laugardagur, september 16, 2006

Fréttnæmt: Frárennsli rofið

Áfram heldur átakasagan því á fimmtudaginn steig ég í poll þegar ég kom heim eftir vinnu. Rigningin hafði verið gegndarlaus og ég hélt að það hefði bara flætt inn í fordyrið. Lyktin var hins vegar mjög vond af þessu vatni. Rotnunarlykt. Ekki sterk, en vond. Mér varð þá litið á niðurfallið í anddyrinu. Gæti vatnið hafa komið þarna upp? Þessi spurning hvatti mig til að hringja í leigusalann, sem bæði þekkir húsið vel og er vel græjum búinn. Hann kom seinna um kvöldið. Þá var ég nattúrulega búinn að hreinsa allt upp og svoleiðis. Hann kíkti hins vegar nánar á niðurföllin, bæði fyrir utan og innan. Eftir mjög langt streð og tilraunir komumst við að því að það var einhver hrikaleg stífla í innra niðurfallinu. Við prófuðum losunina í niðurföllunum með vatnsslöngu, og vatnið ætlaði ekki þar niður. Nú voru góð ráð dýr, bókstaflega. Á meðan ég var að vinna daginn eftir skilst mér að leigusalinn hafi komið aftur með sérfræðing sem hafði sérstakan hátæknibúnað með sér, myndavél sem fer þarna niður og sitthvað fleira. Í ljós kom að rótarskot hafði náð að brjóta sér leið gegnum rörið og hefði þannig stíflað frárennslið. Þeir náðu í sameiningu að laga þetta til bráðabirgða en stefna á meiriháttarviðgerð næsta vor.

Það sem var kyndugt við þessa niðurstöðu var að ég var einmitt að fræða krakkana í skólanum um rætur á meðan þeir voru að bisa við niðurfallið. Rætur trjáa sinna þrenns konar hlutverki: Þær halda trénu föstu (og í jafnvægi), þær afla næringarefna og geyma næringarforða. Ekkert var minnst á spellvirki í þeirri umfjöllun.

Engin ummæli: