föstudagur, júlí 31, 2009
Upplifun: Hugrún strýkur að heiman
Hugrún er mikill arkari, eins og kom fram í síðustu færslu. Þegar hún var komin heim, örþreytt, var hún síður en svo búin á því. Fyrst tók við leikstund með Signýju og vinkonu hennar (sem enn var í heimsókn) og að lokum var kominn matartími. Vigdís grillaði úti og kom með dýrindisfenginn inn, með tilheyrandi sumarlykt. Það sem Hugrún gerði hins vegar eftir matinn á eftir að sitja í okkur lengi. Hún læddist út rétt á meðan ég leitaði að þvottapoka til að þrífa hendurnar á þeim systrum. Hún er vön að fara varlega upp þrepin sem liggja niður í kjallarann okkar en í þetta skipti er eins og hún hafi strunsað út um ólæstar dyrnar. Það tók okkur líklega 10-15 sekúndur að átta okkur á því að hún væri "horfin" og það nægði henni til að strjúka. Garðshliðið er henni engin fyrirstaða og fannst hún strunsandi eftir gangstéttinni um það bil tveimur húsum frá. Hún leit ekki einu sinni um öxl þegar mamma hennar stikaði á eftir henni og gómaði. Við vorum að sjálfsögðu í uppnámi yfir því sem hefði getað komið fyrir hana. Hvað ef við hefðum áttað okkur eins og mínútu seinna? Hefði hún á endanum snúið við? Hvað verður þá um svona tveggja ára grísling sem enn áttar sig ekki á því hvað göturnar eru hættulegar? Eitt er víst að dyrnar koma ekki til með að standa opnar eða ólæstar héðan í frá, jafnvel um hásumarið þegar gestagangur er stöðugur. Til þess er Hugrún of óútreiknanleg - og dýrmæt.
Upplifun: Leyndur staður í Heiðmörk
Við Hugrún drifum okkur í Heiðmörk í dag til að hitta Beggu og Guðnýju. Signý var á meðan upptekin heima; hún átti von á vinkonu sinni í heimsókn. En við Hugrún nutum veðursins úti á meðan. Ég reiknaði nú ekki með að ganga neitt sérlega mikið með henni, en hún gerði sér lítið fyrir og strunsaði upp göngustíginn, eins og í kraftgöngu. Hún linnti varla látum í heila tvo tíma nema rétt til að koma til móts við okkur hin og til að koma sér notalega fyrir í laut með nesti. Jón og Margrét slógust líka í hópinn með Melkorku sinni um það bil þegar Begga og Guðný voru á heimleið. Þær Melkorka náðu betur saman en nokkurn tímann áður. Hingað til hefur Signý haft frumkvæðið af Hugrúnu, enda kynntist hún Melkorku fyrr í bústaðarferð fyrir rúmu ári (og þá var Hugrún í pössun í bænum). Í þetta skipti voru þær saman tvær og náðu eiginlega merkilega vel saman og að sama skapi voru þær ótrúlega líka í háttum, örkuðu báðar tvær beint af augum. Þær voru nokkurn spöl á undan okkur Jóni og Margréti þegar þær sýndu lítt greinilegum göngustíg áhuga sem lá undir stingandi greni (við hin þurftum að beygja okkur) og upp talsverða brekku. Rætur trjánna virkuðu eins og þrep eina fimmtíu metra þar til við komum okkur fyrir í lundi sem gnæfði yfir Heiðmörkinni fyrir neðan. Glæsilegur staður sem þær fundu stöllurnar Melkorka og Hugrún. Við vorum öll hæstánægð og kroppuðum í nesti á þessum kyrrláta og afskekkta stað og einsettum okkur að koma hingað aftur. Í tilefni af því var lundinum gefið nafn: Hugkorkulundur.
þriðjudagur, júlí 28, 2009
Fréttnæmt: Heilsufarsskýrsla 2
Í dag heyrði Vigdís í heimilislækninum okkar. Hún átti pantaðan símatíma vegna rannsóknarinnar á Hugrúnu frá því fyrir viku. Læknirinn kom með bæði jákvæðar og neikvæðar fréttir. Jákvæðu fréttirnar eru að bakflæðið hefur minnkað umtalsvert, frá því að vera þriðja stigs (í fjórskiptu kerfi) niður í fyrsta stigs. Hún er búin að þurfa að vera á lyfjum út af þessu hvert einasta kvöld undanfarið ár en héðan í frá má hún sleppa þeim. Hún má líka fara í sund í kjölfarið af þessari jákvæðu breytingu. HIns vegar eru neikvæðu fréttirnar þær að hún þarf að undirgangast rannsóknina aftur að ári, til að ganga endanlega úr skugga um að þetta sé á undanhaldi. Þetta var mjög óþægilega rannsókn fyrir Hugrúnu. Í bæði skiptin hefur hún hins vegar tekið fljótt af svo ég á von á því að þetta gangi hratt fyrir sig næst líka og verði þá úr sögunni.
Daglegt líf: Sumarbústaðarferð í Grímsnesið
Við Vigdís erum rétt stigin inn úr fjögurra daga bústaðaferð í Grímsnesið. Það gerðist svo sem ekkert markvert annað en það að við nýttum tímann til að slappa af. Veðrið heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir og það takmarkaði óneitanlega athafnagleðina. Það er hins vegar alltaf gaman að sjá hvað Signý og Hugrún halda mikið upp á þennan stað. Fyrir þær er þetta eins og að koma "heim", þær eru orðnar svo heimavanar í húsinu. Svo er bústaðurinn svo þægilega staðsettur, með Selfoss, Laugavatn og önnur byggðarlög í næsta nágrenni. Við áttum reyndar erindi upp á Hvolsvöll um helgina þar sem eins konar ættarmót var haldið í fjölskyldu Vigdísar. Þá var gott að geta skotist fram og til baka án þess að þurfa að híma of lengi í bílnum með stelpurnar. Sem sagt, bæði praktískt og notalegt hjá okkur um helgina.
föstudagur, júlí 24, 2009
Daglegt líf: Sundlaug í garðinn
Nú hefur hitinn lækkað töluvert og það kemur beinlínis eins og ferskur andblær inn í tilveruna. Það rifjaðist upp fyrir mér í gær, þegar ég var staddur úti með Hugrúnu og Signýju, hvernig það var í gamla daga að koma heim frá útlöndum og rakamettuðu lofti yfir í ferskleikann. Mann langaði bara að reka út úr sér tunguna um leið og maður steig út úr flugvélinni.
Garðurinn hefur verið einstaklega vel nýttur þessa sólríku daga. Við gerðum okkur lítið fyrir og keyptum myndarlega uppblásanlega sundlaug fyrir Signýju og Hugrúnu. Hún er nógu stór til að við foreldrarnir og aðrir gestir getum spókað okkur í henni ásamt börnunum, í ylvolgu vatninu. Nú þegar hafa margir dýft tá ofan í laugina og vonandi eiga fleiri eftir að njóta góðs af það sem eftir er sumars.
Garðurinn hefur verið einstaklega vel nýttur þessa sólríku daga. Við gerðum okkur lítið fyrir og keyptum myndarlega uppblásanlega sundlaug fyrir Signýju og Hugrúnu. Hún er nógu stór til að við foreldrarnir og aðrir gestir getum spókað okkur í henni ásamt börnunum, í ylvolgu vatninu. Nú þegar hafa margir dýft tá ofan í laugina og vonandi eiga fleiri eftir að njóta góðs af það sem eftir er sumars.
þriðjudagur, júlí 21, 2009
Fréttnæmt: Heilsufarsskýrsla
Síðan Signý og Hugrún hættu á sýklalyfjunum fyrir um tveimur vikum síðan hefur dregið til tíðinda á ný. Signý fór með nefrennsli til læknis fyrir rúmri viku síðan og var ekki með nein önnur einkenni (okkur fannst endurkoma streptokokkasýkingar ólíkleg af þeim sökum). Þegar læknirinn fékk upplýsingar um að við foreldrarnir erum bæði með gróðurofnæmi úrskurðaði hann hana með það sama. Þetta er víst orðið mjög algengt hjá ungum börnum í dag þó það hafi verið fáheyrt fyrir 20-30 árum síðan. Hún fékk að taka Loritín, hálfa töflu, og virtist lagast eitthvað við það.
Um viku síðar, eða á þriðjudaginn var, fór Hugrún í rannsókn. Nú átti að skoða á ný bakflæðið hennar. Góðar líkur voru á því að það myndi lagast af sjálfu sér og til að gera langa sögu stutta leit út fyrir það. Ekkert sérstakt kom í ljós á myndunum. Við bíðum þó enn eftir úrskurði sérfræðinga sem eiga eftir að skoða þetta betur. Þetta er hins vegar mikill léttir. Við getum nú óhikað, ef að líkum lætur, farið með Hugrúnu í sund aftur. Þetta bakflæði olli blöðrubólgu sem vonandi er nú að baki.
Um viku síðar, eða á þriðjudaginn var, fór Hugrún í rannsókn. Nú átti að skoða á ný bakflæðið hennar. Góðar líkur voru á því að það myndi lagast af sjálfu sér og til að gera langa sögu stutta leit út fyrir það. Ekkert sérstakt kom í ljós á myndunum. Við bíðum þó enn eftir úrskurði sérfræðinga sem eiga eftir að skoða þetta betur. Þetta er hins vegar mikill léttir. Við getum nú óhikað, ef að líkum lætur, farið með Hugrúnu í sund aftur. Þetta bakflæði olli blöðrubólgu sem vonandi er nú að baki.
fimmtudagur, júlí 16, 2009
Fréttnæmt: Nýtt rúm
Á mánudaginn var skelltum við okkur í IKEA og keyptum rúm fyrir Signýju. Hugrún fékk rúm Signýjar þannig að þær græddu báðar svefnpláss. Það var gaman að breyta herberginu og finna hvað þær voru spenntar fyrir breytingunni. Signý hvatti mig eindregið til þess að "búa til" rúmið strax, en ég ætlaði að gera það í góðu tómi daginn eftir. Þær sátu yfir mér góða stund og fylgdust með og voru að lokum hæstánægðar með árangurinn, sem reyndar kom ekki í ljós fyrr en morguninn eftir. Þær sváfu sem sagt báðar mun lengur en venjulega um morguninn, og daginn eftir líka. Ég spurði Signýju eldsnemma morguns á meðan ég strauk henni um vangann hvort henni fyndist gott að lúlla í nýja rúminu, og hún kinkaði strax kolli (og hélt svo áfram að sofa).
sunnudagur, júlí 05, 2009
Pæling: Söngleikir fyrir börn?
Síðustu daga hefur Signý verið gagntekin af söngleiknum "Cats" eftir Andrew Lloyd Webber. Þetta stykki sló í gegn í Englandi á miðjum áttunda áratugnum og ég man eftir því sem einni af helstu leikhúsperlum Lundúna frá þeim tíma sem ég var þar árið 1988. Ég fór á söngleikinn og hreifst mjög á sínum tíma af tilburðum leikaranna, dönsunum, hreyfingunum og öllu litrófinu. Mann langaði eiginlega strax að fara í fimleika, eða eitthvað. Tónlistin hreif líka en þó ekki eins og sjónræni þátturinn og öll þessi smitandi gleði sem einkenndi sýninguna. En núna, sem sagt, er Signý komin á bragðið. Ég leyfði henni að sjá þetta á DVD á meðan hún var lasin. Síðan þá hefur hún spurt um "kisurnar" á hverjum degi. Fyrst spurði hún reyndar um "apana", sem er raun nær lagi því þetta eru jú manneskjur í loðfeldum og með skott. En með tímanum gerði hún sér betur og betur grein fyrir sögunni og áttar sig á því að þarna er verið að segja frá samfélagi katta og þeirra samskiptum. Hún heillast sérstaklega af dansatriðunum og hreyfir sig gjarnan í takt. Það vekur líka furðu mína hvað hún er búin að ná lögunum vel, eftir ekki nema fimm rennsli eða svo. Þess á milli sem hún hreyfir sig eða syngur horfir hún á með andakt og tjáir sig um líðan kattanna: "Enginn vill vera vinur hennar" eða "þetta er ljóti kisinn". Eitt atriðið vill hún hins vegar alltaf stökkva yfir, en þá birtist "draugakisi" með ægilegum hlátrasköllum. Þetta er náttúrulega frábær upplifun fyrir hana og ég er mjög feginn að hafa dottið inn á þetta. Í framhaldi velti ég því hins vegar fyrir mér hvort ekki séu margir aðrir söngleikir sem henta börnum á hennar aldri? Flestir söngleikja Webbers held ég að höfði síður til barna. En hvernig er "Ávaxtakarfan"? Ég man að hún hreif ekki fyrir svona ári síðan, en það má reyna aftur. Svo eru norsku leikritin "Dýrin í Hálsaskógi" og "Kardimommubærinn" nánast söngleikir. Gaman væri að heyra í hugmyndum, hér sem athugasemd eða í tölvupósti. Nú eða í eigin persónu :-)
föstudagur, júlí 03, 2009
Fréttnæmt: Smá veikindatörn
Það er eins og ég hafi fundið það á mér: um leið og ég sleppti orðinu síðast fóru veikindin að ágerast. Hugrún fékk aftur heilmikið bakslag um nóttina svo við ákváðum að fara með þær báðar strax til læknis, á þriðjudag. Þær voru snarlega úrskurðaðar með Streptokokkasýkingu og fóru á tiu daga lyfjakúr. Eru orðnar fínar núna og komnar í leikskólann. Ég fann hins vegar fyrir einhverju svipuðu sama kvöld, smá beinverki og örlitla hálsbólgu. Þetta var eitthvað lítilsháttar, hitinn á bilinu 38-39 gráður, en Vigdís var ákveðin í að ég skyldi gangast undir sama próf, sem var á miðvikudaginn, og útkoman reyndist jákvæð. Við erum þá þrjú á heimilinu núna á tíu daga Streptokokkakúr. Sem betur fer ákváðum við þetta í tæka tíð því þegar ég vaknaði daginn eftir, í gærmorgun, var ég eiginlega fárveikur. Vaknaði í algjöru svitabaði, með fjörtíu stiga hita. Það perlaði af mér svitinn. Hvernig hefði maður verið án lyfjanna? Eftir að hafa innbyrt verkjatöflur og fyrsta lyfjaskammt dagsins fór mér hins vegar að snarbatna og hef verið á batavegi síðan (bara tvær kommur í morgun). Við erum sem sagt öll á batavegi og það er rétt að taka fram að einum sólarhring eftir fyrstu lyfjagjöf hættir maður að vera smitandi. Það er því óhætt að kíkja í heimsókn eða hafa samband um helgina, ef menn vilja.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)