þriðjudagur, september 05, 2006

Upplifun: Bónustónlist

Ég skrapp út í Bónus í gær, samkvæmt venju, en ákvað í þetta skiptið að enangra mig frá erlinum og stressinu í loftinu. Ég gerðist álkulegur og setti upp nokkuð myndarleg heyrnartól, hljóðeinangrandi, og hafði iPodinn í vasanum. Þetta gerði gjörsamlega gæfumuninn. Ég var þarna á eigin forsendum og leið vel allan tímann. Öðru hvoru þurfti ég að taka "ofan" og heyrði þá undantekningarlaust lýjandi síbylju í loftinu, ísleskt sveitaballapopp eða Eurovision slagara. Mér leið eins og tjaldbúa í rigningu, horfði í kringum mig og sá að hér gat ég ekki þrifist lengi, setti svo hlífina yfir mig aftur.

Eflaust tekur þetta svolítið lengri tíma að ráfa svona um með tónlist á eyrunum. Maður er rólegri og lætur ekki umhverfið stressa sig. Virkar vel ef maður þarf ekki að hugsa of mikið og er með allt tilbúið á miða, í réttri röð. Það sem kom mér hins vegar á óvart var að litríkar vörurnar í hillunum og mannlífið í versluninni breyttist úr lýjandi áreiti í súrrealískt og skemmtilegt myndband. Mér fannst ég taka eftir ýmsum blæbrigðum í tónlistinni sem nutu sín sérstaklega í þessu nýja umhverfi.

Engin ummæli: