hún. Þetta fannst okkur skynsamleg orð og þau samræmdu annars vegar varkára afstöðu okkar og löngunina til að stækka við okkur (með því að setja okkur tímamörk). Eftir eitt ár má því segja að það verði skynsamlegast af okkur að fara að kaupa ef fasteignamarkaðurinn tekur ekki þeim mun meiri breytingum í millitíðinni. Með haustinu förum við væntanlega að líta í kringum okkur.

Engin ummæli: