þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Upplifun: Ömurleg biðstofa

Biðin á slysavarðsstofunni situr eftir í manni. Hún var svo viðbjóðslega löng og leiðinleg! Við komum um tvöleytið. Ég skutlaði Vigdísi og ákvað að kíkja upp í vinnu á meðan (hafði bara skotist frá í hádeginu). Kom aftur um þrjúleytið. Þá var hún enn að bíða. Við biðum saman í um hálftíma og þá datt henni það snjallræði í hug að ég nýtti tímann betur og keypti inn á meðan í næstu Bónusverslun. Sem ég gerði. Kom aftur um fjögurleytið og þá var hún þar enn að bíða. Ég settist og beið með henni. Dottaði. Las gömul tímarit. Dottaði aftur. Sat eitthvað óþægilega og gekk um. Engar veitingar voru í boði neins staðar nema ömurlegir og rándýrir nammisjálfsalar. Settist aftur. Tímaritin voru úr sér gengin og helmingurinn af þeim voru gatslitin dönsk saumablöð í bland við eitthvert málgagn fatlaðra, sama tölublaðið í tíu eintökum. Fann hvernig mig verkjaði undan því að sitja svona lengi á grjótharðan píningarbekkinn (köld málmplata með baki). Lét mig þó hafa það. Klukkan var orðin tæplega sex þegar kom að Vigdísi. Loksins! Við vorum orðin sljó af þreytu, leiðindum, hreyfingarleysi, súrefnisleysi og næringarskorti. Ég beið hins vegar áfram á meðan höndin fékk viðeigandi meðferð. Á slaginu hálf sjö kom hún út með myndarlegar gifsumbúðir og við forðuðum okkur í snarhasti, hringdum heim (þar sem Sirrý "amma" var að passa) og keyptum okkur eitthvað að borða í skyndingu.

Heilbrigðiskerfið er ömurlegt. Ég hef heyrt um það hjá öðrum sem nýlega hafa þurft að bíða þarna að biðin sé að lágmarki þrír tímar. Þetta er regla frekar en undantekning. Ef maður ímyndar sér tímann sem fer í súginn hjá öllum þeim sem bíða þá hlýtur að reiknast út sem þjóðþrifaverk að víkka þennan flöskuháls örlítið og tvöfalda deildina. Það var nú ekki eins og þyrfti að undirbúa skurðstofu eða eitthvað þaðan af flóknara. Að minnsta kosti væri hægt að gera biðstofun pínulítið þægilegri og bjóða upp á kaffi, djús eða léttar veitingar í anda Blóðbankans og lesefni við hæfi. Ef ég lendi í því aftur að þurfa að bíða tímunum saman á þessari biðstofu þá tek ég með mér svefnpoka og dýnu. Ég segi bara: Gangi þeim vel að vísa mér út. Fínt að kalla til eins og eina fréttastofu og mata þá að tímabæru umfjöllunarefni.

Engin ummæli: