Ég keypti mér Innipúkamiða sem gildir í þrjá daga. Vigdís fer fyrir mína hönd í kvöld að sjá Ampop, Mugison og fleiri en ég var hins vegar var hins vegar á tónleikum í gær - og í fyrradag. Í gær voru það Throwing Muses. Sveitin var svo gríðarlega vel spilandi að þetta líktist helst loftárás. Ég saknaði pínulítið melódískustu laganna þeirra, sem þeim slepptu í gær af einhverjum sökum, en þetta var öflugt. Í fyrradag var það hins vegar Television sem ég fór að sjá. Þeir eru ein merkasta gítarrokksveit sögunnar og gáfu út ódauðlegt meistaraverk 1977 sem heitir "Marquee Moon". Sú plata er ótvírætt ein af lykilplötum rokksögunnar. Það var því ekki við efnið að sakast þó tónleikarnir stæðu ekki fyllilega undir væntingum. Söngvarinn var eitthvað lasinn og slappur og hljómsveitin var einhvern veginn ekki alveg nógu samstillt til að lögin nytu sín. Hápunktarnir voru þó frábærir og bauð upp á stríðsdans inn á milli.
Nú eru fleiri tónleikar framundan og reyndar svo mikið framboð að það er varla hægt að fylgjast með lengur. Ætli ég sleppi ekki Morrisey í næstu viku. Fer í staðinn ásamt Vigdísi á Nick Cave í september. Maður er orðinn vanur að þurfa að velja og hafna. Áður fyrr fór maður á allt sem kom til landsins. Núna sleppir maður sveitum eins og Belle og Sebastian án þess að blikna. Reyndar ekki alveg að marka því þeir fóru alveg fram hjá mér þar til uppselt var orðið á tónleikana. Dæmigert fyrir framboðið þessa dagana.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli