Signý fékk einhverja pest í gær og er nú óðum að ná sér. Hún vaknaði í fyrrinótt með sárum gráti og var mjög heit. Hún var með upp undir fjörtíu stiga hita. Vigdís var líka slöpp og sá fram á að eiga erfitt með að halda mikið á Signýju, enda með hægri höndina í gifsi. Ég ákvað því að vera heima í gær.
Reyndar var allt í hers höndum því um leið og ég steig inn í eldhúsið í morgunskímunni, til að ná í pela fyrir Signýju, tók ég eftir þremur geitungum sveimandi um. Það hafði gleymst að loka eldhúsglugganum sem skildi eftir um fimm sentímetra glufu fyrir utanaðkomandi smágesti. Ljóstýra í eldhúsinu (sem einnig hefði átt að vera slökkt) laðaði þessa óboðnu gesti að. Þarna stóð ég fáklæddur og fannst hálf ónotalegt að hefja strembinn dag með þessum hætti. Stuttu síðar veiddi ég flugurnar í glas og hleypti þeim út, en fann bara tvær!
Morgunninn var erilsamur eins og við mátti búast og Signý var óskaplega lítil og umkomulaus. Henni fannst lang best að halla sér upp að okkur og finna öryggistilfinningu í fanginu. Við hringdum í hina og þessa og fengum fullt af góðum ráðum. Þetta var svolítið mál fyrir okkur því hún Signý hefur aldrei veikst fram að þessu. Núna fór maður hins vegar í gegnum þetta klassíska ferli sem flestir foreldrar kvíða: Hvað gerir maður þegar barnið veikist? Auðvitað héldum við yfirveguninn því það er fyrst og fremst það sem Signý þurfti að geta stólað á. Svo fékk hún hitastillandi stíla sem bættu líðanina hjá henni talsvert og gerðu henni kleift að sofa vært, um stund.
Á hádegi fékk ég óvæntan gest því Bjartur var á ferðinni í bænum og kíkti í kaffi. Hann gaf okkur ýmis góð ráð enda hafði Friðrik Valur hans og Jóhönnu veikst mun meira en Signý á sínum tíma. Er við spjölluðum í afslöppuðum gír í eldhúsinu, og Vigdís í dyragættinni, urðum við vitni að óvæntri árás. Vigdís tók skyndilega kipp í miðri setningu. Hún var með geitung á enninu! Áður en ég náði að fjarlægja hann rak Vigdís upp skerandi vein og sló hann frá sér. Hann hafði stungið hana í ennið, nokkrum sentimetrum fyrir ofan hægra augað. Eins og lög gera ráð fyrir þá var þessum geitungi snarlega varpað á dyr, eins og hinum tveimur. Sársaukanum lýsti Vigdís sem mjög miklum og í raun var hann talsvert meiri en hún hafði búist við. Hún bólgnaði örlítið og sveið í blettinn en er í dag einkennalaus.
Hvað Signýju áhrærir þá er hún líka einkennalaus í dag. Hún virðist ætla að stíga upp úr veikindum sínum fyrr en maður þorði að vona. Vonandi er það merki um að hún sé með öflugt ónæmiskerfi sem á eftir að hjálpa henni síðar meir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli