föstudagur, september 01, 2006

Upplifun: Heimaprísund

Vigdís lenti í sérkennilegri prísund í gær. Ekki nóg með að hún sé hálf handlama eftir beinbrotið heldur bættist við að útidyrahurðin stóð á sér. Það var bara ekki með nokkru móti hægt að opna hana. Húnninn hafði rofnað úr tengslum við teininn sem þrýstir stimplinum inn í hurðarjárnið. Húnninn danglaði bara laflaus. Til að fá gesti í heimsókn, eða komast út úr húsi yfir höfuð, þurfti hún að opna sér leið gegnum þvottahúsið - sem er orðið frekar troðið af dóti (bölum, fataslá og fleiru).

Ég reyndi eitthvað að bisa við hurðina eftir að ég kom heim en það var til lítils. Um kvöldið kom leigusalinn og hafði hann úr mun fleiri verkfærum að moða en ég. Það tók samt drjúgan tíma að þvinga teininn úr hurðarjárninu en það tókst um síðir með hjálp örmjórra smjörhnífa og annarra þvingandi ráða. Eftir hálftíma basl spratt hurðin upp og húnninn fjarlægður með það sama. Eftir situr smekklásinn sem fyrir var.

Sem betur fer var það smekklásinn sem við notum að staðaldri til að læsa hurðinni. Húnninn var eiginlega bara til hægðarauka, þar til hann varð til trafala í gær.

Engin ummæli: