sunnudagur, september 17, 2006

Tónleikar: Nick Cave í Höllinni

Við Vigdís fórum á magnaða tónleika með Nick Cave í gær. Hann spilaði við þriggja manna undirleik (fiðla, rafgítar og trommur) en lék sjálfur á píanó og gítar (mest píanó). Þetta voru nokkuð óvenjulegir tónleikar. Maður bjóst við ballöðum í öndvegi en það var öðru nær. Cave hamraði píanóið eins og hann ætti lífið að leysa og fiðlan sargaði og ískraði. Trommuleikarinn fór hamförum á settinu en gítarleikarinn lét minna fara fyrir sér. Jafnvel mýkstu ballöður meistarans tóku hamskiptum og urðu að einhvers konar brjálæði, að minnsta kosti á vel völdum hápunktum. Þetta var áhrifamikið til að byrja með en svo fór maður að kikna undan álaginu og varð lúinn undir það síðasta. Þá dró Cave upp óvænt spil og söng sitt alrafmagnaðasta lag í undurfagurri ballöðuútgáfu sem ég hafði ekki heyrt fyrr. "The Mercy Seat" fjallar bókstaflega um rafmagn og hugaróra dauðadæmds manns á leið í rafmagnsstólinn. Þar hefði fiðlan fyrirsjáanlega komið sér vel en engu að síður var flutningurinn án hennar óaðfinnanlegur og kom manni gjörsamlega í opna skjöldu.

Tónleikarnir voru vægast sagt rosalegir en engu að síður var eitt og annað sem kom í veg fyrir að maður nyti þeirra til fullnustu. Í fyrsta lagi vorum við nokkuð langt í burtu í stúkunni og mér fannst hálfpartinn eins og ég væri að rýna inn í fiskabúr. Í öðru lagi var umgjörðin ekki í takt við tónlistina. Steingeld íþróttahöllin og sitjandi áhorfendur pössuðu engan veginn við hamhleypurnar uppi á sviði. Í þriðja lagi var hljómburðurinn of skerandi (Of mikill diskant, eins og maður kallaði það í gamla daga). Ég saknaði mjúka og hlýja hljómsins af plötunum. Að lokum fannst mér útfærslur hljómsveitarinnar skorta fjölbreytni. Stöðugt ögrandi flutningur, barningur og sarg, virkaði lýjandi til lengdar. Fyrir vikið reyndust hápunktar tónleikanna vera þau fáu lög sem tekin voru í lágstemmdri útgáfu, afdrepið á milli stórhríðanna.

Sjónrænt var upplifunin sterk og efttirminnileg. Nick Cave var virkilega flottur á sviði og holningin minnti mann helst á vampíru. Handahreyfingarnar þær sömu og hjá töframanni sem galdrar aftur saman sundursagaðan sjálfboðaliða. Fiðluleikarinn virkaði hins vegar eins og tvífari Paganinis (eða eins konar fiðluútgáfa af Ian Anderson flautuleikara hjá Jethro Tull). Trommarinn var einnig eftirminnilegur og tókst að hrista sundur trommusettið í einu brjálæðinu og þurfti aðstoð rótara í miðju lagi. Svo er Cave mjög svalur karakter og ávarpaði áhorfendur yfirleitt á milli laga. Það finnst mér alltaf kostur. Oftar en ekki var hann hnyttinn og jafnvel smekklega á mörkum velsæmis.

Hápunktar: The Mercy Seat, eins og áður sagði, en einnig "God is in the House" þar sem heyra mátti saumnál detta í hvíslköflunum. "Stagger Lee" var einnig gríðarlega magnaður og ég var hissa á sjálfum mér yfir að þekkja lagið ekki betur. Einnig var hreint ógleymanlegt hvernig Nick Cave fékk salinn til að taka hárnákvæmt undir í lagi sem ég þekkti ekki, en viðlagið er: "Oh, mama!" Hann galdraði fram drungalegt lag sem leitaði alltaf í "Oh, mama" og þá tók salurinn undir andartaki síðar og kastararnir lýstu Höllina upp á meðan. Þetta var hrollkennd samkoma með sama yfirbragð og trúarsamkomur í suðurríkjum Bandaríkjanna í skjóli myrkurs. Minnti mig á Ku Klux Klan.

Engin ummæli: