miðvikudagur, júlí 26, 2006
Fréttnæmt: Viðgerðir á klóaklögninni
Nú er gatan hálf lömuð. Orkuveitan hefur sent Hreinsibíl í Granskjólið til að gera við aðal klóaklögnina í götunni. Við fengum tilkynningu í gær um að þetta tæki allan daginn, frá 7.45 að morgni og fram á kvöld. Á meðan höfum við ekkert heitt vatn. Það sem verra er við getum ekki notað kalda vatnið heldur eins frjálslega og við erum vön. Eins og ég skil það þá loka þeir fyrir frárennsli heimilanna á meðan þeir sýsla í götunni og ofnotkun kalda vatnsins gæti því leitt til þess að vatnið flæði upp úr kjöllurum. Við megum þvo hendur og hita kaffi en gæta þess að spara klósettferðirnar og láta vatnið ekki renna ótæpilega. Við megum ekki heldur fara í kalda sturtu. Þar til á morgun þraukum við því daginn eins og vatnssparandi meginlandsbúar. Ágætt að sýna þeim samúð í verki og fagna því í leiðinni að það sé engin hitabylgja í gangi.
Netið: Uppfærsla á myndasíðunni
Síðan við komum heim frá Danmörku í byrjun júní höfum við ekki verið dugleg að uppfæra myndasíðuna okkar. Í vikunni tók ég mig þó til og setti nokkrar, svona til að brúa bilið fram að Danmerkurför. Fleiri myndir væntanlegar fljótlega.
þriðjudagur, júlí 18, 2006
Upplifun: Náttúrulegt listflug
Ég varð fyrir mjög eftirminnilegri upplifun á leið minni fram hjá KR-vellinum í gærkvöldi. Ég skimaði fyrst í stað yfir mannfjöldann og var hissa á því að svo margir skuli yfirleitt nenna þessu. Hlustaði svo á tilþrifamikinn fjöldakliðinn sem braust eins og sprenging fram í fagnaðarlátum, eins og hafbylgja sem skellur óvænt á landi. Ég leiddi þetta þó að mestu leyti hjá mér og hélt göngunni áfram og sá skyndibitarusl á víðavangi - einn af fylgifiskum fjöldasamkoma af þessu tagi. Þá hrökk ég við það að fram hjá mér þeyttust stærðarfuglar og snerust í kraftmiklum sveig eins og orrustuþotur. Sá fremsti var hettumávur, nettari en hinir sem á eftir komu, tveir ef ekki þrír sílamávar (eða svartbakar eða eitthvað álíka - þeir eru svo líkir þessir mávar). Fleiri mávar bættust við úr annarri átt og fyrr en varði voru þeir fjórir mávarnir að elta þann eina með hettuna - því hann var með eitthvað í gogginum. Þjófslegi fuglinn hafði nælt sér í brauð og hinir ætluðu sér svo sannarlega að gogga það af honum. Í fyrstu sýndist mér þetta vera ójafn leikur. Sílamávarnir voru bæði fleiri, stærri og (að ég held) hraðfleygari en hettumávurinn. Eftir stutta stund sá ég hins vegar, mér til óblandinnar gleði, að smæðin vann með hettumávnum. Hann vék sér hvað eftir annað snilldarlega undan eins og lítil sýningaflugvél að stríða stirðbusalegum farþegaflugvélum. Hann gat vippað sér léttilega upp og niður eða snúið í þröngum hring á meðan hinir neyddust til að elta í fyrirhafnamiklum boga. Smám þynntist aftur í hópnum. Fyrsti sílamávurinn til að yfirgefa atganginn flaug sem leið lá í átt að KR-vellinum, í leit að auðveldari bita. Þeim fækkaði fljótt niður í einn máv sem þó hélt ótrauður eltingarleiknum áfram. Leikurinn barst smám saman í burtu og hvarf eftir nokkurra mínútna sjónarspil á milli háu blokkanna handan við íþróttasvæðið. Þangað tölti ég í rólegheitunum og átti allt eins von á að sjá atganginn lyftast upp á ný. Það gerðist hins vegar ekki og fuglana fann ég því miður ekki aftur. Lengi á eftir velti ég því hins vegar fyrir mér hvort hafi nú haft betur, snerpan eða seiglan? Ég man eftir öðrum máv, óþreyttum "varamanni", sem ég sá fljúga í áttina, þangað sem hinir tveir höfðu horfið. Það eru alltaf til fleiri Sílamávar. Skyldi hettumávurinn hafa úthald í þetta til lengdar?
sunnudagur, júlí 16, 2006
Daglegt líf: Græjutilfærsla
Núna um helgina tók ég mig til og breytti græjunum heima og hagræddi. Þannig var að "græjurnar" okkar voru á þremur stöðum í íbúðinni. Inni hjá Signýju var geislaspilarinn, kassettutækið og magnarinn ásamt hátölurum. Gamla settið. Þetta var þarna í eins konar geymslu, óaðgengilegt í horninu á bak við hægindastól. Var bara fyrir, eiginlega, og setti ruslkenndan svip á barnaherbergið, sem er nógu þröngt fyrir. Í stofunni var græjusamstæða tvö, þ.e.a.s. tölvan sem tengd var við lítið Tivoli-útvarp sem býr yfir mjúkum tóni og nær þannig að yfirvinna frekar harðan tón úr tölvunni. Sú samsetning þykir mér vel heppnuð þó hljómburðurinn sé lítill og nettur (enda lít ég á tölvuna og tónlistina í henni meira sem afþreyingu og upplýsingaveitu eða sem létta tónlist í bakgrunni). Græjusamstæða þrjú er síðan í horninu á móti tölvunni: Sjónvarpið, vídeótækið og DVD-tækið. Hljómburðurinn úr sjónvarpinu er ekkert víðóma, "surround"-kerfi. Bara hátalararnir á gömlu sjónvarpi.
Ég hef stundum hugsað með mér að þrátt fyrir allan þennan græjukost (ég á fjöldann allan af geislaspilurum: DVD-tækið, geislaspilarinn, tölvan plús Discman sem er einhvers staðar í skúffu) var samt engin aðstaða til að hlusta á tónlist af alvöru né horfa á myndefni í hljómburði. Í samanburði við tölvusamstæðuna hef ég satt best að segja rennt hýru auga til græjanna inni hjá Signýju en þurft að vísa því á bug vegna plássleysis (eða bara hlustað á tónlist í heyrnartólum, sem er svo sem ágætt). Þetta var eiginlega hálf vandræðalegt.
En núna um helgina datt ég um sáraeinfalda lausn. Ég sá í hendi mér að magnarann úr "gamla settinu" gæti ég hæglega sett inn í hillusamstæðuna með DVD-tækinu og Vídeó-tækinu. Með því að taka hátalarana með og tengja allt dæmið saman væri ég kominn að minnsta kosti með öflugan stereo-hljóm fyrir bæði sjónvarp, vídeó og DVD. Furðulegt að mér skyldi ekki hafa dotti þetta í hug fyrr því svona hafði ég þetta þegar ég bjó á Hellu hér um árið (þá var gamla settið við hliðina á sjónvarpinu og því auðvelt að tengja á milli). Núna slæ ég hins vegar tvær flugur í einu höggi því DVD-tækið er prýðilegur geislarspilari í leiðinni. Með því að tengja hann við magnarann er óþarfi að kveikja á sjónvarpinu til þess eins að heyra tónlistina. Ég er sem sagt búinn að sameina "gamla settið" og sjónarpsstæðuna (kassettutækið og gamli geislaspilarinn fara bara í alvöru geymslu). Í leiðinni hefur myndast heilmikið pláss inni hjá Signýju sem nýtist vel fyrir hægindastólinn sem var þar fyrir og kærleikstréð okkar sem var farið að þrengja ansi mikið að inni í stofu. Sagðist ég hafa slegið tvær flugur? Ég held ég hafi stútað heilum flugnasveim með þessari einföldu tilfærslu.
Ég hef stundum hugsað með mér að þrátt fyrir allan þennan græjukost (ég á fjöldann allan af geislaspilurum: DVD-tækið, geislaspilarinn, tölvan plús Discman sem er einhvers staðar í skúffu) var samt engin aðstaða til að hlusta á tónlist af alvöru né horfa á myndefni í hljómburði. Í samanburði við tölvusamstæðuna hef ég satt best að segja rennt hýru auga til græjanna inni hjá Signýju en þurft að vísa því á bug vegna plássleysis (eða bara hlustað á tónlist í heyrnartólum, sem er svo sem ágætt). Þetta var eiginlega hálf vandræðalegt.
En núna um helgina datt ég um sáraeinfalda lausn. Ég sá í hendi mér að magnarann úr "gamla settinu" gæti ég hæglega sett inn í hillusamstæðuna með DVD-tækinu og Vídeó-tækinu. Með því að taka hátalarana með og tengja allt dæmið saman væri ég kominn að minnsta kosti með öflugan stereo-hljóm fyrir bæði sjónvarp, vídeó og DVD. Furðulegt að mér skyldi ekki hafa dotti þetta í hug fyrr því svona hafði ég þetta þegar ég bjó á Hellu hér um árið (þá var gamla settið við hliðina á sjónvarpinu og því auðvelt að tengja á milli). Núna slæ ég hins vegar tvær flugur í einu höggi því DVD-tækið er prýðilegur geislarspilari í leiðinni. Með því að tengja hann við magnarann er óþarfi að kveikja á sjónvarpinu til þess eins að heyra tónlistina. Ég er sem sagt búinn að sameina "gamla settið" og sjónarpsstæðuna (kassettutækið og gamli geislaspilarinn fara bara í alvöru geymslu). Í leiðinni hefur myndast heilmikið pláss inni hjá Signýju sem nýtist vel fyrir hægindastólinn sem var þar fyrir og kærleikstréð okkar sem var farið að þrengja ansi mikið að inni í stofu. Sagðist ég hafa slegið tvær flugur? Ég held ég hafi stútað heilum flugnasveim með þessari einföldu tilfærslu.
Fréttnæmt: Hjal breytist í "orðavísi"
Signý naut sín vel í bústaðarferðinni eins og við mátti búast. Þar var meðal annars að finna fyrirtaks barnarúm og barnastól þannig að aðstaðan var ekki síðri en heima. Síðan tókum við teppið hennar með og dýnuna sem hún yfirleitt liggur á. Planið var náttúrulega að hvetja hana sem mest til að fara að hreyfa sig meira, það er að segja að ná að sitja almennilega, snúa sér og skríða. Hún var farin að snúa sér eitthvað löngu áður en við fórum út til Danmerkur svo það skýtur skökku við að hún skuli ekki hafa fylgt því neitt eftir. Þetta gekk hins vegar ekki alveg eftir. Hún er í stuttu máli ekki enn farin að sitja almennilega né skríða en er þó farin að snúa sér meira en áður og getur nokkuð auðveldlega sveiflað sér yfir á magann (á erfiðara með að fara af maganum og á bakið - líklegast hrædd við að slá höfðinu niður í gólfið þar sem hún reigir það upp).
Framfaraskrefin í bústaðnum voru annars eðlis. Signý byrjaði á sjö mánaða afmælisdegi sínum að bera fram sérhljóða og samhljóða. Eins og allt annað gerðist það bara einn morguninn og eftir það var ekki aftur snúið. Ma-ma-ma segir hún með átakanlegum tóni þegar hún grætur eða biður um eitthvað. Stundum rennur þetta saman við a-ma-ma (nokkuð sem amma hennar benti réttilega á) eða jafnvel va-va-va. Fyrsta morguninn lék Signý sér með þessi nýju hljóð, bæði kvartandi og hjalandi, en síðan þá hefur hún beitt nýja vopninu einkum þegar hana vanhagar sárlega um eitthvað. Þess á milli leyfir hún sér að hjala "orðalaust".
Framfaraskrefin í bústaðnum voru annars eðlis. Signý byrjaði á sjö mánaða afmælisdegi sínum að bera fram sérhljóða og samhljóða. Eins og allt annað gerðist það bara einn morguninn og eftir það var ekki aftur snúið. Ma-ma-ma segir hún með átakanlegum tóni þegar hún grætur eða biður um eitthvað. Stundum rennur þetta saman við a-ma-ma (nokkuð sem amma hennar benti réttilega á) eða jafnvel va-va-va. Fyrsta morguninn lék Signý sér með þessi nýju hljóð, bæði kvartandi og hjalandi, en síðan þá hefur hún beitt nýja vopninu einkum þegar hana vanhagar sárlega um eitthvað. Þess á milli leyfir hún sér að hjala "orðalaust".
Upplifun: Stór fljúgandi augu
Ég minntist á fuglalíf fyrir austan í síðustu færslu. Í kringum bústaðinn var margt um mófuglinn og má þar helst upp telja góðkunningja eins og spóa, heiðlóu, stelk, þúfutittling og hrossagauk. Það kom hins vegar á óvart að sjá eins mikið af jaðrakan eins og raun bar vitni. Í næsta nágrenni við bústaðinn voru nokkur pör jaðrakana með hreiður og mátti sjá þá fjóra saman flæma máva burt af svæðinu (ekki bjóst ég við þeim svona herskáum, eins penpíulegir og veimiltítulegir og þeir eru í sjón). Einnig kom á óvart að sjá kjóa í nokkur skipti. Þeir eru ekki svo algeng sjón.
Magnaðast var þó að sjá brandugluna. Ég var þá á leið austur á ný eftir að hafa skotist til Reykjavíkur (til að vera viðstaddur brúðkaup bróðurdóttur minnar á laugardaginn var). Var staddur miðja vegu milli Hveragerðis og Selfoss þegar ég sá útundan mér fugl nálgast bílinn. Ég get enn státað af því að hafa aldrei ekið á fugl og ætla mér eindregið að halda því til streitu. Ég dró því úr hraðanum (enginn á eftir mér) þannig að fuglinn hefði meira ráðrúm til að sveigja hjá bílnum. Þá sá ég að þetta var óvenju stór fugl, sver um sig, og þegar hann var kominn örfáa metra frá bílnum leit hann til hliðar þannig að ég sá blasa við stórt andlitið, einn stór skermur, eins og starandi augu. Ég rak upp stór augu á móti áður en uglan lyfti sér upp yfir bílinn og sást ekki meir. Mér leið hins vegar lengi á eftir eins og ég hefð séð geimskip.
Magnaðast var þó að sjá brandugluna. Ég var þá á leið austur á ný eftir að hafa skotist til Reykjavíkur (til að vera viðstaddur brúðkaup bróðurdóttur minnar á laugardaginn var). Var staddur miðja vegu milli Hveragerðis og Selfoss þegar ég sá útundan mér fugl nálgast bílinn. Ég get enn státað af því að hafa aldrei ekið á fugl og ætla mér eindregið að halda því til streitu. Ég dró því úr hraðanum (enginn á eftir mér) þannig að fuglinn hefði meira ráðrúm til að sveigja hjá bílnum. Þá sá ég að þetta var óvenju stór fugl, sver um sig, og þegar hann var kominn örfáa metra frá bílnum leit hann til hliðar þannig að ég sá blasa við stórt andlitið, einn stór skermur, eins og starandi augu. Ég rak upp stór augu á móti áður en uglan lyfti sér upp yfir bílinn og sást ekki meir. Mér leið hins vegar lengi á eftir eins og ég hefð séð geimskip.
laugardagur, júlí 15, 2006
Ferðalag: Vikudvöl í bústað
Jæja, þá er maður aftur kominn heim úr vikudvöl í sumarbústað í Grímsnesinu. Ég vildi ekki tilkynna það hér á síðunni fyrirfram ef ske kynni að einhver vafasamur einstaklingur væri að fylgjast með (bloggsíður eru kjörnar fréttasíður fyrir þjófa og aðra misyndismenn). Við Vigdís og Signý létum fara vel um okkur ásamt Sirrýju (móður Vigdísar). Til okkar kom fjöldi gesta og dreifðust heimsóknirnar nokkuð jafnt á vikuna. Veðrið var sæmilegt. Stundum bjart en yfirleitt skýjað.
Bústaðurinn sem við leigðum er alveg sér á parti. Þetta er glænýr bústaður sjúkraliðafélagsins og virkar á mann eins og nútímalegt heimili án þess þó að tapa bústaðasjarmanum. Hann er skipulagður þannig að stofan er alveg aðgreind frá svefnherbergjunum með holi og hurð á milli. Á svefnherbergjum eru þar að auki þéttar eldvarnarhurðir þannig að enginn skarkali berst yfir til þeirra sem sofa ef einhver vill vaka frameftir við að spila eða horfa á sjónvarp. Holið er að auki flísalagt þannig að það marrar ekki hrikalega í gólfinu að næturlagi. Hver kannast ekki við að vakna í sífellu við það að einhver annar sé að læðast á klósettið? Verst er þegar maður sjálfur er í spreng og tímir ekki að rjúfa næturkyrrðina með braki og brestum og heldur þar af leiðandi allt of lengi í sér. Nei, nei, hér var það sko ekki vandamál. Það heyrðist ekki múkk í flísunum. Þar að auki eru þær lagðar yfir hitalagnir þannig að holið sjálft er notalegur blettur um miðja nótt. Þar sem bústaðurinn státar af öflugum nuddpotti þjónar gólfhitinn einnig þeim tilgangi að þurrka upp blautu slóðina eftir okkur úr pottinum og inn á bað. Szchilllld!
Já, og ekki má gleyma græjunum: Uppþvottavél af bestu gerð og sjónvarp af nýjustu kynslóð flatra skjáa. Það vakti óneitanlega athygli allra gesta, enda unun að horfa á myndina í honum. Þar sáum við Zidane skalla Materazzi eftirminnilega og fylgdumst einnig með framgöngu Magna í Superstar þættinum. Að öðru leyti var hann hins vegar að mestu leyti bara fallegt stofustáss. Í bústaðaferðum er það aðallega tónlist eða þögnin sem ræður ríkjum, með fuglasöng inni á milli.
Bústaðurinn sem við leigðum er alveg sér á parti. Þetta er glænýr bústaður sjúkraliðafélagsins og virkar á mann eins og nútímalegt heimili án þess þó að tapa bústaðasjarmanum. Hann er skipulagður þannig að stofan er alveg aðgreind frá svefnherbergjunum með holi og hurð á milli. Á svefnherbergjum eru þar að auki þéttar eldvarnarhurðir þannig að enginn skarkali berst yfir til þeirra sem sofa ef einhver vill vaka frameftir við að spila eða horfa á sjónvarp. Holið er að auki flísalagt þannig að það marrar ekki hrikalega í gólfinu að næturlagi. Hver kannast ekki við að vakna í sífellu við það að einhver annar sé að læðast á klósettið? Verst er þegar maður sjálfur er í spreng og tímir ekki að rjúfa næturkyrrðina með braki og brestum og heldur þar af leiðandi allt of lengi í sér. Nei, nei, hér var það sko ekki vandamál. Það heyrðist ekki múkk í flísunum. Þar að auki eru þær lagðar yfir hitalagnir þannig að holið sjálft er notalegur blettur um miðja nótt. Þar sem bústaðurinn státar af öflugum nuddpotti þjónar gólfhitinn einnig þeim tilgangi að þurrka upp blautu slóðina eftir okkur úr pottinum og inn á bað. Szchilllld!
Já, og ekki má gleyma græjunum: Uppþvottavél af bestu gerð og sjónvarp af nýjustu kynslóð flatra skjáa. Það vakti óneitanlega athygli allra gesta, enda unun að horfa á myndina í honum. Þar sáum við Zidane skalla Materazzi eftirminnilega og fylgdumst einnig með framgöngu Magna í Superstar þættinum. Að öðru leyti var hann hins vegar að mestu leyti bara fallegt stofustáss. Í bústaðaferðum er það aðallega tónlist eða þögnin sem ræður ríkjum, með fuglasöng inni á milli.
fimmtudagur, júlí 06, 2006
Pæling: HM-spangól í Kringlunni
Geggjuð undanúrslit HM eru að baki. Ítalir sóttu nánast án afláts allan leikinn gegn frískum Þjóðverjum og héldu síðan áfram af krafti í framlengingunni og með hreinni snilld uppskáru þeir að lokum tvö mörk á 119 og 120 mínútu. Það hlýtur að fylgja þeim mikill meðbyr í úrslitin eftir þennan sögulega sigur. Ég var staddur í Kringlunni og þar var spangólað í tvígang í bergmálandi salarkynnum seint um kvöld. Ótrúlegur sigur. Ítalir mæta Frökkum í úrslitunum sem naumlega komust í gegnum Portúgali. Það sem í raun greindi á milli Portúgala og Frakka var öll sú orka sem Portúgal sóaði í leikaraskap, skipulagsleysi og væl. Ítalirnir eru markvissari en Portúgalir (nú er ég að tala gegn fyrri samvisku minni) og Frakkar þurfa í raun annan "Brasilíuleik" til að koma höndum yfir HM-styttuna á ný eftir ótrúlega framöngu Ítala. Miðað við hvað Frakkarnir hafa vaxið frá fyrstu leikjum gæti það allt eins gerst. Ef þeir ætla hins vegar að leika eins og gegn Portúgölum (stóla á vörnina, trausta miðju og heppni í framlínunni) þá veðja ég á Ítali.
þriðjudagur, júlí 04, 2006
Upplifun: Melabúðin 50 ára
Í dag hélt Melabúðin upp á 50 ára afmæli og þangað fórum við Vigdís í stutta heimsókn ásamt Signýju. Í sjálfri versluninni var boðið upp á nettan afslátt af völdum vörum auk konfektmola við búðarkassana. Utandyra, í votviðrinu, var hins vegar haldið upp á hina eiginlegu veislu í myndarlegu tjaldi á lóðinni við hliðina. Þar var boðið upp á nammi, íspinna og grillaðar pulsur ásamt sneið af myndarlegri afmælisköku. Eitthvað fyrir alla. Það sem var hins vegar ánægjulegast var að geta hneigt sig fyrir verslun með sjálfsvirðingu. Þær eru sannarlega ekki á hverju götuhorni.
sunnudagur, júlí 02, 2006
Upplifun: Zidane
Það fer mikill tími í fótboltann þessa dagana á milli venjulegra heimilisverka. Yfirleitt hef ég farið einn míns liðs á einhverja krána og reynt fyrir vikið að velja og hafna til skiptis svo að áhuginn bitni ekki of mikið á heimilisbragnum. Vigdís hefur hins vegar rennt hýru auga til keppninnar því hún hefur gaman af stemningunni í kringum hana. Það vildi svo til að seinni dag fjórðungsúrslitanna fengum við pössun þannig að við gátum notið dagsins saman - og það nýttum við til hins ítrasta. Sáum Portúgal og England á Rauða ljóninu (afar sóðalegur staður) og fluttum okkur um set fyrir betri leikinn - Frakkland : Brasilíu.
Leikinn sáum við á Glaumbar. Þar er aðstaðan algjörlega til fyrirmyndar og staðurinn skemmtilega samansettur af Íslendingum og ferðamönnum. Það vildi svo skemmtilega til að við sátum mitt á milli Frakka og Brasilíumanns. Brasilíumaðurinn reyndi að hafa gaman af leiknum en var satt að segja hálf vandræðalegur yfir frammistöðu sinna manna og viðurkenndi fúslega að Frakkar væru miklu betri aðilinn, og satt að segja væru þeir að spila nánast óaðfinnanlega. Ég horfði sjálfur dolfallinn á leikinn þróast frá því að finnast Brasilíumenn frískir í blábyrjun þar til Frakkar náðu tökum á leiknum og höfðu allt í hendi sér. Fréttastofan ITV velti frammistöðu Zidane sérstaklega fyrir sér í hléinu og sýndi nærmyndir af honum með boltakúnstir allt í kringum Brassana án þess að blikka auga á meðan þeir gulklæddu hlupu kringum hann eins og smástrákar. Þegar leið á seinni hálfleikinn fann ég fyrir fiðringi sem ég hef ekki fundið yfir fótboltaleik í háa herrans og beinlínis skalf af virðingu fyrir Zidane í hvert sinn sem hann tók við boltanum. Þarna var ekki á ferðinni konungur heldur Zen-meistari, eins yfirvegaður og búddamunkur, klókur eins og refur og klárari en Ronaldinho.
Frakkinn við hliðina á mér veðraðist allur upp við frammistöðu sinna manna og fór með þjóðrembingsklisjur hvað eftir annað: "Svona eru Frakkar!", - hálftaugaveikluðum rómi, - " Svona erum við!". Ég var fljótur að leiðrétta þessi orð því ég sá enga tengingu á milli Zidane og hins venjulega Frakka, hvað þá drekkandi og reykjandi bargests. Frammistaða af þessu tagi er þar að auki hafin yfir þjóðamörk. Hrifningin og innblásturinn nær til allra jafnt. Ég hallaði mér snarlega að Frakkanum með því að segja góðlátlega en hægt og ákveðið: "Svona er Zidane".
Leikinn sáum við á Glaumbar. Þar er aðstaðan algjörlega til fyrirmyndar og staðurinn skemmtilega samansettur af Íslendingum og ferðamönnum. Það vildi svo skemmtilega til að við sátum mitt á milli Frakka og Brasilíumanns. Brasilíumaðurinn reyndi að hafa gaman af leiknum en var satt að segja hálf vandræðalegur yfir frammistöðu sinna manna og viðurkenndi fúslega að Frakkar væru miklu betri aðilinn, og satt að segja væru þeir að spila nánast óaðfinnanlega. Ég horfði sjálfur dolfallinn á leikinn þróast frá því að finnast Brasilíumenn frískir í blábyrjun þar til Frakkar náðu tökum á leiknum og höfðu allt í hendi sér. Fréttastofan ITV velti frammistöðu Zidane sérstaklega fyrir sér í hléinu og sýndi nærmyndir af honum með boltakúnstir allt í kringum Brassana án þess að blikka auga á meðan þeir gulklæddu hlupu kringum hann eins og smástrákar. Þegar leið á seinni hálfleikinn fann ég fyrir fiðringi sem ég hef ekki fundið yfir fótboltaleik í háa herrans og beinlínis skalf af virðingu fyrir Zidane í hvert sinn sem hann tók við boltanum. Þarna var ekki á ferðinni konungur heldur Zen-meistari, eins yfirvegaður og búddamunkur, klókur eins og refur og klárari en Ronaldinho.
Frakkinn við hliðina á mér veðraðist allur upp við frammistöðu sinna manna og fór með þjóðrembingsklisjur hvað eftir annað: "Svona eru Frakkar!", - hálftaugaveikluðum rómi, - " Svona erum við!". Ég var fljótur að leiðrétta þessi orð því ég sá enga tengingu á milli Zidane og hins venjulega Frakka, hvað þá drekkandi og reykjandi bargests. Frammistaða af þessu tagi er þar að auki hafin yfir þjóðamörk. Hrifningin og innblásturinn nær til allra jafnt. Ég hallaði mér snarlega að Frakkanum með því að segja góðlátlega en hægt og ákveðið: "Svona er Zidane".
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)