fimmtudagur, mars 01, 2007

Upplifun: Fæðingarorlofsumsóknarferli (27 stafir)

Þetta er ótrúlegt vesen! Við Vigdís þurfum að senda inn fæðingarorlofsumsókn þessa dagana og ég get svarið það að þetta er langtum flóknara en skattframtal nokkurn tímann. Jæja, ég hef nú aldrei verið mikil eignamaður gegnum tíðina þannig að þetta er ekki fyllilega sambærilegt en engu að síður skýtur það verulega skökku við að á meðan skattframtalið nýtir sér tölvutæknina til hins ýtrasta og verður sjálfvirkara með hverju árinu þá eru umsóknir um fæðingarorlofspeninga eins og aftan úr fornöld. Í fyrsta lagi þá er allt gert á pappír. Það er reyndar hægt að nálgast umsóknareyðublöð á netinu en það breytir því ekki að það þarf að kvitta fyrir og svoleiðis. Það kallar á pappír. Síðan þarf að senda gögnin. Nú er sjóðurinn ekki lengur til húsa við Hlemm (hjá Tryggingastofnun) heldur þarf maður að senda þau með gamaldags póstflutningum til Hvammstanga. Þessi tilfæring er alveg glæný. Siðast löbbuðum við bara á "Hlemm" og fengum þar ráð, afgreiddum málin hjá starfsmönnum, leyfðum þeim að renna augum yfir pappírana og fengum athugasemdir ef svo bar undir - og skiluðum svo inn með handabandi. Fínt að sniðganga tölvutæknina ef raunveruleg samskipti bæta það upp. Núna er maður bara í lausu lofti (ekki stoðar að rifja upp hvað maður gerði í fyrra því pappírsvesenið var í eðli sínu langt frá því að vera minnisstætt). Til að bæta gráu ofan á svart þá er starfsemi sjóðsins svo nýflutt norður að þau á Hvammstanga vita enn ekki almennilega hvernig á að aðstoða mann með útfyllinguna. Þau vísa manni bara á netið. Sú síða er til staðar en hún er takmörkuð og að auki meingölluð. Hún skilar til að mynda engu þegar maður ætlar sér að prenta út eyðublöðin (við fengum það gegnum aðra síðu).

Nú mætti spyrja sig hvort þetta sé nokkurt mál þrátt fyrir þetta? Þetta hlýtur að segja sig allt sjálft ef maður beitir skynseminni, ekki satt? Svarið er einfaldlega nei, það er búð að útrýma skynseminni í öllu þessu ferli. Sjáið til: Skila þarf svokallaðri "Tilkynningu" um fæðingarorlof til vinnuveitanda. Maður er jú að segja upp um stundarsakir og yfirmaður manns þarf ráðrúm til að fylla skarðið á meðan (þetta þarf að gerast með minnst átta vikna fyrirvara). Yfirmaður fer yfir þetta með manni og kvittar fyrir. Þetta gera báðir foreldrar í sitt hvoru lagi. Þetta er, merkilegt nokk, gert í tvígang á tvö nauðalík eyðublöð - annað þeirra fer á launaskrifstofu vinnustaðarins (mögulega gegnum yfirmann) en hitt fer í Fæðingarorlofssjóð. Sem sagt fjögur blöð. Síðan þurfa foreldrar að fylla út sameiginlegan þríblöðung sem er hin eiginlega "umsókn" um fæðingarorlof sem sendist til Sjóðsins (fyrir norðan). Þar koma fram nánast sömu upplýsingar og á "tilkynningunni" en það sem kom verulega aftan að mér var að yfirmaður manns þarf að kvitta undir þetta líka. (Ég spyr sjálfan mig: Til hvers var "tilkynningin" eiginlega ef "umsóknin" fer líka gegnum yfirmanninn? Dugar hún þá ekki sem tilkynning ein og sér ef hann þaf að samþykkja hana líka? Þetta veldur sem sagt þvi að ég þarf að mæta aftur á skrifstofu skólastjóra með eyðublað til kvittunar). Við þetta bætist að bæði þurfum við að skila inn tveimur síðustu launamiðum (eða afrit af þeim) ásamt vottorði læknis um að Vigdís sé raunverulega ólétt - ásamt vottaðri "settri" dagsetningu. Þannig að ... já, þetta er ansi mikið púsl. Hvergi á einum stað er ferlinu lýst almennilega þannig að maður þarf að reka sig á, pirra sig á sífelldum tvíverknaði og þríverknaði, og bera gögn á milli húsa. Að lokum þarf að senda gögnin með gamla póstkerfinu. Er þetta hægt?

Það liggur við að ég hlakki núna til að afgreiða skattframtalið því það er svo lipurt og löðurmannlegt í samanburði.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flutningur ríkisstofnanna út á land! LOL! :(

Unknown sagði...

Við þurftum einmitt að hafa samband við fæðingarorlofssjóð um daginn vegna fyrirkomulagsins hérna í Svíþjóð.

Það var ekki nokkur leið að ná inn á símatíma og í þau tvö skipti sem einhver svaraði var næstum samstundis skellt á okkur því "það væri ekki símatími núna".

Enduðum á því að bera upp erindið í tölvupósti og fengum vottorðið sem okkur vantaði í pósti skömmu síðar. Það reyndist svo hroðvirknislega unnið að ég hef aldrei séð annað eins! Starfsmaðurinn hefur sennilega skrifað textann blindandi og ekki lesið hann yfir, svo uppfullur af innsláttarvillum var hann. Glatað mál sumsé.

Gangi ykkur annars vel í samskiptum ykkar við sjóðinn og góða skemmtun með skattinn :-)