þriðjudagur, september 19, 2006

Fréttnæmt: Meðganga framundan

Líklega eru ekki allir lesendur bloggsíðunnar meðvitaðir um að heimilisbragurinn í Granaskjólinu er um það bil að taka stakkaskiptum á ný. Nýtt meðgöngutímabil er framundan og Signý verður brátt stóra systir. Þetta vissum við fyrir um það bil mánuði síðan, nánar tiltekið daginn áður en ég fór austur að Kárahnjúkum.

Við fórum í ómskoðun í gær og fengum úr þvi skorið að líklega séu ellefu vikur og tveir dagar að baki (dagurinn í dag þar með talinn). Framreiknað mun fæðing að öllum líkindum eiga sér stað í kringum sjöunda apríl. Við þekkjum marga sem eiga afmæli í þeim mánuði svo þetta verður spennandi. Samkvæmt stjörnuspekinni eru "hrútabörn" víst mjög ólík "bogmannsbörnum"; til dæmis eru þau bæði skapmeiri og kröfuharðari. Þegar vinskapur þeirra er skoðaður eiga þau hins vegar ágætlega skap saman.

Við Vigdís erum að vonum spennt en þetta er samt öðruvísi en áður. Maður áttar sig betur og er ekki nærri eins óviss um ferlið framundan. Svo er auðvitað allt til alls á heimilinu, sem er bara vel í stakk búið án frekari undirbúnings. Það munar gríðarlega miklu. Í leiðinni er maður er ekki eins mikill "brautryðjandi" og í fyrra skiptið. Fyrir vikið er meðgangan ekki eins leyndardómsfull. Að sjalfsögðu sjáum við fram á ýmsa hagkvæmni eins og það að geta strax nýtt aftur ungbarnasettið eins og það leggur sig sem við þurftum að redda á sínum tíma með ærinni fyrirhöfn. Það þarf þá ekki að hírast í geymslum til lengri tíma. Svo á maður von á því að félagsskapurin sem systkinin (eða systurnar) fá af hvoru öðru (hvorri annarri) verði mikils virði.

Engin ummæli: