Í tilefni af óhuggulegri heimildarmynd í sjónvarpinu í kvöld um þjóðarmorðið í Darfur héraði í Súdan tók ég mig til og kynnti mér sögu annars þjóðarmorðs sem átti sér stað nokkrum árum fyrr: slátrunina í Rwanda. Ég fann nokkuð ítarlega grein um sögu Rwanda á hinum frábæra Wikipedia-alfræðibanka. Þar kom fram tölfræðileg staðreynd sem ein og sér náði að stugga verulega við mér. Hún er sú að á þremur mánuðum náðu Hutu-menn að slátra rúmlega níu hundruð þúsund manns (aðallega Tutsi-mönnum en einnig frjálslyndum Hutu-mönnum). Til að skilja þetta almennilega þarf maður að einfalda tölurnar og gera þær áþreifanlegri.
Ef þeir myrtu um það bil 300.000 manns á mánuði þá gerir það tíu þúsund manns á dag! Þetta er eitt skilvirkasta þjóðarmorð sem alþjóðasamfélagið þekkir. Hvað eru margar sekúndur í sólahringnum eiginlega? 3600 sekúndur á klukkutíma sinnum 24 tímar gerir 86.400 sekúndur í sólarhringnum. Morð á átta sekúndna fresti, miðað við að haldið sé áfram sleitulaust dag og nótt. Taki menn sér tíu mínútna hlé jafngildir það "uppsöfnuðum morðkvóta" upp á 75 manns. Tölfræðin segir síðan aðeins hluta sögunnar. Hún lýsir náttúrulega ekki hryllingnum sjálfum og hversu fjölbreytilega fólki hlaut af hafa verið slátrað af mönnum sem voru orðnir tilfinningalega dauðir og þurftu að gera sér eitthvað til skemmtunar inn á milli.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Mér finnst wikipedia vera frábær síða. Stundum gleymi ég mér alveg við lestur hennar og fer úr einu efni í annað. Um daginn las ég til dæmis allt um & merkið, hélt áfram að lesa um öll þessi sértákn sem eru á lyklaborðinu, komst einhvern veginn þaðan yfir í að lesa um óðaverðbólgu, eyjarnar í Kyrrahafi og skilgreiningu hvarfbauga!
Já, þessi tölfræðipæling er mér mjög nærtæk. Ég horfi á fréttir nánast daglega, eins og flestir, og stend sjálfan mig að því að skilja ekki tölurnar sem verið er að slengja fram. Stundum held ég satt að segja að skýrandinn sjálfur skilji ekki það sem hann er að segja, eða það að hann endurtekur bara sem milliliður án þess að reyna leggja merkingu í tölurnar. Er þetta ekki eitthvað sem mætti laga með nýrri áherslu í skólakerfinu? Það myndi gera stærðfræði miklu merkingarbærari og meira aðlaðandi fyrir fjöldann ef maður fengi þjálfun í að meta stórar tölur og setja þær í mannlegt samhengi.
Wikipedia finnst mér geggjuð. Einmitt eins og Krisján lýsir þá týnir maður sér í því að læra um hluti sem maður vissi ekki að maður hefði áhuga á. Til dæmis gefur það fréttalestri dýpri merkingu að geta smellt á hugtökin sem maður þekkir illa og fengið útskýringu á þeim. Fréttasíða og alfræðisíða í senn. Loksins kom netið að einhverju gagni, segi ég :-)
Skrifa ummæli