fimmtudagur, september 28, 2006

Pæling: Dagur myrkursins

Í kvöld var slökkt á götuljósum um allan bæ. Það var magnað hvernig bærinn breytti um svip. Í götunni okkar stóðu nágrannarnir sig almennt mjög vel og slökktu á nánast hverri týru. Bjarminn að handan hvarf einnig með almennri myrkvun í borginni. Skyndilega gerðist það að borgarlandslagið, götumyndin og allt það sem maður hefur alment fyrir sjónum sér flutti sig um set úr forgrunni í bakrunn. Himnahulan (því ekki var stjörnubjart) varð mun áþreifanlegri og nálægari en maður er vanur svona á milli húsa. Það glitti í nokkrar stjörnur, svona eins og til að gefa fyrirheit um annað stefnumót seinna.

Það mætti nú fínpússa útfærsluna á þessu eitthvað fyrir næsta skipti því ég leyfi mér að trúa því að þetta verði raunverulegur valkostur í framtíðinni þegar stórviðburðir eiga sér stað á himninum. Sjoppur og bensínstöðvar geta dregið úr eða slökkt á neónbirtu sinni og yfirgefnir vinnustaðir þurfa að slökkva útiljós sín með fyrirvara. Strætó má líka alveg sleppa því að aka um upplýstur eins og bálköstur. Reyndar var það svo að ég treysti mér ekki til að ganga yfir götu í þessu myrkri sem myndaðist. Ég treysti einhvern veginn ekki koldimmum götunum í þessu framandi umhverfi. Leið eins og í útlöndum - þar sem ljósunum er ekki flíkað eins ótæpilega og hér heima.

En það var ekki bara myrkur milli tíu og hálf ellefu. Dagurinn var eitt myrkur því í dag fæddist drullupollur fyrir austan. Dýrasti drullupollur í veröldinni. Hann kostaði þjóðina 300 milljarða (sem eru 300 þúsund milljónir). Ef við reiknum þetta út sem ársverk (hvert metið i kringum þrjár milljónir) þá er um að ræða hundrað þúsund ársverk venjulegs verkamanns. Þetta eru þúsund manns í eina öld. Þau eru frekar dýr störfin þarna fyrir austan (svo ekki sé minnst á fórnarkostnaðinn).

Þrátt fyrir að þetta grúfði yfir manni tókst mér að upplifa einhvers konar þjóðarstolt um daginn. Þessu fann ég fyrir í fyrsta skipti í mörg ár fyrir tveimur dögum síðan þegar Ómar og hin þúsundin sameinuðust með litlum sem engum fyrirvara og flæddu út á göturnar eins og stórfljót niður Laugaveginn (smellið á "allur fjöldinn á laugaveginum" og horfið til enda). Það er þá eitthvað meira en tóm græðgi sem knýr fólkið sem hérna býr. Ég hef nú endurheimt þá trú, en geri mér jafnframt grein fyrir því að það eru "hinir" sem hafa völdin.

Engin ummæli: