þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Upplifun: Skírn í Bessastaðakirkju

Núna um helgina gerðist það markverðast að við Vigdís fórum í skírn til Bjarts og Jóhönnu. Litla systir Friðriks Vals var þá skírð um eftirmiðdaginn í Bessastaðakirkju (því miður gleymdum við myndavél í flýtinum en vísum þess í stað á nýlega myndskreytta færslu hér fyrir neðan).

Við vorum búin að velta því fyrir okkur, eins og gengur, hvaða nafn hún skyldi hljóta. Við gerðum okkur smá leik úr því, skrifuðum nokkur nöfn á blað og settum í umslag til þess að kíkja á þegar við kæmum heim. Þetta gerðum við kvöldið fyrir. Um morguninn vaknaði Vigdís hins vegar með nafnið Dagmar í kollinum og fór að bera það saman við föðurnafnið: "Dagmar Bjartsdóttir". Ég var þá kominn á fætur og frétti ekki af þessu fyrr en eftir á. Í kirkjunni sjálfri fékk ég hins vegar sambærilegt hugboð, eða "moment of clarity" eins og það var kallað eftirminnilega í Pulp Fiction. Sem sagt, einni mínútu áður en nafnið var opinberað gerði ég mér skyndilega grein fyrir því að sú litla hlyti að heita Helga, enda heitir móðir Bjarts því virðulega og kristilega nafni. Ég hallaði mér strax að Vigdísi og hvíslaði að henni: "Það er Helga".

Dagmar Helga heitir hún. Það er mikið spunnið í þetta nafn og það rennur líka ljómandi vel saman. Það sem er hins vegar undarlegt er að þegar ég bar nafnið saman við ljósmynd af Dagmar Helgu þá horfði myndin til baka eins og hún hafi alltaf heitið það.

Athöfnin var virðuleg, markviss og þægileg í afar fallegri kirkju (það eru ekki margir sem geta sameinað á einum stað vinnu sína og persónulegustu stundir með þessum hætti). Okkur var sv boðið til veislu í foreldrahúsum Jóhönnu, í Grafarvoginum. Þar vorum við svolítið á jaðrinum, eins og gefur að skilja, en þekktum samt nógu marga til að geta látið fara mjög vel um okkur. Ekki skemmdi fyrir að Signý og Hugrún voru í pössun hjá mömmu og pabba þannig að við tvö vorum afslöppuð eftir því og gátum gætt okkur á fjölbreyttum veitingum. Sumt af því sem þar var í boði hefur nú þegar ratað í uppskriftabókina mína og verður vonandi á boðstólum á næstunni (ekki langt í næsta afmæli, en Signý verður þriggja ára í desember). Við kunnum hins vegar gestgjöfum okkar bestu þakkir fyrir ánægjulegan tíma í Grafarvoginum og notalega skírn í þessari einstöku kirkju.

mánudagur, nóvember 17, 2008

Upplifun: Hvar er Árni?

Signý var kostuleg á laugardaginn var. Hún horfði á Spaugstofuna með okkur (sem hún er farin að þekkja ágætlega - og kallar bara "fréttir"). Þegar atriðið "Hvar er Árni?"um Árna Mathiesen var sýnt (þar sem líkt var eftir teiknimyndabókunum "Hvar er Valli") var mín alveg í leiðslu. Hún tók ekki eftir neinu í kringum sig, var með galopinn munninn og annar vísifingurinn hékk á neðri vörinni. Röddin hans Pálma Gests og allir barnafrasarnir náðu henni gjörsamlega. Þegar atriðinu loks sleppti var eins og leiðslan rofnaði og hún leit brosandi í kringum sig.

Í morgun rifjaðist þetta upp því einhverra hluta vegna sagði Signý upp úr þurru, þegar ég var nýbúinn að klæða hana: "Hvar er Árni?". Hún var ekki spyrjandi á svipinn heldur glettin. Það sem mér finnst merkilegt er að hún virtist gera sér grein fyrir "gríninu" en ekki er síður athyglisvert að hún skuli yfrilett muna eftir þessu enn þá.

Annars muna börn ótrúlegustu hluti. Alls kyns smáatriði sem þau taka eftir, eins og þegar eitthvað vantar. Um daginn horfði hún á Walt Disney teiknimynd með Gúffa, og tjáði sig um það að hann væri í nýjum fötum - nokkuð sem hvarflaði ekki að mér fyrr en hún benti mér á það (liturinn var annar á peysunni en venjulega). Eins muna börn ótrúlega kringumstæður á stöðum sem vekja lukku hjá þeim, jafnvel þó þau hafi bara verið þar einu sinni, og rata nákvæmlega um ef eitthvað minnisstætt átti sér stað þar áður. Eins taka þau eftir því þegar maður keyrir óvenjulega leið á milli staða.

Líklega eru þau vökulli en við sem eldri erum, svona eftir á að hyggja.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Þroskaferli: Fleiri orð og frasar

Ég var að klæða Hugrúnu eftir baðið rétt áðan þegar hún fór að endurtaka undarlegt orð: "dley!". Hún sagði þetta með vissum ákafa. Hún fór að sýna mikla óþreyju þegar ég rétti henni hitt og þetta og hélt áfram að biðja um "dley". Sjálfur var ég orðinn þreyttur eftir langan dag og meðtók ekki hvað hún nákvæmlega sagði. Þá stoppaði ég mig af og ákvað að hlusta markvisst: D-L-E-Y. Síðan fletti ég í Hugrúnarorðabókinni í huganum og mundi eftir orðinu sem nýtilkomnu og mundi sérstaklega að það var óvenjulega samsett miðað við merkingu þess: KREM. Þegar ég loksins bar það undir hana hvort hún vildi fá krem fann ég að henni létti mikið og hún sönglaði orðið gleðilega fyrir sér á meðan ég bar kremið á hana í bak og fyrir.

Það eru alltaf að bætast við ný og ný orð. Sum eru bara á tilraunakenndu stigi, tilfallandi, jafnvel bara eins og bergmál af því sem hún heyrir í kringum sig. Eins og til dæmis á föstudaginn var, þegar við kvöddum starfsfólkið, þá sagði ég "bless-bless" og Hugrún tók eftir þessari tvítekningu undireins og bergmálaði það sem ég sagði: "beþþ-eþþ". Hún hlustar greinilega gaumgæfilega á það sem sagt er og er dugleg að endurtaka.

Um kvöldið kom hún okkur hins vegar verulega á óvart. Ekki með nýju orði, heldur með eins konar setningu. Ég hélt á henni og var að fara með hana inn í svefnherbergi, en stóð um stund fyrir framan Vigdísi. Þá horfði hún hróðug á mig og sagði: "pabbi MINN"! Ég spurði Vigdísi í forundran hvort hún hefði tekið eftir þessu, en hún var ekki viss (sagðist hætt að kippa sér upp við það sem hún segir). Í þeirri andrá bætti Hugrún um betur og sagði: "Mamma MÍN"! Þá urðum við bæði jafn undrandi.

Maður hefur heyrt hana segja ýmislegt öðru hvoru sem líkist setningum, eins og "búin pela" eða "búin núna". Þetta var hins vegar fyrsti óyggjandi vísirinn að markvissri setningarnotkun.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Draumar: Árbæjaróbyggðir og Malvíkingar

Mig dreymdi tvo furðulega drauma í nótt. Annar þeirra var frekar skuggalegur en hinn var bara fyndinn.

Sá fyrri átti sér stað í þeim afskekkta hluta Árbæjarins þar sem Árbæjarsafnið er til húsa, sunnan við Ártúnsbrekku/Vesturlandsveg (heitir það ekki Ártúnsholt?). Þar dreymdi mig að væru óbyggðir (eins og Geldingarnes) nema mikið víðáttumeiri og skógi vaxnar. Holtið gnæfir þar svæðinu í kring, bæði hátt og ógreiðfært, og bæjarbúar sneiða hjá því með því að keyra fram og aftur Höfðabakkann. Einn stígur liggur þó inn á svæðið gegnum skóginn og upp hæðina þar sem hann endar á berangri uppi á toppi. Þar er eins konar sambland af sumarhúsi og eyðibýli, hús sem fáir vita af. Þar fannst mér ég vera staddur ásamt gömlum æskuvini mínum (sem ég hef í raun ekki séð í yfir áratug) og hann var þar með kærustu sinni (sem í raun er bara einhver kollegi minn af BUGL-inu). Við sitjum þarna á verönd seint um kvöld, ég og æskuvinurinn, og erum eitthvað að skoða myrkrið þegar kærastan hans kemur dæsandi til okkar úr rjóðrinu, hálf grátandi, og tjáir sig um það við okkur að hún hafi verið að villast tímunum saman og haldið að hún myndi ekki finna húsið aftur. Ég styð hana varlega og segi henni að ég skilji vel hvernig henni líði vegna þess að ég hef lent í þessu sjálfur. Hún er í miklu uppnámi.

Þá vaknaði ég um miðja nótt, með ónotalega kennd og átti erfitt með að festa svefn strax aftur. Ég náði samt að sofna og náði greinilega að bægja þessu frá mér því um morguninn vaknaði ég með allt annars konar hugsanir:

Ég var á næturvakt á sambýli sem ég vann á fyrir rúmum tíu árum. Næturvaktir nýtast vel til þess að velta vöngum. Mér varð allt í einu hugsað til Malaví, þar sem Stefán Jón Hafstein hefur verið starfandi um nokkurt skeið og fatta í leiðinni að íbúar Malaví hljóti að kallast Malvíkingar, af því að Malaví er alveg eins og Reykjaví (ekkert K). Ég var svo uppnuminn yfir þessari uppgötvun að það hvarflaði að mér að hafa samband við Stefán Jón sjálfan og segja honum frá því hvernig hann getur loksins ávarpað fólkið kringum sig. Þá finnst mér eins og hann hafi svarað mér (því allt rennur saman í draumum) með því að þakka mér góðfúslega fyrir uppástunguna en að hugmyndin gangi einfaldlega ekki upp: Malaví er landlukt og því engin leið að ímynda sér að víkingar hafi gengið þar á land.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Þroskaferli: 18 mánaða orðaforði

Það er svolítið undarlegt að Hugrún skyldi hafa veikst í vikunni, í fyrsta skipti í marga mánuði, því hún fór í 18 mánaða skoðun á mánudaginn var. Þá gátum við lýst því yfir að hún hafi verið stálhraust lengi. Strax um kvöldið fékk hún hita. Reyndar fékk hún sprautu, en það var líklega ekki það sem olli hitanum því hún átti ekki að hafa þannig áhrif fyrr en 5-10 dögum seinna (sem er þá á næsta leyti núna). Maður er alltaf uggandi yfir blöðrubólgueinkennum, sem eru lágur einkennalaus malllandi hiti í lengri tíma í senn. Miðað við hvað þetta hjaðnaði fljótt (á tveimur dögum) bendir allt til að hér hafi verið á ferðinni eitthvað léttvægt úr leikskólanum.

Í skoðuninni kom Hugrún sérlega vel út. Hún var vigtuð og mæld í bak og fyrir (man ekki tölurnar núna) en mér er minnisstætt að hún var ekki lögð á bekkinn til mælingar, eins og maður er vanur, heldur stóð hún eins og fullorðin manneskja upp við vegg og var hæðarmæld þannig. Við vorum spurð út úr ýmsum þroskaþáttum, eins og hvort hún setji saman kubba, hvort hún liti og veiti hlutum í kringum sig eftirtekt annað slíkt. Að sjálfsögðu. Svo spurði hún okkur um það hvað hún noti mörg orð að jafnaði. Þá var ég brattur á því og sagði að það væri líklega yfir hundrað orð! Mér sýndist það fá pínulítið á hjúkrunarkonuna og hún svaraði því að þá hlyti hún að vera býsna bráðþroska. Henni sýndist það reyndar, og gerði á engan hátt lítið úr staðhæfingunni, en ég fékk smá bakþanka eftir á. Það hefur lengi staðið til að telja orðin en ekki orðið af því til þessa. Af því tilefni ætla ég mér að tileinka þessa færslu orðaforða Hugrúnar.

Fyrir nokkrum mánuðum tók ég eitthvað saman (sjá hér). Í þetta skiptið er orðaforðinn nokkuð lengri og því prýðilegt ástæða til að flokka orðin eftir skyldleika þeirra. Ég set framburðinn hennar Hugrúnar inn í sviga ef hann víkur frá hefðbundnum framburði. Hins vegar set ég spurningamerki innan sviga við orð sem ég man ekki framburðinn á eða mig minnir að séu komin (en hef ekki heyrt lengi).

Persónur: Pabbi, Mamma, Signý/Systir (Diddí/Diþdí), Ásdís (?), Sæunn (?)

Ýmis samskiptaorð og upphrópanir: Takk (datþ), vei, vá, ái, frá! (bá), frá! (ba-bú), bless (beþþ), bæ, hæ, halló (alló)

Ábendingarorð: Svona (þvona), Þetta (dedda), búið, já, nei

Líkamshlutar: Nef (neþ), auga, munnur (?), eyra (eyja), hárið (?), nafli (blabli), magi (bubba), tá/tásur (dá/dáþu)

Hlutir (innandyra): Ljósið (lóþþi), stóll (dól), bað (baþ), gluggi (dlutli)

Leikföng og smáhlutir: snuð (dudda), tannbursti (da-dudda), leikföng (dóti), bolti (botti), púslið (dlútli)

Föt/klæði: Skór (dló), buxur (buþuna), húfa (úva), bleia (beyja), úlpa (blúbla)

Umhverfið (utandyra): Snjór (þjónni), Pollur (?), laufblað (blaubla), blómið (blommi),

Dýr: Kisa (miþþa), hundur (voffi), api (abi), ugla (glugla/ú-hú), skjaldbaka (dadada), fugl (bíbí), fiðrildi (dillidí), kind (meme)

Farartæki: Bíllinn (bídlin), Hús/húsið (úþi), lest (tútú).

Athafnir: Pissa (biþþa), kúka, drekka (dlettla), ganga (labbilabb), sitja (didda), standa (dadda), sofa (lúlla), detta/datt, lita (laþa)

Matur/matarílát: Mjólk (?), peli (bela), glas (glaþ), brauð (blauþ), matur (namminamm), vatn (?), melóna (?), banani (manana), epli (blebli), ís (íþ), ber (beþ), allt morgunkorn = cheerios (dejóþ)

Sjónvarpsfígúrur: Dóra (dóla), Bubbi byggir (bubbi biþþi), Mikki mús (miþþa múþ), múmínalfarnir (múmín), barbapabbi (babba-ba), bambi (bambaló), Latibær (ba-ba-bæ)

Í sjónvarpinu: Fréttir (détti), Lottó

Ýmsu er sleppt í þessum lista, sérstaklega hljóðeftirhermun og tilfallandi eftiröpun sem ekki er í virkum orðaforða og svo öllu því sem ég hef gleymt (svona listi tínist bara hægt og bítandi saman).

laugardagur, nóvember 08, 2008

Upplifun: Ungbarnafriður

Bjartur og Jóhanna voru að eignast dóttur fyrir stuttu. Sú óskírða kom í heiminn nokkrum dögum áður en Vigdís fór út til Köben. Á meðan stalst ég í heimsókn (enda í svo góðu fríi þá) og tók þessa mynd. Það er alltaf svo mikill friður yfir nýfæddum börnum og greinilegt að henni leið mjög vel. Þau Bjartur og Jóhanna eiga einn son fyrir (Friðrik Val) sem er fjórum mánuðum eldri en Signý. Mér skilst að hann sé mjög stoltur af litlu systur. Það verður mjög gaman að sjá hvernig samskipti þeirra eiga eftir að þróast.



Óskírð Bjartsdóttir
Originally uploaded by Steiniberg.



Nokkrum dögum eftir að Vigdís kom heim frá Danmörku fórum við saman í "formlega" heimsókn, með gjöf og öllu því sem tilheyrir. Þar sátum við í notalegu yfirlæti við dekkað hádegishlaðborð og nutum veitinga og gjóuðum til þeirrar nýfæddu á meðan nafnatillögur sveimuðu yfir borðinu. Ungbarnafriðurinn sem nærði stofuandann var í hróplegri andstöðu við togstreituna í samfélaginu úti fyrir. Minnir mann á hin raunverulegu gæði þegar "sýndarverðmæti springa eins og loftbólur" allt í kringum mann.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Daglegt líf: Signý og Hugrún í leikskólanum

Núna í vikulokin er minnisstæðast að veikindi fóru að banka á dyrnar hjá okkur á ný eftir margra mánaða hlé. Hugrún veiktist lítillega á þriðjudag og var frá leikskóla í tvo daga. Það reyndist vera minniháttar og hún var fersk í gær og í dag. Signý var hins vegar slöpp í dag. Var með eitthvað í hálsinum í gær (með viskírödd) en brött þrátt fyrir það. Í morgun var hún hins vegar ekki sjálfri sér lík í leikskólanum, lífslgöð eins og hún er, og kúrði bara í stað þess að leika sér. Ég sótti hana um tíuleytið. Samkvæmt mælingum heima reyndist hún hins vegar ekki með hita. Vonandi er þetta hvort tveggja að baki.

Við þetta sköpuðust hins vegar þær sérstöku aðstæður að ég fór heim með Signýju án þess að ná í Hugrúnu líka. Signý er mjög meðvituð um litlu systur sína á yngstu deildinni og spurði mig um hana um leið og ég hélt á henni út um dyrnar. Ég tók stóran sveig fram hjá glugganum hennar Hugrúnar (til að koma henni ekki úr jafnvægi) en benti Signýju hins vegar á að þarna sæti litla systir, fyrir innan gluggann í fjarska. Þegar hún skildi að ég myndi skilja Hugrúnu eftir fór hún að gráta, með sinni veiku röddu, og fannst greinilega óþægilegt að skilja systur sína eftir. Skyldi hún hafa svona mikla verndarþörf? Fannst henni Hugrún vera óörugg svona ein í leikskólanum? Að minnsta kosti grét hún ámátlega á leiðinni heim. Þá skildi ég við hana með Vigdísi (sem er enn í fríi, sem betur fer) og fór sjálfur í vinnuna á ný.

Þegar ég sótti Hugrúnu um fjögurleytið fagnaði sú litla mér ákaft en um leið og við komum í fatahengið spurði hún um systur sína. "Diþdi" (systir) sagði hún undrandi, aftur og aftur, og fannst greinilega vanta systur sína.

Signý og Hugrún eru bundnar mjög sterkum tilfinningalegum böndum. Starfsfólkið hefur tjáð sig um það við mig að það sé mjög sætt að sjá þær hittast á leikskólalóðinni. Þá hlaupa þær í fangið á hvorri annarri. Síðan fylgir Signý Hugrúnu eftir og hjálpar henni í leiktækjunum. Ég gæfi mikið fyrir að fá að fylgjast með því.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Fréttnæmt: Feðraorlofi lýkur

Nú á ég ekki nema einn dag eftir af feðraorlofinu mínu. Ég byrja að vinna aftur á þriðjudag. Ég hálfpartinn öfunda Vigdísi af því að vera áfram í fríi. Þetta fór vel í mig. Yfir daginn er maður alveg einn, fyrst Hugrún er komin í leikskóla. Þannig var það undir það síðasta. Vonandi upplifi ég þetta aftur í næsta fríi. Væntanlega þegar kennarar fara í jólafrí og svo í páskafríinu. Sem betur fer (fyrir mig) eiga grunnskólakennarar fleiri frídaga yfir hátíðirnar en leikskólakennarar.

Daglegt líf: Heimkoma

Vigdís kom á tilsettum tíma heim, á fimmtudaginn var. Daginn eftir átti Hugrún eins og hálfs árs afmæli. Hvort tveggja leið hjá á tiltölulega látlausan hátt. Signý og Hugrún tóku móti Vigdísi allt að því hversdagslega. Það var góðs viti að vissu leyti, sem vitnisburður um það að þær hafi ekki skort neitt í þessa fjóra daga. Ég passaði upp á að hafa alltaf nóg að gera með þeim meðan Vigdís var í burtu. Við fórum í margar heimsóknir þannig að þær upplifðu ekki neina fábreytni þó Vigdís væri fjarri Svo eru þær vanar því að fara að sofa öðru hvoru án móður sinnar vegna þess að hún vinnur stundum kvöldvaktir. Þetta gekk því átakalaust fyrir sig og Vigdís var satt að segja nokkuð hvumsa yfir því. Þetta var í rauninni bara eins og löng helgarvaktatörn. Hvað Hugrúnu varðar (og hennar tímamót) gerðum við ekkert til að halda upp á það annað en að minnast á það hér og þar við þá sem á vegi okkar urðu. Ég ætlaði mér að vera með myndarlegan pistil um þroskastöðu hennar á þessum tímamótum, en það verður víst að bíða ögn lengur. Maður er alltaf að glíma við þennan blessaða tímaskort.