laugardagur, september 02, 2006

Pæling: Klasaspengjur

Ég heyrði sjokkerandi umfjöllun í gær í útvarpinu um framferði Ísraelsmanna í stríðinu við Líbanon. Þeir gerðust sekir um að varpa svokölluðum "klasasprengjum" yfir borgir og bæi í suðurhluta Líbanon. Þessar sprengjur eru þess eðlis að þær dreifa minni sprengjum á stærð við handsprengjur yfir svæði á stærð við knattspyrnuvöll. Flestar springa þær þegar allur pakkinn lendir og dreifist, en ekki allar. Þær sem ekki hafa sprungið enn eru líklegar til að springa við "næstu" snertingu, sem oftar en ekki eru hendurnar á barni sem forvitnast um "leikfangið". Sprengjur af þessu tagi eru fordæmdar í íbúðabyggð og flokkast undir sams konar stríðsglæp og að dreifa jarðsprengjum.

Það sem kom helst við kaunin á mér er sú tölfræðilega staðreynd að Ísraelsher dreifði 90% af klasasprengjum sínum síðustu þrjá daga stríðsins þegar útséð var með að tími stríðsins var brátt á enda. Eins og ég hef áður talað um (í "Ómarktækri viljayfirlýsingu") þá fengu Ísraelar leyfi til að halda stríðsrekstri áfram í þrjá daga eftir að samið hafði verið um vopnahlé. Þetta var mjög grunsamlegt. Guðmundur Steingríms, pistlahöfundur með meiru, orðaði það hnyttilega í viðtali um daginn að þarna væri maður líklega að sjá hvernig stríð framtíðarinnar verði háð þar sem eins konar veiðileyfi ganga kaupum og sölum. Ein þjóð fær leyfi í visst langan tíma hjá annarri þjóð til að ráðast á þá þriðju. Þessi þriggja daga "vopnahlésfrestur" sem Ísraelar náðu að kría út var sem sagt vel nýttur, og það er að koma í ljós núna hvernig þeir nýttu þann tíma. Klasasprengjur eru þess eðlis að þær skaða svæðið sem þær lenda á löngu eftir að þær eru lentar. Talað er um að það taki eitt og hálft ár fyrir alþjóðlega sprengjusérfræðinga að kemba svæðið og hreinsa burt litlu "handsprengjurnar". Þangað til eiga hundruðir þúsundar Líbana ekki heimgengt - fyrir utan þá sem eiga ekki lengur hús til að venda í.

Það fylgdi sögunni að þessar klasasprengjur eru framleiddar í Bandaríkjunum (hvar annar staðar?).

Engin ummæli: