þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Upplifun: Ömurleg biðstofa

Biðin á slysavarðsstofunni situr eftir í manni. Hún var svo viðbjóðslega löng og leiðinleg! Við komum um tvöleytið. Ég skutlaði Vigdísi og ákvað að kíkja upp í vinnu á meðan (hafði bara skotist frá í hádeginu). Kom aftur um þrjúleytið. Þá var hún enn að bíða. Við biðum saman í um hálftíma og þá datt henni það snjallræði í hug að ég nýtti tímann betur og keypti inn á meðan í næstu Bónusverslun. Sem ég gerði. Kom aftur um fjögurleytið og þá var hún þar enn að bíða. Ég settist og beið með henni. Dottaði. Las gömul tímarit. Dottaði aftur. Sat eitthvað óþægilega og gekk um. Engar veitingar voru í boði neins staðar nema ömurlegir og rándýrir nammisjálfsalar. Settist aftur. Tímaritin voru úr sér gengin og helmingurinn af þeim voru gatslitin dönsk saumablöð í bland við eitthvert málgagn fatlaðra, sama tölublaðið í tíu eintökum. Fann hvernig mig verkjaði undan því að sitja svona lengi á grjótharðan píningarbekkinn (köld málmplata með baki). Lét mig þó hafa það. Klukkan var orðin tæplega sex þegar kom að Vigdísi. Loksins! Við vorum orðin sljó af þreytu, leiðindum, hreyfingarleysi, súrefnisleysi og næringarskorti. Ég beið hins vegar áfram á meðan höndin fékk viðeigandi meðferð. Á slaginu hálf sjö kom hún út með myndarlegar gifsumbúðir og við forðuðum okkur í snarhasti, hringdum heim (þar sem Sirrý "amma" var að passa) og keyptum okkur eitthvað að borða í skyndingu.

Heilbrigðiskerfið er ömurlegt. Ég hef heyrt um það hjá öðrum sem nýlega hafa þurft að bíða þarna að biðin sé að lágmarki þrír tímar. Þetta er regla frekar en undantekning. Ef maður ímyndar sér tímann sem fer í súginn hjá öllum þeim sem bíða þá hlýtur að reiknast út sem þjóðþrifaverk að víkka þennan flöskuháls örlítið og tvöfalda deildina. Það var nú ekki eins og þyrfti að undirbúa skurðstofu eða eitthvað þaðan af flóknara. Að minnsta kosti væri hægt að gera biðstofun pínulítið þægilegri og bjóða upp á kaffi, djús eða léttar veitingar í anda Blóðbankans og lesefni við hæfi. Ef ég lendi í því aftur að þurfa að bíða tímunum saman á þessari biðstofu þá tek ég með mér svefnpoka og dýnu. Ég segi bara: Gangi þeim vel að vísa mér út. Fínt að kalla til eins og eina fréttastofu og mata þá að tímabæru umfjöllunarefni.

Fréttnæmt: Lítið beinbrot

Þetta er nú meira ástandið! Vigdís fór upp á slysó í gær og fékk gifs utan um hægri upphandlegginn. Hún datt nefnilega um daginn og bar fyrir sig höndina með þeim afleiðingum að hana verkjaði dögum saman. Samt gat hún alveg hreyft höndina og bólga var óveruleg, þannig að við höfðum engar áhyggjur af þessu fyrst í stað. En þetta batnaði ekki með tímanum svo við kíktum til heimilislæknisins, reyndar í öðrum erindagjörðum, og bárum í framhjáhlaupi upp þessi eymsli. Hann sagði þá, eftir að hafa skoðað málið vandlega, að líklega væri lítið bein undir þumlinum, svokallað bátsbein, brotið eða brákað. Það kallar á gifs í nokkrar vikur, allt að átta vikum.

Nú er staðan því sú að ég þarf að gæta þess að hagræða ýmsu á heimilinu áður en ég fer að vinna til að Vigdís geti sinnt Signýju án þess að þurfa að beita veiku höndinni.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Upplifun: Ferðalag austur að Kárahnjúkum

Ég fór í mjög eftirminnilegt ferðalag austur á Kárahnjúkasvæðið um síðustu helgi. Ég fór þangað akandi ásamt Jóni Má og fórum við af stað um kvöldmatarleytið á fimmtudaginn. Við gistum í góðu yfirlæti hjá tengdaforeldrum hans á leiðinni, nokkra kílómetra suður af Kirkjubæjarklaustri. Allt um kring voru gríðarlega fallegar sveitir, endalausar breiður af gervigígum, sem vert er að kanna síðar.

--------

Á öðrum degi ókum við sem leið lá austur á Egilsstaði og vorum komnir þangað um fjögurleytið, með tæknilegu súpustoppi í hádeginu á Höfn í Hornafirði. Á leiðinni heilluðu Lónsöræfin litrík og verða virkilega hafðar á bak við eyrað fyrir næstu óbyggðaferð. Fjallvegurinn um Öxi, sem styttir leiðina að Egilsstöðum um rúma 60 kílómetra, var einnig mjög spennandi yfirferðar. Því má bæta við að heiðríkja var alla leiðina, og reyndar alla helgina, og tóku Egilsstaðir því við okkur í sannkallaðri sunnudagsstemningu, þar sem menn sleikju rjómaís hver í kapp við annan. Helsta táknið um uppsveifuna fyrir austan, sem við urðum varir við, var Egilsstaðaútgáfa af Hamborgarabúllu Tómasar, sem jafnframt virtist vera eins konar pöbb. Að öðru leyti var ég hissa á því hvað bærinn var lítill og ræfilslegur, þ.e.a.s. stuttur bæjarmarkanna á milli. Við ókum í gegn á innan við mínútu og þurftum að keyra til baka til að ná að drepa niður fæti í bænum.

Um kvöldmatarleytið vorum við komnir upp að virkjun. Þangað er malbikað alla leið. Þetta er bara eins og að keyra yfir Hellisheiðina, leið sem áður var ófær flestum bílum. Ég man eftir að hafa skrölt þetta þegar við Vigís fórum í niðdimmri þoku á leið heim frá Færeyjum, fyrir um þremur árum. Núna var allt opið, vegurinn breiður og veðrið eins og best verður á kosið. Eina markmiðið okkar Jóns þennan daginn var að koma okkur fyrir. Það var hins vegar eins og gestaþraut. Skiltin eru að sumu leyti misvísandi og villandi. Um tíma vorum við á leiðinni í átt að Möðrudal, en áttuðum okkur áður en út í óefni var komið, fundum þá næsta afleggjara í átt til Laugavalladals. Það reyndist fjallabaksleið mikil og torfær. Leiðin var svo undin þá 12 kílómetra sem við ókum að okkur fannst við hafa farið eina 30-40 kílómetra, akandi í rúman klukkutíma. Hrikalegt stórgrýti út um allt og hæðir upp og niður þannig að vart var farandi nema fetið, á fjórhjóladrifnum jeppa. Aftur héldum við að við værum á leið út í einhverjar ógöngur og þurftum að gaumgæfa kortið reglulega til að trúa því að værum enn staddir á svæðinu. Síðan kom myndarleg beygja yfir hæð og við blasti Laugavalladalur. Græn tún, kamar og heitur lækur sem bunar niður þriggja metra fall og myndar prýðilega sturtu fyrir lúna ferðalanga. Draumatjalstæði. Þarna var gott að dvelja yfir nótt, enda ákváðum við að hafa þarna bækistöð fyrir næstu nótt líka. Það sem var ekki síður mikilvægt var að handan við dalinn gat að líta greiðfæran malarveg upp á kambinn, vegur sem var ekki á kortinu, og tengdi okkur á tuttugu mínútum við stíflustæðið hinum megin og náttúruna þar fyrir handan.

--------

Á þriðja degi vaknaði maður lemstraður, að vanda, eftir mishæðóttan svefn, en heit lækjarbunan lagaði "morgunsárið" snarlega, enda fellur hún með sannkölluðum nuddkrafti. Fyrsta verkefni dagsins var að keyra suður með Jöklu og virða fyrir okkur Töfrafoss. Sá slóði sem við fylgdum var eiginlega ekkert skárri en fjallabaksleiðin að tjaldstæðinu, en í þetta skiptið vorum við orðnir öllu vanir. Fossinn var fyrirhafnarinnar virði, virðulegur og breiður. Þetta er gruggugur jökulárfoss í anda Dettifoss, bara aðeins nettari og snyrtilegri. Allt umhverfið var vel gróið og lækjarsprænur með rauðleitum útfellingum seytluðu úr gilbarminum hér og þar. Við lögðum bílnum á stæðinu við fossinn og gengum niður eftir gilinu (eða gljúfrinu öllu heldur) og sáum ýmsar gerðir af flúðum og skorningum. Kringilsáin, eins og hún heitir, er gjörsamlega óyfirstíganleg og rennur nokkru neðar saman við Jöklu, sem er enn stærri og meiri um sig. Saman renna þær í átt að Kárahnjúkum þar sem rennsli þeirra verður hamið nú í vetur. Þar sem árnar mætast er ævintýralegur kláfur sem hægt er að nota til að ferja sig yfir á landskikann á milli ánna, umræddan Kringilsárrana. Raninn er burðarsvæði hreindýra og einnig helsta varplendi heiðagæsa. Grónustu svæði hans munu fara á kaf þegar stíflan kemst í gagnið og því óvíst hvort hann muni yfir höfuð nýtast lengur sem afdrep þessara táknrænu útvarða íslensks dýralífs norðan Vatnajökuls. Töfrafoss mun líka hverfa og við Jón fylgdum ráðleggum mætra manna um að skoða hann aftur, hinum megin frá, þar sem hann blasir betur við. Fórum svo sömu leið til baka eftir grasi vaxinni "eyðimörk" í átt að bílnum.

Á leiðinni upp á tjaldstæði vorum við orðnir þægilega dasaðir en ákváðum að nýta frábært veðrið og kíkja á gljúfrin hlémegin við stífluna. Þau koma ekki til með að raskast að ráði en þorna þó upp að mestu og verða jafnvel göngufær hugdjörfum mönnum (með hjálma). Gljúfrin eru það þverhnípt og djúp að þau hafa lengstum gengið undir nafninu "Dimmugljúfur" en heita líka "Hafrahvammagljúfur". Þetta er staðurinn sem Ómar Ragnarsson smaug í gegnum á flugvélinni sinni og undirstrikaði þar með smæð vélarinnar mikilfengleika staðarins. Við Jón tókum helling af myndum, bæði af gljúfrunum og af kynjamyndum í klettaveggnum. Einnig vakti athygli mína jarðlög sem halla örlítið og hverfa á bak við árfarveginn. Þau valda skemmtilegri sjónhverfingu þannig að manni finnst að vatnið renni upp á við ef maður miðar við villandi jarðlagalínuna sem hækkar á móti straumstefnunni.

Kvöldið á tjalstæðinu var nýtt annars staðar, eftir fátæklegan pastarétt. Við fórum upp í vinnuþorp og áttum líflegt kaffistofuspjall við vinkonu Margrétar (hans Jóns) sem vinnur á svæðinu við jarðlagarannsóknir. Reyndar var þetta ekki fyrsta heimsókn okkar í þorpið. Um morguninn fengum við að taka bensín, undir eftirliti hjálplegs starfsmanns, og kíktum einnig á kaffihús svæðisins á milli þess sem við sáum Töfrafoss og kíktum á Dimmugljúfur. Það var virkilega gaman að upplifa stemninguna í búðunum og finna hvernig afþreyingu, veitingum og allri annarri aðstöðu verkamanna er háttað. Ég velti því mikið fyrir mér hvort þetta væri ekki afbragðs verkefni fyrir mannfræðing að planta sér þarna niður og vinna upp úr viðtölum einhvers konar etnografíska greiningu á stéttaskiptum samskiptum manna í þessu knappa og sérkennilega fjölþjóðasamfélagi.

--------

Á fjórða degi vaknaði maður aftur lemstraður og nýtti sér að sjálfsögðu fyrri reynslu og henti sér undir heitu bununa. Þann daginn var stefnan tekin heim til Reykjavíkur eftir hádegið. Fyrst ætluðum við okkur þó að skoða okkur aðeins meira um, fram til hádegis eða þar um bil. Rauðuflúðir var þar efst á lista. Sá staður er svo litríkur að ljósmyndir þaðan voru gagnrýndar af virkjunarsinnum sem "fótósjoppað" áróðursbragð þegar Ragnar Axels og fleiri birtu þær á sýningu fyrir nokkrum árum. Leiðin þangað var að hálfu leyti sú sama og í átt að Töfrafossi. Reyndar tókst okkur að villast og við fórum nánast aftur að fossinum, úr annarri átt, og þurftum að snúa við. Á þeirri leið áttuðum við okkur hins vegar á því hvað undirlendið, sem allt mun fara undir kaf, er vel gróið. Engin "eyðimörk", sem svo oft hefur verið haldið fram til réttlætingar á áldraumnum. Þetta er gróið berjaland frá árbökkum og lengst upp á heiði. En leið okkar lá sem sagt í átt að Tröllagili sem var furðu nálægt stíflustæðinu - ekki nema um korters akstur, ef maður fylgir réttum afleggjara. Vegurinn endar á útsýnishæð þaðan sem maður þarf að ganga nokkurn spöl, líklega um hálftíma, áður en gilið opnast með sérkennilegum fossi. Hann er hálfgerðar flúðir, en samt foss, þar sem hann rennur eins og rennibraut eftir um það bil sextíu gráðu halla eftir sléttu bergi og fær mann til þess að langa að baða sig, liggjandi á sléttum bergveggnum, eða lónandi um í hylnum undir. Gilið var svo hrífandi að Jón fékk sig ekki til að ganga lengra og vildi njóta þess að liggja í makindum á gilbarminum, enda prýðilegt útsýni til allra átta. Ég freistaðist hins vegar til þess að fylgja gilinu niður eftir þar til lækurinn seytlaði niður í Jöklu. Það var eins og að stíga inn í ævintýraland. Gljúfur Jöklu var mjög opið og bjart en með um fimm metra þvernhnípi ofan í mjög þröngar og kraftmikla iðu. Stuðlaberg og sendnir árbakkar voru hér og þar ásamt Rauðuflúðum, þar sem bergið er rauðleitt og glampar gegnum tært regnvatnið sem seytlar gegnum bergið af hæðunum allt í kring. Þetta var mikilfenglegt sjónarspil og í rauninni í fyrsta skipti sem ég fékk kökk í hálsinn yfir tilhugsuninni um að glata þessu undir aurugan lónsbotn. Ég lokað augunum og naut kraftsins um stund áður en ég hélt aftur af stað í átt að bílnum. Það var langur akstur framundan.

Við stöldruðum við hér og þar á leiðinni. Stoppuðum fyrst í Skriðuklaustri og þáðum þar hlaðborð. Við mælum eindregið með því við alla, enda staðurinn ein af menningargersemum þjóðarinnar, en í okkar tilfelli var það hrein nauðsyn að nærast vel áður en við héldum lengra. Þegar við vorum búnir að borða um það bil nægju okkar vorum við spurðir hvort við vildum ekki ábyggilega súpu líka? Það var verið að bera fram "næsta" hlaðborð og ég þáði fiskisúpu í eftirrétt, til að kóróna veislustundina. Veðrið var skaplegt alla leið heim og nutum við þess að hlusta á tónlist úr ipod-græjunni, sem tengd var við kassettutækið með þar til gerðri "snúruspólu" (Simple Minds, PJ Harvey, Patti Smith, Jethro Tull). Vegirnir nánast auðuir. Íslendingar virðast nefnilega hætta tiltölulega snögglega að ferðast strax eftir hverja verslunarmannahelgi og skiptir engu þó besta veður sumarsins geri vart við sig eftir þann tíma, eins og núna. Það var því eiginlega lyginni líkast að aka fram hjá sveitum landsins í svona góðu veðri sem spókuðu sig sællega og sýndu allar sínar bestu hliðar á meðan við vorum með veginn nánast út af fyrir okkur.

Fyrir utan bensínstopp hér og þar (Höfn og Selfoss) þá stöldruðum við sjaldan við. Gerðum þó ómótstæðilegt túristastopp á Bond-lóni, eins og það kallast í dag. Veðrið var bara þannig. Í fyrsta skipti sá ég að lónið er krökkt af selum sem leita sér að æti við mynni lónsins þar sem ólíkir straumar mætast. Fyrir ofan var gargandi krían sem steypti sér án afláts eftir smásíli. Í kringum kríuna sveimuðu nokkrir kjóar og skúmar, sem freistuðu þess að ná ætinu af kríunni. Reyndar skildist mér á Jóni að hann hafi sér skúm á sama stað í fyrra góma ein kríuna og fljúga með hana burt. Náttúran er miskunnarlaus.

Síðasta stopp ferðarinnar var á sama stað og þrem dögum fyrr, hjá tengdaforeldrum Jóns, suður af Kirkjubækjarklaustri, þar sem við borðuðum drjúgan kvöldmat og sögðum ferðasögur. Þar var, merkilegt nokk, fiskisúpa í matinn. Reyndar var hún af öðrum toga og rausnarlegri en sú sem ég borðaði í hádeginu, sneisafull af humri, enda stutt í Hornafjörðinn. Við fórum því af stað ákaflega vel mettir og afslappaðir fyrir síðasta hlutann. Klukkan var orðin hálf tíu og komið myrkur. Það var því bráðnauðsynlegt að vera í góðu jafnvægi síðasta spölinn. Dalalæðan dansaði í myrkrinu á meðan við hlustuðum á Joy Division. Það var vel við hæfi sem endapunktur á eftirminnilegri ferð.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Netið: Of löng bloggþögn

Vegna ýmiss konar anna og tæknilegra vandkvæða hef ég ekkert fært inn í bloggsíðuna dögum saman. Ég var meðal annars víðs fjarri tölvunni í fjóra daga um síðustu helgi, flakkandi um Kárahnjúka með Jóni Má (frá þeirri ferð segi ég betur í næstu færslu). Ferðin krafðist nokkurs undirbúnings og svo var ég ekki sérlega ginkeyptur fyrir því að kveikja á tölvunni yfir höfuð dagana fyrst eftir heimkomu. Að minnsta kosti ekki heima á kvöldin, enda vinnan komin á fullt á daginn. Við þetta bættist að tölvuaðstaðan sem ég get að jafnaði gengið að í skólanum brást mér. Það var búið að setja einhvers konar barnalás á allar bloggsíður í sumar. Þetta bitnaði auðvitað fyrst og fremst á mér þannig að ég sótti undir eins um undanþágu frá vefsíðulásnum hjá Menntasviði. Það tók hins vegar svolítinn tíma að ganga í gegn. Núna á allt hins vegar að vera komið á rétta kjöl aftur fyrir hefðbundið bloggflæði.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Daglegt líf: Vetrarstarf að hefjast

Nú er vetrarrútínan hafin á ný. Fyrsti vinnudagur var í gær og þessa vikuna erum við fyrst og fremst að ná áttum og undirbúa okkur. Fyrsti kennsludagur verður í næstu viku. Í byrjun október fer ég aftur í frí því ég á ennþá tvo og hálfan mánuð eftir af barneignarfríinu. Þá fer Vigdís hins vegar aftur að vinna.

Sumarið er búið að vera fljótt að líða. Við Vigdís fórum til Danmerkur í sumar (og ég til Noregs strax á eftir), fórum í sumarbústað í byrjun júlí og fylgdumst náið með HM í fótbolta. Fyrir utan nokkra tónleika seinni hluta sumars þá vorum við mest megnis heima í ró og spekt. Við hreiðruðum helst um okkur í garðinum heima þá fáu sólardaga sem gáfust í sumar.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Pæling: Ómarktæk viljayfirlýsing

Furðuleg staða er komin upp í stríðinu milli Ísrael og Líbanon. Ríkisstjórn Líbanon er búin að fallast á vopnahlésályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hafa, að mér skilst, þegar lagt niður vopn. Ísraelar eru meira hikandi. Þeir eru svo sem til í að hætta stríðinu líka, en ekki fyrr en eftir rúmlega tvo sólarhringa (kl. 7 á mánudagsmorgun). Þangað til ætla þeir að nýta tímann til að klára ætlunarverk sitt, sem var að ganga milli bols og höfuðs á Hizbollah-samtökunum. Hvers konar viljayfirlýsing er þetta? Þetta minnir svolítið á steggjarpartý eða gæsapartý sem fjölmörg verðandi hjón ganga sjálfviljug í gegnum áður en þau bindast hvoru öðru: "Já, ég samþykki þennan samning, en fyrst ætla ég á klámbúllu og láta ókunnuga dilla sér framan í mig!" Hvað er að marka slíkan samning?

Ég spyr sjálfan mig oft að því hvað á eiginlega sé hægt að gera við þessa bölvuðu "útvöldu" þjóð, sem leyfist allt í nafni Biblíunnar og skjóli Bandaríkjanna?

Upplifun: Gay Pride

Gay Pride dagurinn var í dag. Við Vigdís og Signý kíktum niður í bæ ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum og settumst á hlaðinn vegg þaðan sem við gátum séð gönguna liðast niður Laugarveg og inn Lækjargötu. Veðrið var skaplegt, engin sól en merkilega hlýtt þrátt fyrir það. Gangan kom um síðir og höfðum við beðið eflaust drjúgan hálftíma eftir henni. Hún var víst ekkert að flýta sér niður brekkuna. Þangað til hafði ég skemmt mér helst við það að taka myndir, ýmist af umhverfinu eða Signýju. Var svo sem ekkert spenntur því ég mundi eftir því hvað gangan var yfirgengilega löng, skrautleg og hávær í fyrra. Hún var hins vegar frekar hófstillt í ár, að mér fannst, og henni lauk fyrr en varði. Mér fannst það eiginlega til bóta, eins ófélagslega og það nú hljómar.

Áður en við fórum heim þótti tilvalið að koma sér fyrir á teppi á miðjum Austurvelli. Þar sá maður alls kyns vinahópa sem voru uppáklæddir á alla kanta án þess að skírskota sérstaklega til samkynhneigðar. Þetta minnti mig á útskriftarhópana sem sjást vandræðast um borgina við hver annarlok. Festival samkynhneigðra er ekki lengur óbeint gleðiefni annarra. Fólk virðist vera farið að smitast af gleðinni og beisla orkuna sér í hag. Það verður spennandi að sjá hvert þetta þróast. Svo verður líka áhugavert að sjá að ári hvað þeir kalla hátíðina sína því einn talsmanna samkynhneigðra stakk upp á nýyrðinu "hýrprýði". Það gerði hann á besta útsendingartíma sjónvarpsins stuttu fyrir hátíðina. Ég er að sjálfsögðu kampakátur með þetta skemmtilega orð og vonast innilega til að sjá orðið skjóta rótum að ári.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Tölvan: Uppfærsla

Ég keypti mér hróðugur vinnsluminni fyrir tölvuna upp á 512 mb og nýt þess að sjá hana yngjast alla upp. Með tímanum var hún farin að hægja eitthvað á sér og átti til að taka sér fjallmyndarlegar pásur til að hugsa um það verk sem hún var með hverju sinni. Þetta er liðin tíð, hér með. Kannski maður fari að nenna að sýsla í myndasafninu aftur og setja nokkrar góðar myndir á netið.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Tónleikar: Innipúkinn

Ég keypti mér Innipúkamiða sem gildir í þrjá daga. Vigdís fer fyrir mína hönd í kvöld að sjá Ampop, Mugison og fleiri en ég var hins vegar var hins vegar á tónleikum í gær - og í fyrradag. Í gær voru það Throwing Muses. Sveitin var svo gríðarlega vel spilandi að þetta líktist helst loftárás. Ég saknaði pínulítið melódískustu laganna þeirra, sem þeim slepptu í gær af einhverjum sökum, en þetta var öflugt. Í fyrradag var það hins vegar Television sem ég fór að sjá. Þeir eru ein merkasta gítarrokksveit sögunnar og gáfu út ódauðlegt meistaraverk 1977 sem heitir "Marquee Moon". Sú plata er ótvírætt ein af lykilplötum rokksögunnar. Það var því ekki við efnið að sakast þó tónleikarnir stæðu ekki fyllilega undir væntingum. Söngvarinn var eitthvað lasinn og slappur og hljómsveitin var einhvern veginn ekki alveg nógu samstillt til að lögin nytu sín. Hápunktarnir voru þó frábærir og bauð upp á stríðsdans inn á milli.

Nú eru fleiri tónleikar framundan og reyndar svo mikið framboð að það er varla hægt að fylgjast með lengur. Ætli ég sleppi ekki Morrisey í næstu viku. Fer í staðinn ásamt Vigdísi á Nick Cave í september. Maður er orðinn vanur að þurfa að velja og hafna. Áður fyrr fór maður á allt sem kom til landsins. Núna sleppir maður sveitum eins og Belle og Sebastian án þess að blikna. Reyndar ekki alveg að marka því þeir fóru alveg fram hjá mér þar til uppselt var orðið á tónleikana. Dæmigert fyrir framboðið þessa dagana.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Fréttnæmt: Jafnvægi náð

Á þessum örfáu sumardögum, sem gægjast til okkar í byrjun ágúst, hefur Signý litla tekið sig til og náð að halda jafnvægi betur en áður í sitjandi stöðu. Hún er búin að vera mjög völt til hliðanna hingað til og ekki getað setið upprétt í meira en nokkrar sekúndur án stuðnings. Styrkurinn í bakinu hefur verið í lagi því henni finnst bara fínt að standa og svona, með aðstoð, en það er fyrst núna að hún finnur hvernig hún getur beitt sér til að halda jafnvægi sjálf. Það gerðist náttúrulega úti á túni, í blíðunni, þar sem hún hefur verið að spóka sig ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Tónleikar: Perlum varpað fyrir svín

Sögufrægu kvöldi lauk með eins konar flugeldasýningu í tónum og ljósadýrð er Sigurrós lauk tónleikum sínum laust upp úr miðnætti á sunnudaginn var. Þeir buðu Reykvíkingum og öðrum utanaðkomandi upp á ókeypis tónleika á Miklatúni. Þetta var þrælmagnað. Annars vegar var sérkennilegt að vera þarna staddur ásamt fimmtán þúsund öðrum túngestum í merkilegri kvöldblíðu (miðað við vætusaman aðdraganda). Þarna var fólk af alls kyns sauðahúsi, fjölskyldufólk og hippar, gelgjur og fyrirmenni. Hálfgerður sautjándi júni, nema hvað það sást varla vín á nokkrum manni. Allt fór fram með mikilli spekt. Hins vegar var magnað og eftirminnilegt hvað hljómsveitin náði að magnast upp á kröftugustu köflunum og keyra yfir skarann eins og herþota, með undursamlegri undirbylgju og yfirtónum. Gæsahúðin lét ekki á sér standa. Sérstaklega þegar leið á kvöldið og prógrammið gerðist áleitnara.

Það eina sem truflaði mig á þessum tónleikum voru gestirnir: það að vera staddur þarna með svo mörgum sem ekki áttu skilið að vera á staðnum. Voru bara til að sýna sig og sjá aðra, í eins konar grillstemningu, spjallandi um heima og geima, gegnum tónlistina. Svo voru aðrir, einkum unglingskrakkar, sem voru uppteknari af gemsanum sínum en tónleikunum og tóku ekki einu sinni eftir hápunktum tónleikanna þegar þeir brustu fram í öllu sínu veldi. Verst af öllu var þó að hlusta á digurbarkalegar athugasemdir frá þeim sem kunnu ekki að meta tónlistina, og vissu allt of vel af því. Það var hlegið að viðkvæmni í túlkun og brothættri falsettu. Steininn tók hins vegar úr í hápunkti þess lags sem ég held mest upp á: "Viðrar vel til loftárása". Rétt á undan kaflanum, þar sem hljómurinn brýst fram, er gerð kúnstpása, örstutt þögn, og í henni stóð Jónsi með bogann við enni sér og lokaði augunum, píndur á svipinn af innlifun. Þá kallaði einn tornæmi gesturinn "Ertu þá búinn að pissa!?" og vísaði í svip Jónsa í þögninni viðkvæmu, eins og hann hefði pissað á sig. Ég flutti mig úr stað til að verða ekki vitni að frekari hæðnisglósum úr þeim félagahópi.

Til að mála skarann ekki allt of svartan þá voru sannarlega inn á milli einlægir aðdáendur sem ýmist lágu þvers og kruss með lokuð augun eða héldust í hendur, föðmuðust. Sætast fannst mér að sjá eitt parið sem faldi sig saman undir peysu. Við Vigdís vorum sjálf svolítið til hliðar í litilli brekku undir trjágróðri og sáum glitta í sviðið, en höfðum það náðugt. Ég fór síðan inn á milli á smá flakk og skoðaði mig um, með myndavél í farteskinu. Tónleikarnir voru því virkilega magnaðir þrátt fyrir misjafnan skarann og þeir bötnuðu er á leið, eins og áður sagði, og var því ekki síst að þakka að hinir óþreyjufyllstu meðal áhorfendanna fóru að yfirgefa svæðið upp úr ellefu þegar helstu "slagararnir" voru að baki. Þá var veislan hins vegar fyrst að hefjast fyrir alvöru. Eftir tónleikana gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvað rausnarskapur Sigurrósar og óbilgjörn hugsjónavinna þeirra er mikið á skjön við þessa andlega löskuðu þjóð.