Við fórum út úr bænum, sem sagt, og gistum drjúga kvöldstund og nótt á Hótel Glym. Þetta er ótrúlega vel heppnað hótel sem dregur að ráðstefnugesti hvaðanæva að. Hótelið er eins konar gallerí þar sem gælt er við hvert einasta horn með alls kyns safngripum og listaverkum. Jafnvel starfsfólkið er að sjá eitthvað nýtt á hverjum degi. Salt- og piparstaukarnir í matsalnum voru allir einstakir og diskarnir sem við borðuðum af voru glerlistaverk í laufblaðaformi. Maturinn sem við borðuðum á hótelinu var líka í hæsta gæðaflokki. Ég er vanur að borða nokkuð rösklega en ósjálfrátt borðaði ég þennan mat unaðslega hægt. Það var sama hvað maður gæddi sér á, brauð, drykkir, meðlæti, eftirréttir, allt var þetta í sama gæðaflokki og dró alla athyglina að hægfara nautn. Á þessum unaðsreit (ekki skemmir friðsæll Hvalfjörðurinn fyrir) eyddum við Vigdís laugardeginum og vorum fram að hádegi daginn eftir. Það var ómetanlegt að geta slakað á saman svona tvö ein.
Á sunnudeginum komum við heim upp úr hádeginu og stöldruðum við heima í nokkra tíma. Um kvöldið tók við seinna prógrammið en það samanstóð af kvöldmat einhvers staðar í bænum og leikhúsferð. Til stóð að fara á Indian Mango en sá staður er bara ekki með opið á sunnudögum, einhverra hluta vegna. Við skelltum okkur í staðinn á Skrúð, bæði vegna þess að hann er í næsta nágrenni og þar áttum við tilboðsmiða hvort eð er sem Gestgjafinn, það góða tímarit, bauð áskrifendum upp á í mánuðinum. Maturinn þar var að mörgu leyti mjög góður. Hann var bæði nærandi og bragðgóður en langt frá því að vera spennandi eða ævintýralegur. Staðurinn er rólegur og afslappaður en svolítið stíllaus. Við dvöldum ekkert of lengi á þessum stað, sátt við matinn, og fórum í Borgarleikhúsið.
Dagur vonar stóðst allar væntingar. Reyndar eru bekkirnir í Nýja salnum frekar óþægilegir (sem bitnaði meira á Vigdísi) og leikritið ansi ágengt og napurt framan af, jafnvel hægfara, en þegar líður á stykkið verður maður gagntekinn. Þetta er hrikalegt fjölskyldudrama þar sem bælt hatur kraumar undir, þar sem ástæðan fyrir vanlíðan sögupersónanna kemur ekki almennilega upp á yfirborðið fyrr en eftir hlé. Í leikritinu eru atriði svo vel útfærð og leikin að maður skelfur af hryllingi. Þegar kemur að hápunkti leikritsins er áhorfandinn tilfinningalega alveg berskjaldaður. Við Vigdís vorum í hálfgerðu sjokki þegar upp var staðið. Reyndar var ekki staðið upp, yfirhöfuð, í uppklappinu. Það virtust allir í salnum vera í einhvers konar lamasessi en klöppuðu í staðinn ákaft af geðshræringu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli