Fyrir utan flutninginn, sem ég greindi frá hér á undan, var helgin stórtíðindalaus. Sunnudagurinn var þó eftirminnilegur. Eftir hefðbundinn og slakan dag (í jákvæðri merkingu) fórum við saman í jóga. Vigdís stundar meðgöngujóga að jafnaði þessa dagana en nú á sunnudaginn var kvöldið tileinkað pörum. Nú fengu sem sagt makar að fara með. Skipst var á reynslusögum og við feðurnir fengum ítarlega kennslu í meðgöngu- og fæðingarnuddi. Einnig var farið í gegnum fæðingarstöður sem eru mun fleiri en mann óraði fyrir. Mestur hluti tímans fór þó í umfjöllun um jákvæð og uppbyggileg andleg viðhorf til átakanna framundan. Nú er ekki svo langt í land. Líklega eru eftir innan við tíu vikur af meðgöngunni (við erum komin þrjátíu og tvær vikur áleiðis...).
Annars er það helst af meðgöngunni að frétta að litla stúlkan lætur finna fyrir sér. Hún byltir sér mun meira en Signý gerði og virðist strax á þessu stigi tilverunnar hafa annan karakter. Lætin eru slík að mér óar við því að leggja hönd á bumbuna. Stundum vakir Vigdís á meðan ég sef enda getur hún ekki snúið sér í hina áttina (ólíkt mér). Við hjálpumst hins vegar að eins og við getum og tek ég í staðinn að mér að sinna Signýju þeim mun betur á nóttunni ef hún vaknar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli