laugardagur, ágúst 12, 2006

Upplifun: Gay Pride

Gay Pride dagurinn var í dag. Við Vigdís og Signý kíktum niður í bæ ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum og settumst á hlaðinn vegg þaðan sem við gátum séð gönguna liðast niður Laugarveg og inn Lækjargötu. Veðrið var skaplegt, engin sól en merkilega hlýtt þrátt fyrir það. Gangan kom um síðir og höfðum við beðið eflaust drjúgan hálftíma eftir henni. Hún var víst ekkert að flýta sér niður brekkuna. Þangað til hafði ég skemmt mér helst við það að taka myndir, ýmist af umhverfinu eða Signýju. Var svo sem ekkert spenntur því ég mundi eftir því hvað gangan var yfirgengilega löng, skrautleg og hávær í fyrra. Hún var hins vegar frekar hófstillt í ár, að mér fannst, og henni lauk fyrr en varði. Mér fannst það eiginlega til bóta, eins ófélagslega og það nú hljómar.

Áður en við fórum heim þótti tilvalið að koma sér fyrir á teppi á miðjum Austurvelli. Þar sá maður alls kyns vinahópa sem voru uppáklæddir á alla kanta án þess að skírskota sérstaklega til samkynhneigðar. Þetta minnti mig á útskriftarhópana sem sjást vandræðast um borgina við hver annarlok. Festival samkynhneigðra er ekki lengur óbeint gleðiefni annarra. Fólk virðist vera farið að smitast af gleðinni og beisla orkuna sér í hag. Það verður spennandi að sjá hvert þetta þróast. Svo verður líka áhugavert að sjá að ári hvað þeir kalla hátíðina sína því einn talsmanna samkynhneigðra stakk upp á nýyrðinu "hýrprýði". Það gerði hann á besta útsendingartíma sjónvarpsins stuttu fyrir hátíðina. Ég er að sjálfsögðu kampakátur með þetta skemmtilega orð og vonast innilega til að sjá orðið skjóta rótum að ári.

Engin ummæli: