föstudagur, ágúst 25, 2006

Upplifun: Ferðalag austur að Kárahnjúkum

Ég fór í mjög eftirminnilegt ferðalag austur á Kárahnjúkasvæðið um síðustu helgi. Ég fór þangað akandi ásamt Jóni Má og fórum við af stað um kvöldmatarleytið á fimmtudaginn. Við gistum í góðu yfirlæti hjá tengdaforeldrum hans á leiðinni, nokkra kílómetra suður af Kirkjubæjarklaustri. Allt um kring voru gríðarlega fallegar sveitir, endalausar breiður af gervigígum, sem vert er að kanna síðar.

--------

Á öðrum degi ókum við sem leið lá austur á Egilsstaði og vorum komnir þangað um fjögurleytið, með tæknilegu súpustoppi í hádeginu á Höfn í Hornafirði. Á leiðinni heilluðu Lónsöræfin litrík og verða virkilega hafðar á bak við eyrað fyrir næstu óbyggðaferð. Fjallvegurinn um Öxi, sem styttir leiðina að Egilsstöðum um rúma 60 kílómetra, var einnig mjög spennandi yfirferðar. Því má bæta við að heiðríkja var alla leiðina, og reyndar alla helgina, og tóku Egilsstaðir því við okkur í sannkallaðri sunnudagsstemningu, þar sem menn sleikju rjómaís hver í kapp við annan. Helsta táknið um uppsveifuna fyrir austan, sem við urðum varir við, var Egilsstaðaútgáfa af Hamborgarabúllu Tómasar, sem jafnframt virtist vera eins konar pöbb. Að öðru leyti var ég hissa á því hvað bærinn var lítill og ræfilslegur, þ.e.a.s. stuttur bæjarmarkanna á milli. Við ókum í gegn á innan við mínútu og þurftum að keyra til baka til að ná að drepa niður fæti í bænum.

Um kvöldmatarleytið vorum við komnir upp að virkjun. Þangað er malbikað alla leið. Þetta er bara eins og að keyra yfir Hellisheiðina, leið sem áður var ófær flestum bílum. Ég man eftir að hafa skrölt þetta þegar við Vigís fórum í niðdimmri þoku á leið heim frá Færeyjum, fyrir um þremur árum. Núna var allt opið, vegurinn breiður og veðrið eins og best verður á kosið. Eina markmiðið okkar Jóns þennan daginn var að koma okkur fyrir. Það var hins vegar eins og gestaþraut. Skiltin eru að sumu leyti misvísandi og villandi. Um tíma vorum við á leiðinni í átt að Möðrudal, en áttuðum okkur áður en út í óefni var komið, fundum þá næsta afleggjara í átt til Laugavalladals. Það reyndist fjallabaksleið mikil og torfær. Leiðin var svo undin þá 12 kílómetra sem við ókum að okkur fannst við hafa farið eina 30-40 kílómetra, akandi í rúman klukkutíma. Hrikalegt stórgrýti út um allt og hæðir upp og niður þannig að vart var farandi nema fetið, á fjórhjóladrifnum jeppa. Aftur héldum við að við værum á leið út í einhverjar ógöngur og þurftum að gaumgæfa kortið reglulega til að trúa því að værum enn staddir á svæðinu. Síðan kom myndarleg beygja yfir hæð og við blasti Laugavalladalur. Græn tún, kamar og heitur lækur sem bunar niður þriggja metra fall og myndar prýðilega sturtu fyrir lúna ferðalanga. Draumatjalstæði. Þarna var gott að dvelja yfir nótt, enda ákváðum við að hafa þarna bækistöð fyrir næstu nótt líka. Það sem var ekki síður mikilvægt var að handan við dalinn gat að líta greiðfæran malarveg upp á kambinn, vegur sem var ekki á kortinu, og tengdi okkur á tuttugu mínútum við stíflustæðið hinum megin og náttúruna þar fyrir handan.

--------

Á þriðja degi vaknaði maður lemstraður, að vanda, eftir mishæðóttan svefn, en heit lækjarbunan lagaði "morgunsárið" snarlega, enda fellur hún með sannkölluðum nuddkrafti. Fyrsta verkefni dagsins var að keyra suður með Jöklu og virða fyrir okkur Töfrafoss. Sá slóði sem við fylgdum var eiginlega ekkert skárri en fjallabaksleiðin að tjaldstæðinu, en í þetta skiptið vorum við orðnir öllu vanir. Fossinn var fyrirhafnarinnar virði, virðulegur og breiður. Þetta er gruggugur jökulárfoss í anda Dettifoss, bara aðeins nettari og snyrtilegri. Allt umhverfið var vel gróið og lækjarsprænur með rauðleitum útfellingum seytluðu úr gilbarminum hér og þar. Við lögðum bílnum á stæðinu við fossinn og gengum niður eftir gilinu (eða gljúfrinu öllu heldur) og sáum ýmsar gerðir af flúðum og skorningum. Kringilsáin, eins og hún heitir, er gjörsamlega óyfirstíganleg og rennur nokkru neðar saman við Jöklu, sem er enn stærri og meiri um sig. Saman renna þær í átt að Kárahnjúkum þar sem rennsli þeirra verður hamið nú í vetur. Þar sem árnar mætast er ævintýralegur kláfur sem hægt er að nota til að ferja sig yfir á landskikann á milli ánna, umræddan Kringilsárrana. Raninn er burðarsvæði hreindýra og einnig helsta varplendi heiðagæsa. Grónustu svæði hans munu fara á kaf þegar stíflan kemst í gagnið og því óvíst hvort hann muni yfir höfuð nýtast lengur sem afdrep þessara táknrænu útvarða íslensks dýralífs norðan Vatnajökuls. Töfrafoss mun líka hverfa og við Jón fylgdum ráðleggum mætra manna um að skoða hann aftur, hinum megin frá, þar sem hann blasir betur við. Fórum svo sömu leið til baka eftir grasi vaxinni "eyðimörk" í átt að bílnum.

Á leiðinni upp á tjaldstæði vorum við orðnir þægilega dasaðir en ákváðum að nýta frábært veðrið og kíkja á gljúfrin hlémegin við stífluna. Þau koma ekki til með að raskast að ráði en þorna þó upp að mestu og verða jafnvel göngufær hugdjörfum mönnum (með hjálma). Gljúfrin eru það þverhnípt og djúp að þau hafa lengstum gengið undir nafninu "Dimmugljúfur" en heita líka "Hafrahvammagljúfur". Þetta er staðurinn sem Ómar Ragnarsson smaug í gegnum á flugvélinni sinni og undirstrikaði þar með smæð vélarinnar mikilfengleika staðarins. Við Jón tókum helling af myndum, bæði af gljúfrunum og af kynjamyndum í klettaveggnum. Einnig vakti athygli mína jarðlög sem halla örlítið og hverfa á bak við árfarveginn. Þau valda skemmtilegri sjónhverfingu þannig að manni finnst að vatnið renni upp á við ef maður miðar við villandi jarðlagalínuna sem hækkar á móti straumstefnunni.

Kvöldið á tjalstæðinu var nýtt annars staðar, eftir fátæklegan pastarétt. Við fórum upp í vinnuþorp og áttum líflegt kaffistofuspjall við vinkonu Margrétar (hans Jóns) sem vinnur á svæðinu við jarðlagarannsóknir. Reyndar var þetta ekki fyrsta heimsókn okkar í þorpið. Um morguninn fengum við að taka bensín, undir eftirliti hjálplegs starfsmanns, og kíktum einnig á kaffihús svæðisins á milli þess sem við sáum Töfrafoss og kíktum á Dimmugljúfur. Það var virkilega gaman að upplifa stemninguna í búðunum og finna hvernig afþreyingu, veitingum og allri annarri aðstöðu verkamanna er háttað. Ég velti því mikið fyrir mér hvort þetta væri ekki afbragðs verkefni fyrir mannfræðing að planta sér þarna niður og vinna upp úr viðtölum einhvers konar etnografíska greiningu á stéttaskiptum samskiptum manna í þessu knappa og sérkennilega fjölþjóðasamfélagi.

--------

Á fjórða degi vaknaði maður aftur lemstraður og nýtti sér að sjálfsögðu fyrri reynslu og henti sér undir heitu bununa. Þann daginn var stefnan tekin heim til Reykjavíkur eftir hádegið. Fyrst ætluðum við okkur þó að skoða okkur aðeins meira um, fram til hádegis eða þar um bil. Rauðuflúðir var þar efst á lista. Sá staður er svo litríkur að ljósmyndir þaðan voru gagnrýndar af virkjunarsinnum sem "fótósjoppað" áróðursbragð þegar Ragnar Axels og fleiri birtu þær á sýningu fyrir nokkrum árum. Leiðin þangað var að hálfu leyti sú sama og í átt að Töfrafossi. Reyndar tókst okkur að villast og við fórum nánast aftur að fossinum, úr annarri átt, og þurftum að snúa við. Á þeirri leið áttuðum við okkur hins vegar á því hvað undirlendið, sem allt mun fara undir kaf, er vel gróið. Engin "eyðimörk", sem svo oft hefur verið haldið fram til réttlætingar á áldraumnum. Þetta er gróið berjaland frá árbökkum og lengst upp á heiði. En leið okkar lá sem sagt í átt að Tröllagili sem var furðu nálægt stíflustæðinu - ekki nema um korters akstur, ef maður fylgir réttum afleggjara. Vegurinn endar á útsýnishæð þaðan sem maður þarf að ganga nokkurn spöl, líklega um hálftíma, áður en gilið opnast með sérkennilegum fossi. Hann er hálfgerðar flúðir, en samt foss, þar sem hann rennur eins og rennibraut eftir um það bil sextíu gráðu halla eftir sléttu bergi og fær mann til þess að langa að baða sig, liggjandi á sléttum bergveggnum, eða lónandi um í hylnum undir. Gilið var svo hrífandi að Jón fékk sig ekki til að ganga lengra og vildi njóta þess að liggja í makindum á gilbarminum, enda prýðilegt útsýni til allra átta. Ég freistaðist hins vegar til þess að fylgja gilinu niður eftir þar til lækurinn seytlaði niður í Jöklu. Það var eins og að stíga inn í ævintýraland. Gljúfur Jöklu var mjög opið og bjart en með um fimm metra þvernhnípi ofan í mjög þröngar og kraftmikla iðu. Stuðlaberg og sendnir árbakkar voru hér og þar ásamt Rauðuflúðum, þar sem bergið er rauðleitt og glampar gegnum tært regnvatnið sem seytlar gegnum bergið af hæðunum allt í kring. Þetta var mikilfenglegt sjónarspil og í rauninni í fyrsta skipti sem ég fékk kökk í hálsinn yfir tilhugsuninni um að glata þessu undir aurugan lónsbotn. Ég lokað augunum og naut kraftsins um stund áður en ég hélt aftur af stað í átt að bílnum. Það var langur akstur framundan.

Við stöldruðum við hér og þar á leiðinni. Stoppuðum fyrst í Skriðuklaustri og þáðum þar hlaðborð. Við mælum eindregið með því við alla, enda staðurinn ein af menningargersemum þjóðarinnar, en í okkar tilfelli var það hrein nauðsyn að nærast vel áður en við héldum lengra. Þegar við vorum búnir að borða um það bil nægju okkar vorum við spurðir hvort við vildum ekki ábyggilega súpu líka? Það var verið að bera fram "næsta" hlaðborð og ég þáði fiskisúpu í eftirrétt, til að kóróna veislustundina. Veðrið var skaplegt alla leið heim og nutum við þess að hlusta á tónlist úr ipod-græjunni, sem tengd var við kassettutækið með þar til gerðri "snúruspólu" (Simple Minds, PJ Harvey, Patti Smith, Jethro Tull). Vegirnir nánast auðuir. Íslendingar virðast nefnilega hætta tiltölulega snögglega að ferðast strax eftir hverja verslunarmannahelgi og skiptir engu þó besta veður sumarsins geri vart við sig eftir þann tíma, eins og núna. Það var því eiginlega lyginni líkast að aka fram hjá sveitum landsins í svona góðu veðri sem spókuðu sig sællega og sýndu allar sínar bestu hliðar á meðan við vorum með veginn nánast út af fyrir okkur.

Fyrir utan bensínstopp hér og þar (Höfn og Selfoss) þá stöldruðum við sjaldan við. Gerðum þó ómótstæðilegt túristastopp á Bond-lóni, eins og það kallast í dag. Veðrið var bara þannig. Í fyrsta skipti sá ég að lónið er krökkt af selum sem leita sér að æti við mynni lónsins þar sem ólíkir straumar mætast. Fyrir ofan var gargandi krían sem steypti sér án afláts eftir smásíli. Í kringum kríuna sveimuðu nokkrir kjóar og skúmar, sem freistuðu þess að ná ætinu af kríunni. Reyndar skildist mér á Jóni að hann hafi sér skúm á sama stað í fyrra góma ein kríuna og fljúga með hana burt. Náttúran er miskunnarlaus.

Síðasta stopp ferðarinnar var á sama stað og þrem dögum fyrr, hjá tengdaforeldrum Jóns, suður af Kirkjubækjarklaustri, þar sem við borðuðum drjúgan kvöldmat og sögðum ferðasögur. Þar var, merkilegt nokk, fiskisúpa í matinn. Reyndar var hún af öðrum toga og rausnarlegri en sú sem ég borðaði í hádeginu, sneisafull af humri, enda stutt í Hornafjörðinn. Við fórum því af stað ákaflega vel mettir og afslappaðir fyrir síðasta hlutann. Klukkan var orðin hálf tíu og komið myrkur. Það var því bráðnauðsynlegt að vera í góðu jafnvægi síðasta spölinn. Dalalæðan dansaði í myrkrinu á meðan við hlustuðum á Joy Division. Það var vel við hæfi sem endapunktur á eftirminnilegri ferð.

Engin ummæli: