Þó að mánaðaryfirlit sé í bígerð um þær systur Signýju og Hugrúnu langar mig að stelast til að segja frá Signýju frá í gær. Hún var heima, orðin nokkuð frísk eftir slenið og frekar eirðarlaus. Við tókum skorpu í að horfa á DVD-myndir, þar á meðal mynd sem mamma og pabbi gáfu henni um daginn um fugla (í seríunni um Cecile og Pepo). Þetta eru teiknimyndafígúrur sem setjast í kvikmyndasal og horfa á eina stuttmynd af annarri um dýrin sem eru til umfjöllunar. Fyrst lauma þeir ýmsum fróðleiksmolum til barnanna í um hálfa mínútu. Síðan breytist myndin (súmmað er inn í myndina og fram hjá þeim félögum) og við fylgjumst án orða með fuglunum við undirleik líflegrar tónlistar í um þrjár mínútur. Þetta er passlega langt fyrir ung börn, stutt kynning og ljóðræn mynd í kjölfarið. Fuglarnir sem eru í boði eru af ýmsu tagi: Ernir, fálkar, gæsir, lundi, gammar, páfagaukar, páfuglar, hegrar og fleiri fuglar (flestir framandi).
Signý kom upp um eitt af sínum sérlegu áhugasviðum þegar við völdum fuglamynd úr safninu. Hún benti alltaf á lundann. Þegar ég spilaði myndina fyrst lét hún sig hverfa inn í herbergi og kom galvösk til baka með lundadúkkuna sína. Hún stillti henni rausnarlega upp á borðinu sem við höfum á milli hennar og sjónvarpsins (svo hún freistist ekki til að vera of nærri skjánum). Ljóst var að hún ætlaði að sýna lundanum hvernig frændur hans hegða sér. Þarna sátu þau svo, félagarnir, og horfðu gagntekin.
Þá kom upp óvænt vandamál. Þessi tiltekna stuttmynd var ótrúlega misheppnuð. Það er greinilegt að margir ólíkir kvikmyndagerðarmenn hafa verið fengnir til að vinna stuttmyndirnar því sumar voru sérlega flottar og sniðugar. Lundamyndin var hins vegar hræðileg. Hún byrjaði á því að sýna lunda í návígi í nákvæmlega 15 sekúndur. Bara fínt. Síðan breytist myndin snarlega og við fylgjumst með skúmi sveima fram hjá fuglabjargi og verða fyrir aðkasti mávfugla, sem hann virðir að vettugi, snarar sér að einni syllunni og hrifsar með mér máv sem situr þar á eggi. Síðan flýgur skúmurinn með bráðina rakleiðis burt til sjávar þar sem hann sest og gerir að bráðinni. Þetta tekur um 45 sekúndur, og ekki einasti lundi í mynd. Næst sjáum við lundabyggð í fjarska (sem er nógu fjarlægt til að maður þurfi að grilla í þá). Yfir lundunum sveimar Svartbakur. Hann steypir sér niður og tekur með sér einn lunda og er að vandræðast með hann í loftinu góða stund, missir hann, tekur hann síðan upp aftur (á meðan lundinn spriklar varnarlaus). Því næst sporðrennir hann lundanum með þeim árangri að hann stendur hálfpartinn í honum. Þá kemur annar Svartfugl að og nær að draga lundann upp úr honum. Þá er miskunnarlaust togast á um hann í loftinu. Þetta tekur um það bil tvær mínútur. Eftir það súmmar vélin aftur upp að lundunum og sýnir prýðilega myndir af þeim í tuttugu sekúndur. Búið.
Ég lenti í vandræðum með þetta því ekki langaði mig til að sýna Signýju tóman óhugnað í tenslum við uppáhaldsfuglinn hennar. Þetta er eins að segja: Þetta er New York, og sýna bara myndbrot frá ellefta september. Hún fékk því að sjá fimmtán sekúndur í byrjun, hraðspólun, og svo tuttugu sekúndur í lokin. Þetta bað hún um aftur og aftur (enda bara stutt brot í boði). Mér finnst það með ólíkindum að gæðaeftirlitið á svona flottri spólu skuli vera svona gloppótt. Eflaust hefur mönnum þótt senurnar flottar, en þá gleyma þeir markhópnum, fyrir utan það að lundinn er nánast aldrei í mynd.
þriðjudagur, október 30, 2007
Fréttnæmt: Veikindi eina ferðina enn
Þetta er búið að vera strembið að undanförnu. Núna um helgina fékk Signý hitasótt eina ferðina enn (þriðja helgin í mánuðinum) og var heima á mánudaginn. Hún er orðin spræk núna en í kjölfarið fengum við Hugrún einhverja óværu líka. Hugrún virtist ná sér fljótt (var með nokkrar kommur í einn dag) en ég er enn hálf lemstraður. Ég mætti í vinnu í dag og vinnufélagarnir kepptust við að vísa mér heim snemma. Samt er ég ekki með neinn hita! Kallast það að vera veikur ef enginn hiti fylgir lasleikanum? Ég er samt áberandi slappur, rámur eins og kráka og tuskast til eins og brúða (og rek mig utan í reglulega vegna sljóleikans). Þetta er langt frá því að vera gaman. Verst er að geta ekki bara lagt sig og gleymt stund og stað eins og í gamla daga. Ég næ þó að leggja mig öðru hvoru.
Nú blasir vetrarfrí við frá fimmtudegi til og með þriðjudags: sex daga frí sem á að nýta vel til að hvílast og gera ýmislegt fyrir heimilið. Ég ætla svo sannarlega ekki að vera lasinn þessa daga. Vonandi næ ég að vinna upp bloggpásuna sem er að baki. Það er margt sem mig hefur langað að tjá mig um varðandi Signýju og Hugrúnu. Ætli það endi ekki með því að ég taki saman mánaðaryfirlit um þær báðar í fríinu.
Nú blasir vetrarfrí við frá fimmtudegi til og með þriðjudags: sex daga frí sem á að nýta vel til að hvílast og gera ýmislegt fyrir heimilið. Ég ætla svo sannarlega ekki að vera lasinn þessa daga. Vonandi næ ég að vinna upp bloggpásuna sem er að baki. Það er margt sem mig hefur langað að tjá mig um varðandi Signýju og Hugrúnu. Ætli það endi ekki með því að ég taki saman mánaðaryfirlit um þær báðar í fríinu.
laugardagur, október 20, 2007
Fréttnæmt: Heima um helgina
Fyrir um viku síðan vorum við Vigdís komin á fremsta hlunn með að kaupa okkur sameiginlegt armband á Airwaves-hátíðina. Við vorum búin að tékka á hljómsveitunum og ég náði meira að segja í nokkrar plötur á netinu til að kanna frekar. Við tókum jafnvel nokkrar Airwaves-skorpur og létum tölvuna (eða iPodinn) spila tilviljunarkennt upp úr sérstakri Airwaves-möppu sem ég hafði útbúið. En við hikuðum við að kaupa vegna þess að þar með myndum við setja utanaðkomandi pressu á okkur kvöld eftir kvöld. Hátíðin stendur yfir í fimm kvöld og ekki hægt að kaupa miða á stök kvöld. Armbandið myndi annað hvort draga annað okkar út úr húsi daglega alla þessa daga (sem er talsvert álag til lengdar þegar maður er með tvö börn) eða valda samviskubiti þau kvöld sem maður færi ekki. Svo hefðum við ekki getað farið saman á neina uppákomu, nema með því að kaupa tvö armbönd (eitt stykki er nógu dýrt = 8.500 kall).
Við vorum því eiginlega bara fegin þegar við fréttum af því að það hefði selst upp á hátíðina um síðustu helgi. Svo kom á daginn að Signý veiktist núna um helgina. Fékk hita í gær og liggur núna, örlítið að braggast. Við áttum því ekki séns. Við sjáum að sjálfsögðu ekki eftir tímanum sem fór í að kynda undir væntingarnar. Við kynntumst lítillega áhugaverðum sveitum eins og Bloc Party, Of Montreal og Grizzly Bear og áttum huggulegar hlustunarstundir saman.
Það var því í fullkomnu samræmi við þessa atburðarás að við skyndilega eignuðumst risastórt sjónvarp á miðvikudaginn var! Ásdís og Toggi hringdu í okkur og buðu okkur gamla sjónvarpið sitt (sem var þó ekki nema þriggja ára) því þau höfðu fjárfest í flötum skjá. Við hikuðum reyndar vegna þess að stofan okkar er ekki stór og vorum hrædd um að sjónvarpið yrði of ráðandi í rýminu. Hógværðin yfir gamla litla sjónvarpinu var okkur alltaf að skapi en það tæki var hins vegar orðið varhugavert vegna aldurs (og farið að sýna ýmis óvænt litbrigði og jafnvel bjóða upp á hátíðniískur einsöku sinnum). Þegar á reyndi kom stóra sjónvarpið hins vegar einstaklega vel út. Það er með grárri umgjörð og virkar því í heild ekki svo mikið stærra en litla sjónvarpið (sem var svart og þannig séð meira áberandi). Einnig er stóra sjónvarpið ekkert fyrirferðameira að öðru leyti, jafnvel eilítið grynnra og því vel hægt að ýta því lengra út í horn. Útkoman var því hreint afbragð. Núna njótum við þess að horfa á nánast hvað sem er. Jafnvel barnasjónvarpið er sjónræn upplifun. Það verður frábært að horfa á alvöru myndir í þessari græju og sé fyrir mér kvikmyndahátið áður en langt um líður.
Við vorum því eiginlega bara fegin þegar við fréttum af því að það hefði selst upp á hátíðina um síðustu helgi. Svo kom á daginn að Signý veiktist núna um helgina. Fékk hita í gær og liggur núna, örlítið að braggast. Við áttum því ekki séns. Við sjáum að sjálfsögðu ekki eftir tímanum sem fór í að kynda undir væntingarnar. Við kynntumst lítillega áhugaverðum sveitum eins og Bloc Party, Of Montreal og Grizzly Bear og áttum huggulegar hlustunarstundir saman.
Það var því í fullkomnu samræmi við þessa atburðarás að við skyndilega eignuðumst risastórt sjónvarp á miðvikudaginn var! Ásdís og Toggi hringdu í okkur og buðu okkur gamla sjónvarpið sitt (sem var þó ekki nema þriggja ára) því þau höfðu fjárfest í flötum skjá. Við hikuðum reyndar vegna þess að stofan okkar er ekki stór og vorum hrædd um að sjónvarpið yrði of ráðandi í rýminu. Hógværðin yfir gamla litla sjónvarpinu var okkur alltaf að skapi en það tæki var hins vegar orðið varhugavert vegna aldurs (og farið að sýna ýmis óvænt litbrigði og jafnvel bjóða upp á hátíðniískur einsöku sinnum). Þegar á reyndi kom stóra sjónvarpið hins vegar einstaklega vel út. Það er með grárri umgjörð og virkar því í heild ekki svo mikið stærra en litla sjónvarpið (sem var svart og þannig séð meira áberandi). Einnig er stóra sjónvarpið ekkert fyrirferðameira að öðru leyti, jafnvel eilítið grynnra og því vel hægt að ýta því lengra út í horn. Útkoman var því hreint afbragð. Núna njótum við þess að horfa á nánast hvað sem er. Jafnvel barnasjónvarpið er sjónræn upplifun. Það verður frábært að horfa á alvöru myndir í þessari græju og sé fyrir mér kvikmyndahátið áður en langt um líður.
þriðjudagur, október 16, 2007
Daglegt líf: Ótímabær afmælissöngur
Ótrúlega getur maður verið seinn að fatta stundum! Signý hefur undanfarið verið að biðja mig um að syngja "ammli". Ég hélt að hún væri að tala um "afmælissönginn". Þau syngja náttúrulega afmælissönginn í leikskólanum öðru hvoru. Reyndar er það bara gert einu sinni í mánuði (og þá er sungið fyrir öll afmælisbörn mánaðarins sama daginn og haldin pitsuveisla í leiðinni). Ég var því hissa á því hvað hún hamraði oft á þessu með "ammli" og truflaði mig jafnvel sérstaklega í miðjum söng með þetta mikilvæga "óskalag". Ég var minnugur þess að hún hefur áður komið heim með lagstúf á vörunum sem við höfðum ekki sjálf haldið að henni hér heima. Nýlega var það "sól, sól, skín á mig" sem hún sönglaði einn daginn upp úr þurru (án textans, en laglínan skýr og góð). Ég ákvað því að láta það eftir henni að syngja afmælissönginn öðru hvoru, eftir beiðni, og söng hann ýmist fyrir hana (tveggja ára í desember) eða fyrir ímyndaðan leikfélaga (hann á afmæli í dag) eða eitthvað álíka út í loftið - hálf vandræðalegt semsagt. En alltaf fannst mér hún taka hálf dræmt í sönginn. Hún kannaðist alveg við lagið en gladdist ekkert sérstaklega. Svo kom að því í dag að ég var eitthvað að raula yfir henni í baðinu og datt inn á gamlan slagara:
Gamli Nói
Þá tók hún ákaflega vel undir og kunni lagið miklu betur en mig minnti og sagði strax: Ammli.
Þau greinilega syngja þetta í leikskólanum. Við vorum eiginlega búin að gleyma Nóa gamla enda önnur lög í uppáhaldi þessa dagana ("Uppi á grænum, grænum himinháum hól" er í sérstöku uppáhaldi með miklum leikrænum tilþrifum Signýjar). En hann er velkominn heim, að sjálfsögðu, ekki síst vegna þess að nú sé ég feginn fram á að vera laus við að syngja afmælissönginn í tima og ótíma.
Gamli Nói
Þá tók hún ákaflega vel undir og kunni lagið miklu betur en mig minnti og sagði strax: Ammli.
Þau greinilega syngja þetta í leikskólanum. Við vorum eiginlega búin að gleyma Nóa gamla enda önnur lög í uppáhaldi þessa dagana ("Uppi á grænum, grænum himinháum hól" er í sérstöku uppáhaldi með miklum leikrænum tilþrifum Signýjar). En hann er velkominn heim, að sjálfsögðu, ekki síst vegna þess að nú sé ég feginn fram á að vera laus við að syngja afmælissönginn í tima og ótíma.
mánudagur, október 15, 2007
Upplifanir: Tónleikar og kvikmyndir
Það er mjög óheppilegt að maður skuli einmitt ekki hafa tíma til að skrifa þegar maður hefur frá hvað mestu að segja. Undanfarið höfum við Vigdís nefnilega leyft okkur þann munað að njóta þess besta sem borgin hefur upp á að bjóða og látið öðrum eftir að gæta dætranna okkar. Núna stendur yfir (ennþá, að því er best ég veit) kvikmyndahátið Reykjavíkur (RIFF) og við skelltum okkur á Sigurrósarmyndina "Heim". Myndin er undur. Svo einfalt er það. Ég er á því að þeir sem ekki hrífast af hljómsveitinni á þessari sýningu eru einfaldlega skyndaufir eða þurfa alvarlega á hjartaígræðslu að halda. Myndin spilar á allt litróf fegurðar, gerir talsverðar kröfur til næmni áhorfandans og þegar dramatíkin er hvað mest tekur hún sig ekki allt of hátíðlega. Ég er ekki hissa á að heyra talað um að þetta sé ein besta tónleikamynd sögunnar. Sú eina sem kemst upp á sama stall í mínum huga eru Pink Floyd-tónleikarnir "Live at Pompeii" (þar sem þeir léku í aldagömlu opnu hringleikahúsi í brennandi heitri miðdegissól. Ógleymanlegt).
Önnur mynd var sýnd á hátíðinni sem er ekki síður merkileg; Control. Það er eins konar heimildarmynd (afar nákvæm leikin eftirmynd) um feril hljómsveitarinnar Joy Division (sem áhugamenn um nýbylgjutónlist ættu að þekkja). Þessi mynd er eiginlega "Downfall" tónlistarheimsins því hér er mannlýsingin á aðalpersónunni (sem hnignar jafnt og þétt eins og Hitler í hinni myndinni) algjörlega óaðfinnanleg. Þeir sem til þekkja tala um að líkindin milli leikarans og aðalsöngvara sveitarinnar séu óhugnanleg. Einnig er myndin merkileg "heimild" því nánast ekkert myndefni hefur varðveist með hljómsveitinni. Leikstjórinn var ímyndarsmiður sveitarinnar á sínum tíma - tók frægustu ljósmyndirnar af sveitinni - og nær að fanga andrúmsloftið í svart-hvítu (eins og ljósmyndirnar voru) af einstakri listrænn smekkvísi.
Fjórar plötukápur Danielson
Svo skellti ég mér á eftirminnilega tónleika með hljómsveitinni "Danielson". Henni er best lýst sem Pixies á helíum (svolítið svipað lögum af fyrstu plötunni, eins og "I´ve Been Tired" og "Levitate Me"). Lögin eru hugmyndarík og full af skemmtilegri sérvisku. Ekki skemmdi það fyrir að hljómsveitinn tróð upp í Fríkirkjunni og klæddi sig upp í herklæði Hjálpræðishersins. Í anda biblíuskólanna virkjaði Danielson sjálfur salinn með klappköflum (sem hann kallaði "Clap-a-longs") enda ekki vanþörf í sumum lögum á að láta leiða sig gegnum fjölbreytilegar taktbreytingar. Þetta var mjög sérstakt og skemmtilegt.
Önnur mynd var sýnd á hátíðinni sem er ekki síður merkileg; Control. Það er eins konar heimildarmynd (afar nákvæm leikin eftirmynd) um feril hljómsveitarinnar Joy Division (sem áhugamenn um nýbylgjutónlist ættu að þekkja). Þessi mynd er eiginlega "Downfall" tónlistarheimsins því hér er mannlýsingin á aðalpersónunni (sem hnignar jafnt og þétt eins og Hitler í hinni myndinni) algjörlega óaðfinnanleg. Þeir sem til þekkja tala um að líkindin milli leikarans og aðalsöngvara sveitarinnar séu óhugnanleg. Einnig er myndin merkileg "heimild" því nánast ekkert myndefni hefur varðveist með hljómsveitinni. Leikstjórinn var ímyndarsmiður sveitarinnar á sínum tíma - tók frægustu ljósmyndirnar af sveitinni - og nær að fanga andrúmsloftið í svart-hvítu (eins og ljósmyndirnar voru) af einstakri listrænn smekkvísi.
Fjórar plötukápur Danielson
Svo skellti ég mér á eftirminnilega tónleika með hljómsveitinni "Danielson". Henni er best lýst sem Pixies á helíum (svolítið svipað lögum af fyrstu plötunni, eins og "I´ve Been Tired" og "Levitate Me"). Lögin eru hugmyndarík og full af skemmtilegri sérvisku. Ekki skemmdi það fyrir að hljómsveitinn tróð upp í Fríkirkjunni og klæddi sig upp í herklæði Hjálpræðishersins. Í anda biblíuskólanna virkjaði Danielson sjálfur salinn með klappköflum (sem hann kallaði "Clap-a-longs") enda ekki vanþörf í sumum lögum á að láta leiða sig gegnum fjölbreytilegar taktbreytingar. Þetta var mjög sérstakt og skemmtilegt.
þriðjudagur, október 09, 2007
Upplifun: Bubbi byggir datt
Signý kemur manni stundum á óvart. Sérstaklega þar sem hún bíður enn með að tala fyrir alvöru, en virðist skilja helling. Í dag var ég að spjalla við hana á meðan ég skipti á bleyjunni fyrir háttinn. Hún missti snuðið á gólfið og sagði "Dudda gúlli". Ég tók auðvitað undir þetta með henni, ánægður með að heyra hvernig orðin eru að raðast í einfaldar setningar. "Gólf" er nýtilkomið (sem "gúll") og hún er farin að nota það af meira öryggi en áður. Ég rétti henni snuðið aftur. Hún virtist hins vegar ekki fyllilega sátt við svarið mitt og sönglaði laglínu með fjórum nótum (og einhverju óljósara í framhaldi): Daaa-da-daa-daa. Ég kannaðist við laglínuna úr "Bubbi byggir" og var eiginlega hissa á að heyra hana syngja þetta, - var ekki viss því þessu lagi hefur aldrei verið haldið sérstaklega að henni. Ég söng þá bara með henni "Bubbi byggir" í þeirri von að hún væri að hugsa um sama lag og ég og setti hana svo upp í rúm. Þá benti hún á rúmið, eða púðann upp við vegginn, eða bara vegginn (ég var ekki viss) og sagði: "Duddi datt gúlli". Ég var ánægður með þessa setningu í ljósi þess að hún var nýbúin að missa snuðið á gólfið og bað hana að endurtaka svo að mamma hennar heyrði. Þá kom Vigdís í dyragættina. Signý benti áfram jafn dularfull á svipinn á sama stað og áður, sem ég áttaði mig loksins á að væri bilið á milli rúmsins og veggjarins, og sagði: "Duddi datt gúlli". Við vorum áfram jafn hissa. Þá söng hún aftur lagið: Daaa-da-daa-daa ("Bubbi byggir"). Eitthvað hlaut að hafa dottið þarna á milli svo ég ákvað að kíkja undir. Það fór eiginlega um mig þegar ég sá að þetta var bók!: "Bob the Builder" (Bubbi byggir). Mikið óskaplega var hún glöð þegar ég uppgötvaði þetta loksins!
Daglegt líf: Hitaflensa
Nú eru liðnir um það bil tveir mánuðir síðan leikskólinn hóf hauststarfsemi sína eftir stutt hlé í ágúst. Fram að því var Signý búin að missa mikið úr vegna veikinda en hefur verið alveg heil heilsu síðan (fyrir utan nefrennsli og svoleiðis), - þangað til á laugardaginn var. Þá fékk hún töluverðan hita. Hún var furðu hress miðað við að hitinn færi vel yfir 39 gráður, en fljótt syfjuð. Um nóttina kastaði hún upp og var mjög slöpp fyrri partinn á sunnudag. Síðan fór hitinn að lækka jafnt og þétt aftur. Hún var hitalaus yfir nóttina en við urðum að sjálfsögðu að halda henni heima daginn eftir. Þá kom í ljós hvað leikskólinn er mikið þarfaþing, sem útrás fyrir börnin. Signý var svo eirðarlaus og óþreytt á mánudaginn að það var beinlínis erfitt að fá hana til að sofna um kvöldið. Hún trítlaði fram hvað eftir annað (hún en náttúrulega í rimlalausu rúmi, eins og áður hefur komið fram, sem hefur þennan fyrirsjáanlega ókost). Hún var greinilega orðin fullfrísk og var áfram hitalaus og fór því aftur í leikskólann í dag. En þá er eins og þetta smotterí sem hrjáði hana hafi smitast yfir í Hugrúnu. Hún var eitthvað lítilsháttar slöpp í gær og er komin með hita í dag. Hann virðist hins vegar vera á undanhaldi nú þegar ég skrifa þetta þannig að ég geri ekki ráð fyrir frekari eftirmálum.
sunnudagur, október 07, 2007
Fréttnæmt: Leikfélagahópurinn stækkar
Þetta er mikil barnsburðarhelgi. Í gærmorgun fengum við þær fréttir að Jón og Margrét hefðu eignast um nóttina stálpaða og vel hærða dóttur. Rétt eins og Hugrún var hún fremur stór miðað við þyngd. Þá sagði Vigdís: "Hún fæðist löng og svöng", sem passaði ágætlega. Við hlökkum mikið til að heimsækja þau í vikunni og vonum að þau nái að hvílast vel.
Varla var maður búinn að ná sér af tilhugsuninni fyrr en ég kveikti á tölvunni í morgun. Lítill tími hefur gefist til þess undanfarið og ég var farinn að fá það á tilfinninguna að það væri farið að draga til tíðinda í Svíþjóð einnig (en þar búa Kristján og Stella ásamt Áslaugu Eddu litlu, og lítil systir á leið í heiminn). Ekki hafði spurst til þeirri í nokkra daga en nú kom í ljós hver ástæðan var: Þau eignuðust aðra dóttur sína farsællega á mánudaginn var.
Það er því mörgum gleðitíðindum að fagna og gaman að hugsa til þess að nú hafi fjölgaði í framtíðarleikfélagahóp Hugrúnar og Signýjar um heila tvo.
Varla var maður búinn að ná sér af tilhugsuninni fyrr en ég kveikti á tölvunni í morgun. Lítill tími hefur gefist til þess undanfarið og ég var farinn að fá það á tilfinninguna að það væri farið að draga til tíðinda í Svíþjóð einnig (en þar búa Kristján og Stella ásamt Áslaugu Eddu litlu, og lítil systir á leið í heiminn). Ekki hafði spurst til þeirri í nokkra daga en nú kom í ljós hver ástæðan var: Þau eignuðust aðra dóttur sína farsællega á mánudaginn var.
Það er því mörgum gleðitíðindum að fagna og gaman að hugsa til þess að nú hafi fjölgaði í framtíðarleikfélagahóp Hugrúnar og Signýjar um heila tvo.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)