sunnudagur, september 10, 2006

Þroskaferli: Göngugrind, skrið og staða

Nú er liðinn um mánuður síðan ég sagði frá síðustu framfaraskrefum Signýjar. Þá var hún nýbyrjuð að sitja sjálf. Það er í raun ótrúlegt að það skuli vera svona stutt síðan því nú situr hún eins og hún hafi aldrei gert annað. Hún er alveg hætt að missa jafnvægispunktinn aftur fyrir sig og skella á hnakkann. Jafnvel í sundi getur hún setið á dýnu (sem er álíka óstöðug og vatnsdýna - enda sama fyrirbærið í raun). Hún unir sér hvergi betur en þegar hún dundar sér í sitjandi stöðu.

Signý er að sjálfsögðu farin að skríða. Reyndar er það ekki vandræðalaust. Gólfið er sleipt og henni tekst ekki almennilega að lyfta sér upp á hnén. Í staðinn skríður hún með höndunum og mjakar sér þannig eftir gólfinu. Maður sér oftast ekki hvernig hún fer að þessu, því hún skríður ekki sérlega stefnufast. Hún virðist nota borðfætur og gólf til að mjaka sér áfram og þegar henni sýnist sem svo snýr hún sér í hálfhring á maganum og snýr sér að einhverju öðru (í bókstaflegri merkingu).

Nú er svo komið að hún vill fara að ganga. Í hvert sinn sem ég tek hana í fangið toga ég hana upp í standandi stöðu áður en ég lyfti henni. Stundum leyfi ég henni að standa þannig með stuðningi í góðan tíma og leyfi henni að dilla sér við tónlistina sem við hlustum á saman. Yfirleitt leyfi ég henni að halda um þumalinn á mér á báðum höndum og teygi vel úr henni. Henni finnst þetta mikil upplifun. Það er eins og áður, þegar hún var að læra að sitja, að styrkurinn virðist vera til staðar. Bara spurning um jafnvægi.

Í mánuðinum var Signýju gefin göngugrind. Þetta allt hjálpar. Fyrst í stað tókst Signýju bara að ganga aftur á bak. Núna getur hún hins vegar stýrt göngunni að vild og er farin að halda geysilega mikið upp á græjuna. Grindin tekur náttúrulega sitt pláss en getur sem betur fer lagst saman og legið inni í geymslu þangað til hún er tekin fram, ca. tvisvar á dag.

Engin ummæli: