Sögufrægu kvöldi lauk með eins konar flugeldasýningu í tónum og ljósadýrð er Sigurrós lauk tónleikum sínum laust upp úr miðnætti á sunnudaginn var. Þeir buðu Reykvíkingum og öðrum utanaðkomandi upp á ókeypis tónleika á Miklatúni. Þetta var þrælmagnað. Annars vegar var sérkennilegt að vera þarna staddur ásamt fimmtán þúsund öðrum túngestum í merkilegri kvöldblíðu (miðað við vætusaman aðdraganda). Þarna var fólk af alls kyns sauðahúsi, fjölskyldufólk og hippar, gelgjur og fyrirmenni. Hálfgerður sautjándi júni, nema hvað það sást varla vín á nokkrum manni. Allt fór fram með mikilli spekt. Hins vegar var magnað og eftirminnilegt hvað hljómsveitin náði að magnast upp á kröftugustu köflunum og keyra yfir skarann eins og herþota, með undursamlegri undirbylgju og yfirtónum. Gæsahúðin lét ekki á sér standa. Sérstaklega þegar leið á kvöldið og prógrammið gerðist áleitnara.
Það eina sem truflaði mig á þessum tónleikum voru gestirnir: það að vera staddur þarna með svo mörgum sem ekki áttu skilið að vera á staðnum. Voru bara til að sýna sig og sjá aðra, í eins konar grillstemningu, spjallandi um heima og geima, gegnum tónlistina. Svo voru aðrir, einkum unglingskrakkar, sem voru uppteknari af gemsanum sínum en tónleikunum og tóku ekki einu sinni eftir hápunktum tónleikanna þegar þeir brustu fram í öllu sínu veldi. Verst af öllu var þó að hlusta á digurbarkalegar athugasemdir frá þeim sem kunnu ekki að meta tónlistina, og vissu allt of vel af því. Það var hlegið að viðkvæmni í túlkun og brothættri falsettu. Steininn tók hins vegar úr í hápunkti þess lags sem ég held mest upp á: "Viðrar vel til loftárása". Rétt á undan kaflanum, þar sem hljómurinn brýst fram, er gerð kúnstpása, örstutt þögn, og í henni stóð Jónsi með bogann við enni sér og lokaði augunum, píndur á svipinn af innlifun. Þá kallaði einn tornæmi gesturinn "Ertu þá búinn að pissa!?" og vísaði í svip Jónsa í þögninni viðkvæmu, eins og hann hefði pissað á sig. Ég flutti mig úr stað til að verða ekki vitni að frekari hæðnisglósum úr þeim félagahópi.
Til að mála skarann ekki allt of svartan þá voru sannarlega inn á milli einlægir aðdáendur sem ýmist lágu þvers og kruss með lokuð augun eða héldust í hendur, föðmuðust. Sætast fannst mér að sjá eitt parið sem faldi sig saman undir peysu. Við Vigdís vorum sjálf svolítið til hliðar í litilli brekku undir trjágróðri og sáum glitta í sviðið, en höfðum það náðugt. Ég fór síðan inn á milli á smá flakk og skoðaði mig um, með myndavél í farteskinu. Tónleikarnir voru því virkilega magnaðir þrátt fyrir misjafnan skarann og þeir bötnuðu er á leið, eins og áður sagði, og var því ekki síst að þakka að hinir óþreyjufyllstu meðal áhorfendanna fóru að yfirgefa svæðið upp úr ellefu þegar helstu "slagararnir" voru að baki. Þá var veislan hins vegar fyrst að hefjast fyrir alvöru. Eftir tónleikana gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvað rausnarskapur Sigurrósar og óbilgjörn hugsjónavinna þeirra er mikið á skjön við þessa andlega löskuðu þjóð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli