laugardagur, mars 29, 2008

Þroskaferli: Ýmsir frasar

Enn af Signýju. Hún hefur hingað til látið alveg vera að bera fram óskir á formlegan hátt. Þegar hún vill ís þá segir hún einfaldlega: "Pabbi! ÍS!". Eða kannski: "Ég ís". En núna í kvöld þegar ég tók fram ísboxið þá sagði hún: "Má ég fá ís?". Það kom mér svo þægilega á óvart hvað hún gerði þetta kurteislega og vel að ef ég hefði ekki verið með boxið í höndunum þá hefði ég skutlast eftir því á augabragði. Þetta er spennandi enda er alltaf eitthvað nýtt sem kemur fyrir á hverjum degi. Ég bíð enn eftir því að hún biðji mig að halda á sér án þess að segja: "Ég hada mig", sem mér finnst alltaf hljóma jafn skuggalega.

Eitt er hún þó farin að segja rétt, sem lengi hefur verið beðið eftir; hún er farin að nota orðið "hvar" þegar hún leitar upphátt að hlutum. Við persónugerum hlutina stundum þegar við leitum að þeim og ég ber fram spurninguna: "Hvar ertu? Hvar ertu dudda?" og þá hefur hún iðulega sagt í sama spurnartón: "Ettu? Ettu dudda?" Mér fannst það alltaf mjög sætt hvað hún gat sett mikinn spurnartón í þetta litla orð. Núna hins vegar er setningin loksins fullmótuð: "Ka ettu?" Þetta er allt að koma.

Og þá má ég til að bæta við leitinni í dag að júgursmyrslinu, sem ég þurfti til að bera á sár. Signý tók þátt, auðvitað, og við gengum um íbúðina í leit að júgursmyrslinu: "Hvar ertu júgursmyrsl?" og hún tók undir: "Ka ettu lóuditl". Essin geta stundum verið erfið en hún lét þau ekki trufla sig þarna.

föstudagur, mars 28, 2008

Þroskaferli: Hvað heitir mamma?

Eins og áður hefur komið fram þá fer Signýju mikið fram í að tala þessa dagana. Framburðurinn er náttúrulega vissum takmörkunum settur en hún er farin að setja fram flóknari setningar en áður. Til marks um það þá hefur hún lengi sagt "Taddudda" þegar ég á að tannbursta hana. Í gær sagði hún hins vegar "butta dennunnar", sem er náttúrulega mikið fágaðra. Eitthvað meira hefur komið upp úr dúrnum undanfarna daga sem ég man ekki eftir í svipinn. Meira um það seinna. Annars var Vigdís eitthvað að spjalla við hana í kvöld og ræddi við hana hvað hinir og þessir hétu. Hún tók sérstaklega fram hvað hún sjálf héti. Ég fylgdist með og brosti í laumi þegar Signý endurtók: Mamma ís-ís.

mánudagur, mars 24, 2008

Daglegt líf: Páskarnir og ofnæmi

Þetta eru búnir að vera prýðilegir páskar, með matarboði í gær, heimsókn til vina og kunningja daginn fyrir og göngutúra í blíðviðri þar á undan. Ekki er þó laust við að þeir dagarnir verið lýjandi enda Vigdís búin að vinna dag eftir dag, alla páskana, og ég því verið heima að sinna dömunum litlu. Það reynir á til lengdar þó ánægjulegt sé. Ekki veit ég hvort það eru þreytumerki, en ég hef tekið eftir ofnæmisviðbrögðum hjá mér í gær og í dag, með tilheyrandi tvíteknum hnerra öðru hvoru. Vorboðinn lætur á sér kræla, að innan.

föstudagur, mars 21, 2008

Þroskaferli: Máltaka Signýjar

Síðan ég skrifaði síðast um málþroska Signýjar, í lok janúar, hef ég ötullega skráð hjá mér þau orð sem Signý notar helst og hef reynt að góma framburðinn eins og hægt er. Nú má ég til að koma þessu á framfæri áður en það verður of úrelt (núna þróast framburðurinn og orðaforðinn mjög hratt).

Það sem helst hefur breyst á þessum tiltölulega skamma tíma er að Signý er farin að notast við nöfn í meiri mæli. Systur sína kallar hún ekki lengur "Diddí" heldur "Hunnún". Sjálfa sig kallar hún "Diddní" eða jafnvel "Þjiddní". Hún kallar mig öðru hvoru "Dinni" en þó yfirleitt bara "pabba". Vigdísi hefur hún ekki nefnt á nafn að mér vitandi. Ásdísi frænku (móðursystur) nær hún að kalla "Aþdiþ"og Togga kallar hún "Gogga". Ömmu sína Sirrý kallar hún "amma dyjí" og ömmu Randý kallar hún "amma jaddí".

Ég tékkaði eitt kvöldið á dýrunum - var með þar til gerða bók fyrir svefninn. Hún þekkti nær öll dýrin í bókinni, mörg þeirra mjög framandi, en stundum þurfti ég að hlusta vel til að átta mig á heitunum. Við sáum dódadíl í vatninu og kikk synda í fjarska. Í fjörunni skreið dabbi fram hjá dokigk, en þó ekki eins hratt og myndarleg gagaga sem skjagaði þar fram hjá. Í loftinu sveimaði dillidí og lóukaka. Enn hærra flaug ödd, en á steini var gummi hins vegar búinn að tylla sér svartur yfirlitum. Í sveitinni fundum við kíg(h) og díni. Labbi jarmaði þar ámátlega í takt við myndarlegan hanana sem galaði án afláts. Í eyðimörkinni mátti sjá hvar úladí gekk í hægðum sínum. Gíjadí kíkti á hann af sléttunni og ábi sveiflaði sér í nærliggjandi frumskógi.

(Orðskýringar fyrir þá sem vilja, í réttri röð: krókódill, fiskur, krabbi, krossfiskur, skjaldbaka, fiðrildi, leðurblaka, örn, krummi, kýr, svínið, lambið, hani, úlfaldi, gíraffi og api.)

Í þessum dúr eru mörg orð hversdagslegri orð (og ég læt núna orðskýrngu fylgja með jafn óðum). Eins og sjá má er einn og sami rauði þráðurinn sem gengur í gegnum framburðinn: vandinn við að bera fram R, T og S ásamt ýmsum tvöföldum samhljóðum. Eins og sjá hér að neðan á Signý það að auki til að éta greininn (eins og það er stundum kallað) þannig að hann hverfur í framburði:

taduda = tannbursta
ðadetta (eða jadetta) = raketta
dutl = púsl
dóli´ = stóllinn
bolli = pollur
dólit = tónlist
djogga = sokka
ljóffi´ = ljósið


Hér koma nokkur algeng sagnorð, og þar kemur í ljós hvað J kemur oft í staðinn fyrir önnur hljóð, jafnvel þar sem maður reiknar ekki því:


geja = skera
kaka = taka
leija = leiða
joga = loka
dutla niju = sulla niður
didda ajiþ = bíddu aðeins

Þegar ég klæði Signýju þá tekur hún virkan þátt með ýmsum hætti, meðal annars með því að segja mér til. Þá heyrir maður þessi orð:

dílení = stígvélin
lekkana = vettlingana (þarna renna saman á allmerkilegan hátt viðskeytið "-lingana" og E-ið ásamt hörðum tvöföldum samhljóða í forskeytinu"vett-")
liggana = lyklana
köggu = tösku
djoggana = sokkana
...fyrir utan auðvitað auðskiljanlegri hluti eins og kápu, úlpu (úppu)eða galla.

Það er ansi krefjandi að reyna að skilja framburðnn hjá Signýju stundum. Einstöku sinnum hafa tvö eða fleiri fyrirbæri sama framburinn (díll getur verið bæði fíll og bíll). Þegar ég spyr hana til baka, og ber orðið eins fram, þá horfir hún á mig eins og ég sé hálfgerður kjáni og reynir að vera skilningsrík. Það gengur bara ágætlega.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Pæling: 18 + 18 = 36

Ég er að átta mig á því fyrst núna að 36 er mjög flott tala. Kannski vegna þess að ég fæddist inn í hús númer átján, þann átjanda.

Annars er þetta búið að vera mjög ánægjulegur dagur. Byrjuðum með kaffiboði úti á verönd í yljandi vorsól. Ég lék mér að tveimur nýjum kökuuppskriftum í morgun, beint úr Gestgjafanum. Svokölluð kókoshvolfkaka sló í gegn (með pekanhnetum og súkkulaðikurli). Allir komu og fóru sáttir. Skemmtilegar gjafir og afslöppuð stemning, eins og það á að vera.

mánudagur, mars 17, 2008

Kvikmyndir: Juno

Við fengum pössun í gær og fórum í bíó. Sáum myndina "Juno". Ég myndi lýsa henni sem "unglingamynd fyrir fullorðna". Hún fjallar um unga stúlku sem verður ólétt og hvernig hún tekst á við allt ferlið - vafann, meðgönguna, ættleiðingu og fæðingu. Það koma mörg óvænt og skemmtileg sjónarhorn fram í þessari mynd frá ýmsum litríkum (en raunsæjum) karakterum í myndinni. Sjálf er stúlkan með munninn fyrir neðan nefið og kann að koma fólki í opna skjöldu með óvæntum athugasemdum sem spretta úr ansi gróskumiklum og lifandi huga. Það er auðvelt að fá samúð með hverri einustu persónu í myndinni og atburðarásin er ekki of fyrirsjáanleg þannig að maður er "með" allan tímann og lifir sig inn í ferlið - aftur (en í þetta sinn óneitanlega á svolítið nýjum forsendum).

sunnudagur, mars 09, 2008

Þroskaferli: Máltaka Hugrúnar

Hugrún er farin að tjá sig mjög skýrt. Það má segja að hún sé byrjuð að tala. Orð eins og "mamma" og "pabbi" hafa verið að mótast í munni hennar undanfarnar vikur frá því að vera eins konar varaæfing yfir í afmarkað orð. Okkur finnst eins og hún noti þau markvisst, en þar gæti óskhyggjan reyndar verið að blekkja okkur. Núna nýverið, í vikunni má segja, höfum við heyrt hana segja ítrekað "búið" þegar við erum nýbúin að kljást við hana með snýtipappír (smá kvef í gangi). Í gær fannst mér hún segja "datt" um leið og hún missti snuðið sitt á gólfið - og brosti í leiðinni. Mér fannst ég greina ótvíræðan stoltglampa í augunum.

Daglegt líf: Þriggja vikna frí að baki

Nú eru þrjár vikur þegar liðnar af feðraorlofinu og aðeins ein eftir fram að páskum (sem reiknast sem vikufrí líka). Þessi tími hefur ekki nýst eins vel og ég hefði viljað. Maður sá fyrir sér tiltekt á heimilinu, að ég gæti loks farið gegnum bókhaldið og ef til vill farið í fullt af gönguferðum, sund og ef til vill á kaffihús og aðrar gæðastundir í þeim dúr með fjölskyldunni. Ég jafnvel reiknaði með að geta heilsað upp á gamla vini í fríinu. Það fór hins vegar lítið fyrir því. Fyrstu vikuna vorum við tiltölulega bundin við hemilið af því að Vigdís var lasin. Það var eitthvað tiltölulega lítilsháttar, en þrálátt. Næstu viku veiktist Signý í tvo til þrjá daga (veik í tvo, innandyra í þrjá). Í þriðju vikunni barst mér í hendur mjög krefjandi verkefni sem ég þurfti að leysa en ég var til aðstoðar hjá vinafólki við að skrifa greinargerð vegna erfiðs dómsmáls. Það tók heila tvo daga, má segja. Síðan hefur frítiminn farið að miklu leyti í að sinna almennum heimilisstörfum enda Vigdís farin að vinna - oft í löngum törnum, til dæmis um helgar. Heil helgi með Signýju og Hugrúnu krefst aga og skipulaginingar ef öllum á að líða vel. Þá er maður ekkert að slóra í tölvunni eða lesa blöðin. Það má því segja, strangt til tekið, að feðraorlofið hafi nýst vel, enda full þörf fyrir mig heima allan tímann. Við erum hins vegar brött gagnvart vikunni framundan hvað varðar afslöppun og náðarstundir enda fáir vinnudagar hjá Vigdísi (nýbúin með vinnutörn) og allir lausir við pestir (fyrir utan lítilsháttar kvef).

sunnudagur, mars 02, 2008

Pæling: Hugh Grant handritshöfundur?

Svona í framjáhlaupi, fyrst maður er að tína til bíómyndir sem maður mælir með þá langar mig að benda fólki á "Music and Lyrics" með Hugh Grant og Drew Barrymoore. Við tókum hana á leigu fyrir viku síðan og upplifðum bara hreina gleði gegnum hana. Maður heldur að Hugh Grant sé alltaf að tyggja sömu rulluna, sem er að vísu rétt, en hann nær alltaf að pússa hlutverkið sitt til og koma ferskur til leiks á ný. Ég er eiginlega á því að hann sé vanmetinn sem breskur húmoristi. Það drýpur gull af vörum hans, látlaust (bæði í merkingunni "án afláts" og "án fyrirhafnar). Ef maður skoðar það nánar þá hlýtur hann að semja sín eigin tilsvör sjálfur, því sama kaldhæðnin og sjálfshæðnin eru rauði þráðurinn í öllum hans hlutverkum. Þegar ég skyndilega sá hann fyrir mér í þessu ljósi fór hann að klifra upp á sama brandarapall og Woody Allen er á í mínum huga.

laugardagur, mars 01, 2008

Daglegt líf: Náðug kvöldstund

Við fengum drjúga pössun í kvöld fyrir báðar systurnar. Þær fóru í heimsókn til Beggu "frænku" og var þar sinnt af henni og börnum, þeim Fannari og Guðnýju. Þau ná afskaplega vel til Signýjar og Hugrúnar og gaman að sjá hvað allir nutu sín vel. Það verður sko lítið mál að fara þangað aftur í heimsókn með þær litlu. Heimsóknin nýttist okkur Vigdísi líka mjög vel. Við fórum í Smáralindina í bíó og fengum okkur líka að borða þar - tvö ein (óralangt síðan það gerðist síðast). Það var virkilega endurnærandi.

Myndin sem við sáum var hreint afbragð, íslenska myndinn "Brúðguminn". Við mælum bæði eindregið með henni. Hún minnti mig á "Nóa albínóa" að því leyti að hún náði að tvinna saman hádramatíska sögu og sprenghlægilega atburðarás. Útkoman er ógleymanleg. Myndatakan er listaverk út af fyrir sig, sögusviðið eftirminnilegt (Viðey að sumarlagi) og leikurinn eins og hann gerist bestur. Enginn leikhúsbragur er lengur á vönduðum íslenskum myndum. Maður man hvernig þeir áttu til að tala með ýktum framburði, eða sýna full dramatíska tilburði fyrir framan vélarnar. Það sem virkar vel á sviði á ekki endilega heima í bíó. Mér fannst það staðfestast með þessari mynd að íslenskt bíó er að vaxa upp úr leikhússkónum og er orðið samkeppnishæft á alþjóðamarkaði.

Sem sagt, frábær kvöldstund. Það sem meira er, við ætluðum að nýta boðsmiða í bíó en tókst það ekki vegna þess að miðinn var stílaður á SAM-bíóin (sem ég hélt að væru í Smáralindinni, en það er víst ekki). Miðinn rennur út 22. mars þannig að við verðum að fara í bíó aftur fljótlega. Það er ekki svo slæm tilhugsun (enda um ár síðan við fórum saman í bíó síðast).